Fréttasafn29. mar. 2022 Almennar fréttir Mannvirki

Þörf á eftirliti með ófaglærðum

Í sérblaði Fréttablaðsins um Verk og vit er rætt við Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, sem segir að eftirlit sé haft með iðnmeisturum, byggingarstjórum og löggiltum rafverktökum, sem eru á skrá hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, en ekkert eftirlit sé með þeim sem hafi í raun ekki heimild til að starfa í fögunum. Meistaradeild SI og Samtök iðnaðarins hafa lengi talað fyrir því að þörf sé á eftirliti með ófaglærðum sem starfa í einstökum iðngreinum. „Þetta er mjög skakkt og eflaust fáir neytendur sem gera sér grein fyrir því. Á síðunni meistarinn.‌is hafa meistarafélögin safnað saman hagnýtum upplýsingum og útbúið verksamninga og gátlista sem er gott fyrir eigendur fasteigna og húsfélög að hafa til hliðsjónar við val á fagaðila. Við viljum með þessu bæta upplýsingagjöf og reyna að koma í veg fyrir tjón eða ágreining.“

Í viðtalinu kemur fram að undir hatti Meistaradeildar SI starfi þrettán meistarafélög í byggingar- og mannvirkjagerð. Félögin hafi undanfarin ár lagt sérstaka áherslu á að bæta fræðslu og upplýsingaflæði um mikilvægi þess að fá faglærða iðnaðarmenn í verkefni og að undirbúningur verksins skiptir sköpum. Til að miðla þessum upplýsingum áfram hefur Meistaradeild SI sett upp heimasíðuna meistarinn.is þar sem neytendur geta með einfaldri leit fundið iðnmeistara á öllu landinu. Þá kemur fram að til að hvetja neytendur enn frekar til að huga að því að fá faglærða iðnaðarmenn í minni verkefni hafi Meistaradeild SI stofnað ábyrgðarsjóð. „Tilgangur sjóðsins er að skapa traust á milli viðskiptavina og verktaka sem starfa innan Meistaradeildar SI og tryggja viðskiptavinum félagsmanna, eins og kostur er, að vinna framkvæmd af félagsmönnum sé í samræmi við skriflegt samkomulag um verkið og góð fagleg vinnubrögð.“

Fyrirbyggja ágreining með verksamningi eða verklýsingu

Jóhanna Klara segir í viðtalinu of oft koma upp ágreiningsmál á milli viðskiptavina og iðnaðarmanna og þá er oft leitað til meistarafélaganna innan Samtaka iðnaðarins.„Til að koma í veg fyrir slíkt er mikilvægt að iðngreinarnar standi sig betur við undirbúning verks, en í nær öllum málum þar sem ágreiningur kemur upp hefur ekki legið fyrir svokallaður verksamningur né verklýsing. Til að fyrirbyggja ágreining er því mikilvægt að það liggi skýrt fyrir um hvaða verk sé rætt. Því miður kemur allt of oft til ágreinings í verkum vegna skorts á verklýsingum en þá er deilt um það hvað átti nákvæmlega að framkvæma og fyrir hvaða verð.“ Hún segir vel hægt að fyrirbyggja þetta með góðum undirbúningi og því að gera skriflegan og skýran verksamning. „Á meistarinn.is höfum við sett inn dæmi um verksamninga fyrir bæði minni og stærri verk, og sem eru mikið notaðir. Þeir ættu að koma að góðum notum við undirbúning verka og þar með draga úr ágreiningsmálum.“

Átakið Allir vinna hefur skilað góðum árangri

Þá kemur fram í viðtalinu við Jóhönnu Klöru að svört atvinnustarfsemi sé of algenga í iðngreinum, en í skýrslu starfshóps um umfang skattaundanskota og tillögur til aðgerða frá árinu 2017 komi meðal annars fram að af málum sem komu á borð ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra hafi undanskot á tímabilinu verið hvað algengust í byggingariðnaði. „Átakið „Allir vinna“ sem nú stendur yfir og er 100 prósent endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu og hönnunar við íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði og mannvirkja í eigu tiltekinna félagasamtaka og sveitarfélaga, hefur þó skilað góðum árangri, bæði á síðasta ári sem og á árunum 2009 til 2015 þegar það var síðast í gangi.“ Hún segir átakið hafa verið vel nýtt af neytendum sem hafi með viðhaldi og endurbótum stutt við starfsemi einyrkja og minni fyrirtækja sem starfi fyrst og fremst við viðhald fasteigna. „Á þeim markaði eru faglærðir iðnaðarmenn oft í samkeppni við réttindalausa aðila og svarta atvinnustarfsemi en átakið dregur úr slíkum viðskiptaháttum og styður því við fyrirtæki sem vinna eftir lögum og reglum.“

Í blaðinu kemur fram að „Allir vinna“ hafi verið framlengt tímabundið. Því sé nú aðeins hægt að sækja um 100 prósent endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu iðnaðar- og verkamanna sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis til og með 31. ágúst. „Eftir 31. ágúst miðast endurgreiðslan aftur við 60 prósent, en 100 prósent endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu iðnaðar- og verkamanna, sem unnin er á byggingarstað við nýbyggingu, viðhald og endurbætur frístundahúsnæðis og húsnæði í eigu sveitarfélaga, sem og vinnu við hönnun, eftirlit og reglulega umhirðu íbúðarhúsnæðis, hefur einnig verið framlengd en aðeins til og með 30. júní á þessu ári.“ 

Fréttablaðið, 24. mars 2022.

Frettabladid-24-03-2022