Fréttasafn



8. maí 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Þrátt fyrir svart ástand bera sig allir vel enda verkefnin ærin

Árni Sigurjónsson, fyrrum varaformaður og nú nýkjörinn formaður SI, segir í viðtali við Sigmund Erni Rúnarsson, í þættinum 21 á Hringbraut að hann hafi fengið mikla hvatningu frá félagsmönnum að gefa kost á sér og segir það verða vandasamt að feta í fótspor Guðrúnar Hafsteinsdóttur. „Við höfum unnið mjög þétt og náið saman síðustu ár. Hún hefur verið mjög farsæll formaður. En þetta var gleðilegt.“

Þegar Árni er spurður hvernig hljóðið væri í fólkinu í kringum hann í því ástandi sem er vegna kórónuveirufaraldursins segir hann það mjög misjafnt eftir geirum. „Ég held að Helgi Björns hitti naglann nokkuð vel á höfuðið þegar hann segir það bera sig allir vel. Fólk gengur út frá því að þetta sé skammvinnt en auðvitað finna mismunandi geirar fyrir þessu á mismunandi hátt. Þannig að félagsmenn okkar margir hverjir fundu strax fyrir þessu. Þetta er svona að síast inn. Þetta er öll ein keðja atvinnulífið. Ferðaþjónustan í þeirri stöðu sem hún er, útlitið fremur dökkt, hefur áhrif út í hina geirana. En almennt held ég að menn beri sig vel. Við erum full af bardagaþrótti við Íslendingar, við höfum séð kreppur en ástandið er svart. Því skal ekki neitað og verkefnin eru ærin. Við stöndum frammi fyrir því núna að greina þetta, klára að fara í þessar aðgerðir og framkvæma.“

Mikil tækifæri hér á landi

Árni segir að hér á landi eigum við frábæra fagmenn í öllum geirum, við búum í matarkistu og höfum gert um aldir. „Þú nefnir loftslagsbreytingar og umhverfismálin. Við erum að sjá mikla þurrka eins og á síðasta ári í Evrópu og Afríka búið að glíma við í áratugi. Á meðan við erum hérna með gott land, hentugt land til matvælaframleiðslu. Auðvitað eigum við að nýta okkur það. Sjálfbærni, það er það sem við erum að predika í Marel til dæmis, aukin sjálfbærni og betri nýting á umhverfisþáttum eins og vatni, rafmagni og annað slíkt. Við höfum feykinóg af vindafli og vatnsafli, við eigum orku, við eigum fiskimið, við eigum frábært hráefni. Ekkert af þessu hefur farið. Auðvitað eru mikil tækifæri í þessu.“

Hann segir að við þurfum aðeins að núllstilla okkur í þessu ástandi. „Það gera það allir og hugsa inn á við og það höfum við öll gert á þessum skamma tíma, þetta eru nokkrar vikur. Við þurfum aðeins að taka sjálfskoðun inn á við. Hvað erum við að gera vel og hvað getum við gert betur. Grænmetisbændur eru byrjaðir að bregðast við. Friðheimar eru að stækka, meiri tómatarækt. Þetta er það sem hefur vantað hjá okkur og auðvitað eigum við frábært hráefni. Við finnum öll fyrir því þegar við förum í búðir og ekki síst núna síðustu vikur, við höfum velt fyrir okkur hvað er íslenskt, hvar er ferskleikinn. Við eigum frábærar íslenskar vörur og þjónustu sem við eigum að kaupa. Því það mun verja störf og skapa störf. Svo eru þetta svo frábærar vörur og frábært fólk sem er að sinna þessu.“

