Fréttasafn



17. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun

Þurfum 60 þúsund ný störf til ársins 2050

Það er mikilvægt að hafa skýra framtíðarsýn í efnahagsmálum þannig að þær ákvarðanir sem við tökum í dag leiði til þess að sú sýn verði að veruleika. INGÓLFUR BENDER, aðalhagfræðingur SI, horfir hér fram til ársins 2050 og skoðar hvaða framtíð við viljum skapa.

Við viljum að hér á landi verði fjöldi vel launaðra og fjölbreyttra starfa sem skapa hagsæld fyrir íbúa landsins sem er á við það besta sem gerist í heiminum. Verkefnið litið til framtíðar er því að fjölga slíkum störfum. Fjölgun vel launaðra og fjölbreyttra starfa er best tryggð með sterkri samkeppnishæfni atvinnulífsins. Með samkeppnishæfni landsins að leiðarljósi getum við áfram byggt upp gróskumikla atvinnustarfsemi sem er drifin áfram af mikilli nýsköpun, vel menntuðu og hæfileikaríku vinnuafli, traustum innviðum og skilvirku, hagkvæmu og stöðugu starfsumhverfi. 

Þegar horft er til ársins 2050 er viðbúið að hér á landi þurfi að skapa 60 þúsund ný störf til að mæta væntri fjölgun fólks á vinnubærum aldri og til að vinda ofan af því atvinnuleysi sem er á íslenskum vinnumarkaði. Þetta eru 2.000 störf á hverju ári. Atvinnuleysi er afar hátt hér á landi og brýnt verkefni hagstjórnar að draga úr því hið fyrsta. Því til viðbótar þarf að skapa störf fyrir nýtt vinnuafl sem kemur inn á íslenskan vinnumarkað. 

Skoðum þetta aðeins nánar. Reikna má með að 140 þúsund bætist við vinnuaflið hér á landi á tímabilinu til 2050. Um er að ræða nýjar kynslóðir á vinnumarkaði og innflutt vinnuafl. Á sama tíma munu um 95 þúsund fara af vinnumarkaði, aðallega vegna öldrunar. Munurinn er 45 þúsund og er það sá fjöldi starfa sem fjölga þarf á vinnumarkaði á þessum tíma. 

Reiknað er með því að atvinnuleysi verði að jafnaði um 10% í ár sem telst mjög mikið. Markmiðið ætti að vera undir 3% en það merkir að skapa þarf 15 þúsund störf til viðbótar við þau 45 þúsund sem hér er nefnt að framan. Samtals eru þetta því líkt og áður segir 60 þúsund störf sem skapa þarf á tímabilinu fram til 2050. 

Ljóst er að menntun, nýsköpun, starfsumhverfi og innviðir munu leika lykilhlutverk í því hversu vel tekst til í þessari þróun. Tölurnar undirstrika hversu mikilvægt er að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins með sterkri stöðu á þessum sviðum. 

Sjálfbær langtímahagvöxtur 

Til að skapa fjölda vel launaðra starfa til lengri tíma þarf öflugan og sjálfbæran langtímahagvöxt. Með sjálfbærum hagvexti er átt við þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum. 

Almennt er talað um að sjálfbær hagvöxtur litið til lengri tíma liggi á bilinu 2–3% á ári. Það virðist ekki vera ýkja há tala en safnast þegar saman kemur. Ef reiknað er með því að hagvöxtur verði að jafnaði 2,5% á ári fram til ársins 2050 mun landsframleiðslan aukast um 110% á tímabilinu. Landsframleiðslan gerir því gott betur en að tvöfaldast á tímabilinu sem er talsvert umfram þá fólksfjölgun sem reiknað er með í landinu á tímabilinu. Efnahagsleg lífsgæði munu því aukast umtalsvert, þ.e. landsframleiðsla á mann mun aukast verulega. Að sama skapi skiptir miklu að aðstæður séu þannig að hagvöxturinn verði í efri mörkum þessa bils en ekki neðri. Ef hagvöxtur verður 3% fram til ársins 2050 verður landsframleiðslan þá ríflega þriðjungi meiri en ef hagvöxturinn yrði 2% á tímabilinu. 

Eflum samkeppnishæfnina 

Við viljum ekki bara skapa störf heldur viljum við skapa verðmæt störf sem tryggja góð efnahagsleg lífsgæði landsmanna. Framleiðni er í lykilhlutverki fyrir aukin efnahagsleg lífsgæði. Með markvissum aðgerðum sem miða að því að efla samkeppnishæfni landsins getum við aukið framleiðni og náð fram umtalsverðum lífskjarabata hér á landi. 

