Fréttasafn



23. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Þurfum 100 Omnom eða 3 Marel á ári næstu 30 árin

Á Iðnþingi 2020 ræddi Logi Bergmann við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, og Sigríði Mogensen, sviðstjóra hugverkasviðs SI um þá áskorun sem felst í að skapa þurfi 60 þúsund ný störf fram til ársins 2050.  Logi spurði Ingólf meðal annars að því hvernig þessi tala, 60 þúsund, væri fengin. Ingólfur sagði að þetta væri talsverð fjölgun á okkar vinnumarkaði. „Við erum með rétt um 200 þúsund starfandi á íslenskum vinnumarkaði í dag þannig að við erum að sjá verulegan vöxt ef þetta verður að veruleika. Þetta er sá fjöldi sem þarf til að ná atvinnuleysinu niður og síðan það sem þarf til að mæta væntri fjölgun á vinnumarkaði. Segja má að þetta sé sá fjöldi starfa sem við þurfum til að skapa góð efnahagsleg lífsgæði hér á landi.“

Ingólfur sagði að það væri þægilegt þegar um væri að ræða svona stóra tölu að kljúfa hana upp. „Við erum að tala um 2 þúsund störf á ári eða 40 á viku. Til að nefna iðnfyrirtæki, sem sprottin eru upp úr umræðunni hér sem er nýsköpun, þá eru þetta 100 Omnom, 10 CCP, 4 Össur eða 3 Marel sem þarf að skapa á hverju ári öll þessi 30 ár. Þannig að verkefnið er stórt.“

Logi sagði að þegar við þetta bætist atvinnuleysið sem um síðustu áramót hefi ekki verið í þeim tölum sem það er í dag væri það eflaust brýnasta verkefnið. Ingólfur tók undir það. „Jú það má segja að það sé bráðavandinn í þessu. Við erum með atvinnuleysi nú í um 9% og vex samkvæmt spám í 10% undir lok árs. Þetta eru um 20 þúsund manns sem eru tilbúin að vinna núna - vantar störf. Þannig að þarna er bráðavandinn. Þarna erum við að tala um mikilvægi viðspyrnunnar, skapa fyrirtækjum skilyrði til þess að búa til þessi störf sem við þurfum á að halda.“

Si_idnthing_2020-25

Búa þarf til skilyrði fyrir fyrirtækin

Ingólfur sagði að langtímaverkefnið væri hins vegar mjög stórt. „ Við erum með sennilega um 140 þúsund nýja aðila að koma inn á vinnumarkaðinn á þessum 30 árum. Það er enginn smávegis fjöldi. Síðan erum við með eitthvað um 95 þúsund sem eru að detta út af vinnumarkaði, aðallega sökum öldrunar. Og þau störf sem eru til í dag munu gjörbreytast á þessum tíma. Verkefnið er þá það að við þurfum að búa til skilyrðin fyrir fyrirtækin til þess að geta leyst þetta sómasamlega.“

Þurfum að gera meira og hreyfa okkur hraðar

Logi sagði að nú væri nýlega búið að breyta nýsköpunarumhverfinu en að þessar tölur væri tiltölulega óþægilegar. Spurði hann Sigríði hvort þetta væri mögulegt. Hún sagði að þetta verði náttúrulega ekki gert í einu skrefi. „Það voru stigin stór skref í vor inn á Alþingi og maður fann að það var mikill samhugur um þær aðgerðir að tryggja viðspyrnu með nýsköpun. Hins vegar ef við horfum á það í stóra samhengi hlutanna þá er aðgerðarpakki vegna COVID og þeirrar stöðu sem er uppi, 150-200 ma.kr. eftir því hvernig er talið. Þarna voru settir um 4½ til 5 milljarðar til viðbótar í nýsköpun sem fjárfestingu í vexti framtíðar. Við myndum vilja sjá forgangsröðun í ríkisfjármálum sem væri í mun ríkari mæli í þessa átt…Við þurfum að gera miklu meira, hreyfa okkur mun hraðar, virkja og sækja þessi tækifæri sem eru þarna úti.“

Si_idnthing_2020-20_1600867044015

Styrkja þarf stoðir í gjaldeyrisöflun

Logi spurði Sigríði að því hvort það væri mögulegt að breyta Íslandi í nýsköpunarland. Svo sannarlega sagði Sigríður. „Ég held að við höfum ekki val um annað. Við þurfum að styrkja stoðir í gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Við höfum rætt um þetta í mjög langan tíma, m.a. eftir fjármálakreppuna 2008 þá töluðum við á þessum nótum líka. Nú verðum við að ráðast í þær breytingar og umbætur til þess að þetta verði að veruleika. Þá vil ég nefna að það er fjármagnið, mannauðurinn, sölu- og markaðsmál og síðan er það líka hvernig við kynnum Ísland á alþjóðavettvangi. Við viljum að Ísland sé markaðssett á mun breiðari grunni en verið hefur til þess að laða hingað frumkvöðla, erlenda sérfræðinga sem munu svo hafa mjög jákvæð ytri áhrif og þannig byggja undir þessa verðmætasköpun sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda, bæði til skemmri og lengri tíma. Endamarkmiðið er að efla getu þjóðarbúsins til þess að afla útflutningstekna. Þá eru það allir þessir samverkandi þættir sem þurfa að vera á góðum stað.“ 

Hér er hægt að nálgast efni Iðnþingsins.

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á upptöku af umræðum Loga, Ingólfs og Sigríðar: