Fréttasafn31. des. 2021 Almennar fréttir

Þau sem starfa í iðnaði hafa skilað góðu starfi á árinu

Félagsmenn Samtaka iðnaðarins, líkt og landsmenn allir, hafa þurft að glíma við ótal úrlausnarefni á tímum heimsfaraldurs og efnahagsóvissu. Aðfangakeðja heimsins hefur raskast með tilheyrandi töfum á flutningum, skorti á aðföngum og hærra verði. En með útsjónarsemi hefur tekist að halda hjólunum gangandi og má því með sanni segja að þau ríflega 40 þúsund sem starfa í iðnaði hér á landi hafi skilað góðu starfi. Það var svo sannarlega ekki sjálfgefið. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein í Markaðnum með yfirskriftinni Ár efnahagslegra framfara framundan.

Hugvitið okkar verðmætasta auðlind

Í grein Sigurðar segir að á árinu hafi hugverkaiðnaður orðið fjórða stoðin í útflutningsöflun þjóðarinnar ásamt orkusæknum iðnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Hugverkaiðnaður skapaði 16% af útflutningstekjum og vöxtur þessa iðnaðar undanfarin ár sýnir að í honum felast raunveruleg tækifæri fyrir Ísland. Fyrirtæki í hugverkaiðnaði eigi það sameiginlegt að byggja á fjárfestingu í rannsóknum og þróun og hafa nær ótakmörkuð vaxtatækifæri. „Það er engum blöðum um það að f letta að hugvitið er okkar verðmætasta auðlind. Því er mikilvægt að hlúa að þessum mikilvæga iðnaði svo hann fái að vaxa og dafna enn frekar.“

Húsnæðismálin ofarlega á dagskrá í sveitarstjórnarkosningum

Áskoranir næsta árs verða engu minni en á árinu sem senn er liðið segir Sigurður. Sveitarstjórnarkosningar séu fram undan og þar verði húsnæðismálin án efa ofarlega á dagskrá. Á árinu hafi ítrekað komið fram að skortur sé á íbúðum sem leitt hafi til hærra fasteignaverðs með tilheyrandi verðbólgu og vaxtahækkunum. Húsnæðismálin hvíla þungt á landsmönnum og ljóst sé að finna þurfi viðunandi lausnir á vandanum. „Stjórnendur stærstu sveitarfélaganna bera þar mikla ábyrgð. Ráðast þarf í aðgerðir til að liðka fyrir frekari uppbyggingu íbúða.“

Mikið í húfi að vel takist til í kjaraviðræðum

Þá segir Sigurður að á nýju ári munu kjaraviðræður setja mark sitt á umræðuna. Þar sé mikið í húfi að vel takist til. Yfirvegað og gott samtal aðila vinnumarkaðarins sé lykillinn að því og hægt sé að leggja grunninn að vaxtarskeiði sem landsmenn allir njóta góðs af. „Með fleiri stoðum útflutnings verður samtalið á vinnumarkaðnum flóknara og hætta er á að hagsmunir útflutningsgreinanna rekist á.“

Fyrirætlanir nýrrar ríkisstjórnar lofa góðu

Í niðurlagi greinarinnar segir Sigurður að tækifærin séu ótalmörg til að bæta lífskjör landsmanna. Hvort sem sé á sviði hugverkaiðnaðar, innviðauppbyggingar eða grænna lausna. En allt byggi það á að réttar ákvarðanir verði teknar. „Eitt stærsta viðfangsefni stjórnvalda hvort sem er á landsvísu eða í sveitarstjórnum er að ryðja hindrunum úr vegi til að hægt verði að grípa tækifæri nýs árs. Tækifæri sem skapa ný verðmæti öllum til hagsbóta. Þegar horft er fram á veginn er full ástæða til bjartsýni. Fyrirætlanir nýrrar ríkisstjórnar sem birtast í stjórnarsáttmálanum lofa sannarlega góðu og ef rétt er á málum haldið eru ár efnahagslegra framfara fram undan.“

Markaðurinn, 29. desember 2021.

Markadurinn-29-12-2021