Fyrirtæki eru að grípa til aukinnar tækni

Árni segist vona að áhrif veirunnar kenni okkur eitthvað en það fari eftir því hversu fljótt undið verði ofan af þessu. „Eina vissan er óvissan á þessum tímapunkti en það hlýtur eitthvað að breytast. Þetta hlýtur að hafa í för með sér ákveðna þjóðfélagslega eða menningarlega breytingu, ekki bara fyrir Íslendinga heldur um heim allan. Það er ekkert útilokað að þetta hafi varanleg áhrif. Við sjáum að íslensk fyrirtæki og fyrirtæki í öllum heiminum eru að grípa til aukinnar tækni. Það hefur verið vísað í menntamálaráðherra sem var að tala um að við höfum hlaupið einhver ár fram í tímann á þessum skamma tíma. Skólar hafa verið að tölvuvæðast ennþá frekar. Menn eru að bregðast við ástandinu. Fundir hafa styst og eru orðnir hnitmiðaðri. Fólk hefur ekki nennu að vera fyrir framan skjáinn í marga klukkutíma. En auðvitað sakna margir þess að geta ekki tekið þetta persónulega spjall og persónulegu nándina. Auðvitað kemur það smátt og smátt til baka.“

Áratugur nýsköpunar ef við höldum rétt á spilunum

Þegar talið berst að nýsköpunarmálum segir Árni að samkeppnishæfni Íslands sé undir, nýsköpunin sé framtíðarvaxtabroddur okkar og huga þurfi að því að hvernig eigi að skapa þessi störf sem eru núna að tapast, vonandi bara tímabundið. „En við þurfum að bæta við í útflutningstekjum, hagkerfið þarf að stækka og við þurfum að stefna að enn frekari velsæld. Þessir hvatar sem núna eru hluti af aðgerðarpakka ríkisstjórnarinnar er til dæmis alveg frábært skref í þá átt varðandi endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði. Þetta mun hjálpa fjölmörgum fyrirtækjum að gera aðeins meira, leggja aðeins meira í þetta. Þarna er kominn jákvæður hvati. Þetta er barátta sem Ísland á alveg að geta unnið. Þetta á að geta orðið áratugur nýsköpun á Íslandi ef við höldum rétt á spilum. Við horfum á þessi stærstu fyrirtæki í heimi í dag, þau eru að selja hugvit. Þau eru ekki endilega að selja prentara eða prenthylki eins og var hérna fyrir nokkrum áratugum. Þetta snýst mikið um fólk, hugmyndir og mannauð.“

Árni segir að flest íslensk fyrirtæki hvort sem þau geri sér grein fyrir því eða ekki séu að stunda mjög mikla nýsköpun, hvort sem það sé í ferlum eða nýjum vörum. Hann segir að nýsköpun og Ísland fari vel saman. „Það er eitthvað í okkar lund og okkar geði sem gerir það að verkum að það er þolgæði, þrautseigja og þetta reddast hugarfar. Okkur hefur gengið vel í nýsköpunarmálum. Starfsumhverfið er að breytast. Hvatarnir eru að aukast. Það mun allt hjálpa okkur til skamms og lengri tíma.“

Komast þarf í gegnum skaflinn núna en ekki gleyma langtímamarkmiði

Í lok viðtalsins segir Árni að hvað varði stefnu Samtaka iðnaðarins sjái hann ekki stóra ástæða til að breyta um kúrs. „Auðvitað verður einhver blæðbrigðamunur á því hver er í brúnni. Nú er að koma til starfa ný stjórn með mér. Við höfum markað stefnu tiltölulega nýlega fyrir samtökin til næstu ára. Sum af þeim stefnumálum sem við höfum verið að leggja fram á síðustu misserum og árum, eins og innviðafjárfestingar, nýsköpun eða byggingamarkaðinn og annað slíkt þá er þetta allt að komast til aðgerða núna sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnar. Við finnum fyrir miklum stuðningi við þessa hluti. Það þarf áfram að vinna að þessum sömu stefnumálum. Ég tók þátt í þessari stefnuvinnu eins og aðrir þannig að mér finnst mjög mikilvægt að horfa á langtímamyndina líka. Við erum í skammtíma-aðgerðum núna. Við erum að vernda heimilin og fyrirtækin og koma mönnum gegnum skaflinn eins og við mögulega getum en við megum ekki gleyma langtímamarkmiðinu, stóru myndinni, og það er það sem við ætlum að tryggja á næstu árum. Að við höldum áfram á þessum riþma. Gera alltaf betur í dag en í gær og vera þetta hreyfiafl sem þarf í íslensku atvinnulífi og þjóðfélagi.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á viðtalið við Árna frá mínútu 16.

Hringbraut-05-05-2020Árni Sigurjónsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson ræddu saman í þættinum 21 á Hringbraut.