Fréttasafn



22. maí 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Þegar skipt er við innlendu fyrirtækin fer keðjuverkun af stað

Hið opinbera eins og við öll ættum að hugleiða það að skipta við hvort annað. Við upplifum nú móður allra kreppna. Þetta er líklega mesta kreppa í heila öld, ekki bara hér á landi heldur um allan heim. Staðan hjá okkur núna er að það eru um 60 þúsund manns atvinnulausir eða í hlutastarfaleið og ríkissjóður verður rekinn með hátt í 300 milljarða halla á árinu. Myndin er heldur dökk og stóra verkefnið fyrir utan það auðvitað að huga að heilsu og heilbrigði landsmanna hlýtur þá að vera það að verja störf og skapa ný störf, skapa verðmæti þannig að við náum aftur fyrri stöðu og gott betur og lágmörkum þetta efnahagslega tjón. Af þessum ástæðum þá auðvitað ættum við öll að huga að því að skipta hvert við annað, við innlendu fyrirtækin vegna þess að þegar við gerum það þá fer af stað keðjuverkun. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgunni þar sem rætt var um velja íslenskt og versla innanlands í kjölfar þess að gerðar hafa verið athugasemdir við val í útboði þar sem ríkið kaupir þjónustu af bresku auglýsingafyrirtæki. 

Keðjuverkun sem tryggir að heimilin, efnahagslífið og samfélagið haldist gangandi

Þegar þáttastjórnendur vísa til þess að Bretar ætli að reyna að halda sínum verkefnum innanlands og spyrja Sigurð hvort íslenska ríkið sé að fara þessa leið almennt segir hann: „Ég get allavega sagt frá því að við hjá Samtökum iðnaðarins auk annarra samtaka í atvinnulífinu höfum tekið höndum saman með stjórnvöldum um markaðsátak til þess einmitt að hvetja landsmenn til þess að skipta við innlend fyrirtæki. Það gengur þá um það opinbera líka. Miðað við það þá auðvitað er ríkið að hugsa á þeim nótum. Ég held að það skipti miklu máli í þessu árferði sem nú er að við séum að huga að þessari keðjuverkun, séum að verja störfin, stuðla að uppbyggingu og tryggja það að heimilin, efnahagslífið og samfélagið allt haldist gangandi.“

Sigurður segir að hægt sé að sjá dæmi út um allt hvernig þetta skiptir máli. „Það er líka bara vegna þess að það er svo margt sem er gert hér innanlands sem er gott og einkennist af gæðum og er vel samkeppnishæft við það sem er gert annars staðar. Við eigum auðvitað að horfa til þess líka.“

Erfitt að komast inn í útboð annars staðar

Sigurður segir að það sé býsna misjafnt hvernig lönd innan Evrópska efnahagssvæðisins séu að nálgast þessi mál. „Við höfum alveg heyrt það frá okkar félagsmönnum að þeir hafa átt erfitt með að komast inn í útboð annars staðar. Önnur lönd eru að passa meira upp á þessa þætti.“ Þá segir hann að það sé auðvitað verið að gera margt gott hérna sem við eigum að horfa til.„En svo auðvitað þarf hver og einn að gera upp sinn hug og meta hvað hentar honum eða henni. En þetta er auðvitað eitthvað sem við eigum að huga að og líta á sem valkost.“

Með vali höfum við áhrif á hverjum einasta degi

Þegar hann er spurður hvert sé mikilvægasta skrefið sem neytendur geti tekið til að styðja við íslenska framleiðslu og verslun segir hann: „Að við séum öll meðvituð um þetta og hugsa það þegar við förum út í búð hvaðan vörurnar koma og hvaða áhrif það hefur á samfélagið allt saman að skipta við innlend fyrirtæki vegna þess að með vali okkar þá höfum við áhrif á hverjum einasta degi.“

Á vef Bylgjunnar er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.

Bylgjan, 20. maí 2020.