Þróunin hagfelldari en óttast var
„Við vonum að þetta bendi til að menn hafi sýnt varkárni í byrjun en að þróunin sé heldur hagfelldari en menn óttuðust,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í samtali við Baldur Arnarson, blaðamann, í Morgunblaðinu í dag en fækkað hefur á atvinnuleysisskrá milli mánaða í byggingariðnaði og framleiðsluiðnaði. Sigurður segir að hins vegar sé óvíst um nettóáhrif niðursveiflunnar á framboð starfa í iðnaði en bendir á að bygginga- og mannvirkjagerð sé stór atvinnugrein, vægi hennar í landsframleiðslu og á vinnumarkaði hafi verið um 7% í fyrra. Þá hafi um 12.400 launþegar starfað í greininni í janúar, um 1.000 færri en árið áður og 500 fleiri en í fyrra. „Niðursveifla var hafin í greininni, líkt og í hagkerfinu öllu, fyrir kórónuveirufaraldurinn. Ríflega þúsund manns voru án vinnu í greininni í apríl en um 500 í sama mánuði í fyrra. Við þetta bætist að í greininni voru 1.638 komnir í minnkað starfshlutfall í apríl.“
Samdráttur í bygginga- og mannvirkjagerð hefur víðtæk áhrif á hagkerfið
Sigurður segir að heildarumfang fjárfestinga í byggingum og mannvirkjum hafi verið um 536 milljarðar króna í fyrra. „Af því voru fjárfestingar atvinnuveganna um 267 milljarðar, fjárfestingar í íbúðarhúsnæði 167 milljarðar og hins opinbera 102 milljarðar. Þetta eru háar tölur og er vægi þeirra í verðmætasköpun hagkerfisins mikið, eða um 18% á síðastliðnu ári. Það er meðal annars vegna þessa mikla vægis sem samdráttur á þessu sviði hefur víðtæk áhrif á hagkerfið langt út fyrir raðir fyrirtækja í bygginga- og mannvirkjagerð.“ Í fréttinni kemur fram að áætlaður kostnaður við framkvæmdir til að vega á móti samdrættinum sé ríflega 70 milljarðar króna. Sigurður segir aðspurður að sú uppbygging, sem og uppbygging annarra innviða, svo sem vega, muni verja og skapa störf í iðnaði en nettóáhrifin, sé tekið mið af stöðu efnahagslífsins, verði þó að líkindum fækkun starfa í greininni.
Ekki útlit fyrir mikinn brottflutning erlendra byggingarverkamanna
Einnig segir Sigurður að með hliðsjón af þróuninni eftir fjármálakreppuna 2008 sé ekki útlit fyrir mikinn brottflutning erlendra byggingarverkamanna, staðan sé enda einnig erfið víða erlendis vegna faraldursins. Í fréttinni segir að samkvæmt greiningu Vinnumálastofnunar hafi um 8,5% atvinnulausra erlendra ríkisborgara í aprílmánuði verið starfandi í iðnaði. Þá hafi hlutfallið verið 10,3% í hlutabótaleiðinni. Alls hafi 5.700 erlendir ríkisborgarar verið þá án vinnu og um 8.200 á hlutabótaleiðinni. Út frá þessum hlutföllum megi ætla að um 500 erlendir starfsmenn hafi verið án vinnu og um 800 á hlutabótaleiðinni. Þá segir að tölur Samtaka iðnaðarins yfir þetta séu hins vegar hærri.
Tilfærsla í störfum í átt að hugverkaiðnaði
Sigurður segir í fréttinni að á uppgangsárunum hafi bankakerfið laðað til sín fólk sem hafði fjármál ekki á sínu sérsviði, sérfræðimenntun þess hafi því nýst á öðrum sviðum, til dæmis í hugverkaiðnaði og sagan geti að einhverju leyti endurtekið sig, nú þegar endurskipulagning ferðaþjónustunnar standi fyrir dyrum. „Ég held að nú verði tilfærslan mest í átt að hugverkaiðnaði.“ Hann segir að binda megi miklar vonir við hugverkaiðnaðinn á næstu árum. Aukinn stuðningur stjórnvalda gegni þar mikilvægu hlutverki líkt og hækkun þaks á endurgreiðslum og endurgreiðsluhlutfalli vegna nýsköpunar. Ef allt gangi að óskum geti 3-5 alþjóðleg fyrirtæki í hugverkaiðnaði orðið til á hverjum áratug á Íslandi. Hingað til hafi að jafnaði eitt slíkt fyrirtæki, eða ekkert, orðið til á hverjum áratug síðustu áratugi. Þar sé um að ræða fyrirtæki á borð við Marel, Össur og CCP.
Morgunblaðið, 26. maí 2020.