Hagvöxtur síðustu áratuga hefur að stórum hluta verið drifinn áfram af aukinni auðlindanýtingu. Þegar horft er til efnahagslegra lífsgæða hér á landi í alþjóðlegum samanburði má segja að okkur hafi tekist nokkuð vel til í þeim efnum. Nú eru hins vegar viss þáttaskil. Ólíklegt er að við munum á næstu áratugum sækja hagvöxt í aukna auðlindanýtingu í sama mæli og verið hefur undanfarna áratugi. Hversu vel tekst til í að auka efnahagsleg lífsgæði litið til framtíðar veltur því á getu okkar til að nýta aðrar uppsprettur hagvaxtar. 

Tækniframförum og nýsköpun fylgja mikil tækifæri til aukinnar framleiðni og kennir sagan að þeir sem eru fremstir á því sviði uppskera aukna verðmætasköpun og meiri efnahagsleg lífsgæði. Mikilvægt er að Ísland verði framarlega í þessari alþjóðlegu þróun. 

Gjaldeyristekjur vaxi um milljarð á viku 

Íslenska hagkerfið er mjög háð erlendum viðskiptum. Ólíklegt er að það muni Álit – Aðalhagfræðingur SI breytast á næstu áratugum. Gjaldeyristekjur þjóðarbúsins grundvallast að stærstum hluta á nýtingu náttúruauðlinda. Hagkerfi sem byggja verðmætasköpun sína í miklum mæli á nýtingu náttúruauðlinda hafa ekki jafn mikinn hvata til að byggja upp sterka samkeppnishæfni á öðrum sviðum. Þetta er umhugsunarefni litið til framtíðar þar sem ljóst er að við þurfum að byggja gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins í auknum mæli á öðru en aukinni nýtingu náttúruauðlinda. 

Til að ná viðunandi jafnvægi í hagkerfinu er mikilvægt að útflutningstekjur vaxi í takti við vöxt hagkerfisins. Sjálfbær hagvöxtur er ekki tekinn að láni og í því sambandi er mikilvægt að inn- og útflutningur haldist í hendur til lengdar þannig að ekki verði söfnun erlendra skulda. Ef reiknað er með að meðalhagvöxtur á ári verði t.d. 2,5% fram til ársins 2050 og að hlutdeild gjaldeyristekna í landsframleiðslu verði svipuð árið 2050 og hefur verið að jafnaði undanfarin ár þurfa útflutningsverðmæti þjóðarbúsins að ríflega tvöfaldast til ársins 2050. Þetta þýðir að á tímabilinu þarf að auka gjaldeyristekjur um milljarð króna á viku allt tímabilið. Þetta er útflutningsáskorunin þegar litið er til efnahagsframvindunnar næstu þriggja áratuga. 

Íslenskt hagkerfi er sveiflukennt. Ekki síst vegna einhæfni í gjaldeyrissköpun sem leitt hefur til þess að áfall í einni grein útflutningstekna hefur veruleg áhrif á gang hagkerfisins. Við höfum mörg dæmi um það í fortíð og nýjasta dæmið er ferðaþjónustan. Litið fram á við er því mikilvægt að byggð sé upp fjölbreytni í gjaldeyrisöflun. 

Alveg mögulegt 

Fjölgun starfa um 60 þúsund fram til ársins 2050 er á engan hátt óyfirstíganlegt verkefni. Horfa má til þess að með grundvallarbreytingum í íslensku atvinnulífi hefur tekist að fjölga störfum og auka efnahagslega velsæld hér á landi umtalsvert á síðustu áratugum. 

Þegar litið er til síðustu þriggja áratuga hefur fjöldi starfandi hér á landi aukist um 67 þúsund. Hagvöxtur á þessu tímabili hefur verið 2,9% að jafnaði og landsframleiðsla á mann aukist um 61% á föstu verðlagi. Gjaldeyristekjur hafa nær þrefaldast á þessu tímabili og eru þær orðnar mun fjölbreyttari. Sagan sýnir að fjölgun starfa um 60 þúsund fram til ársins 2050 getur orðið að veruleika ef rétt er haldið á spilunum. Tækifærið er í okkar höndum og rétti tíminn til aðgerða er núna.

Timarit-SI_forsida_

Hér er hægt að nálgast tímaritið í PDF-útgáfu.