Fréttasafn



4. mar. 2021 Almennar fréttir

Þurfum að sækja þau tækifæri sem eru álitleg

Auka þarf landsframleiðslu um 545 milljarða króna á næstu fjórum árum til að efnahagsleg lífsgæði landsmanna verði meiri en þau voru fyrir COVID-19 efnahagsáfallið. Auka þarf gjaldeyristekjur um 300 milljarða á sama tímabili og skapa 29 þúsund störf, meðal annars til þess að ná niður atvinnuleysinu og mæta fjölgun landsmanna. „Þetta er vel hægt, við höfum gert þetta áður en við þurfum að grípa til frekari aðgerða,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins og yfirlögfræðingur Marel, í samtali við Helga Vífil Júlíusson, blaðamann, í Markaðnum. Árni segir að niðursveifla íslenska hagkerfisins sé oft dýpri en hjá öðrum ríkjum, en við förum líka hraðar upp.  „Það helgast af smæð hagkerfisins en stoðir þess eru að verða fjölbreyttari, sem er mjög mikilvægt. Hugverkaiðnaðurinn kom formlega inn sem fjórða stoðin á síðasta ári til viðbótar við sjávarútveg, orkusækinn iðnað og ferðaþjónustu.“ 

Í Markaðnum kemur fram að Samtök iðnaðarins haldi Iðnþing fmmtudaginn 4. mars þar sem verður fjallað um hvernig slíta megi fjötra svo hægt sé að hlaupa hraðar, skapa ný, eftirsótt störf og sækja fram í markaðsstarfi til að afla aukinna gjaldeyristekna. „Við þurfum að hlaupa hraðar, sækja tækifærin í ríkari mæli og með markvissari hætti. Má þar nefna uppbyggingu hugverkaiðnaðar og í orkusæknum en umhverfisvænum iðnaði. Það hefur skort heildarstefnumótun um hvernig verkefni eigi að sækja, hver eigi að vinna hvað og hve hratt skuli afla verkefna. Á sjöunda áratug síðustu aldar tóku stjórnvöld og atvinnulíf sig saman og unnu að því að sækja tækifæri þess tíma hingað til lands. Það gekk farsællega. Við þurfum að taka höndum saman á nýjan leik og sækja þau tækifæri sem nú eru álitleg.“

Of flókið regluverk og skattar of háir

Í viðtalinu kemur fram að Árni segir regluverkið hérlendis sé of flókið og skattar of háir. „Á Íslandi þarf að einfalda regluverk, draga úr skattheimtu, meðal annars með lækkun tryggingagjalds og lækkun á fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði. Gera þarf atvinnustarfsemi auðveldara fyrir án þess að dregið sé úr kröfum um gæði. Það er mikilvægt til að efla samkeppnishæfni landsins. Enn fremur þarf að marka atvinnustefnu. Bretar hófu til að mynda slíka vinnu eftir að landið gekk úr Evrópusambandinu til að bæta samkeppnisstöðu sína. Það hefur reynst þeim vel. Hið sama gildir um frændþjóðir okkar á Norðurlöndunum. Hér á landi þurfa nokkrir lykilmálaflokkar að tala betur saman. Ég horfi þar einkum til samspils menntunar, nýsköpunar, orkumála, umhverfismála, innviða og starfsumhverfis.“

Mikill áhugi lífeyrissjóða að koma að fjárfestingum í iðnaði

Þá kemur fram í viðtalinu að jafnframt þurfi hið opinbera að tileinka sér langtímahugsun varðandi fjárfestingar í innviðum. Að sögn Árna nýti mörg ríki  innviðafjárfestingar sem hagstjórnartæki til að mæta niðursveiflu í efnahagslífinu. „Þau hafa forunnið verkefni og geta hafist handa við stærri framkvæmdir með skömmum fyrirvara. Ef vinna þarf undirbúningsvinnu, sem er nauðsynleg en tekur tíma, gæti staðan í efnahagslífinu hafa breyst verulega þegar hægt er að ráðast í framkvæmdirnar.“ Hann segir að það hefði verið til bóta ef hið opinbera hefði verið búið að forvinna fjölbreyttari innviðaframkvæmdir sem hægt hefði verið að einhenda sér í skömmu eftir að COVID-19 fór um heiminn og leiddi til efnahagssamdráttar. Í Markaðnum segir að fram kom í skýrslu á vegum Samtaka iðnaðarins að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða sé 420 milljarðar. Með uppsafnaðri viðhaldsþörf sé átt við hvað þarf til að koma viðkomandi þætti innviða í ástand þar sem staða þeirra sé góð og eðlilegt viðhald þurfi til að halda stöðunni óbreyttri. Í skýrslunni sé ekki horft til nýrra innviðaframkvæmda.

Í Markaðnum segir að til að flýta fyrir fjárfestingum í innviðum leggi Árni til að opnað verði enn frekar á aðkomu einkaaðila. Við það geti stjórnvöld veitt hlutfallslega minni fjármunum í slík verkefni og við það skapist jafnframt svigrúm til að bæta í grunnþjónustu og draga úr halla ríkissjóðs. „Við verðum vör við mikinn áhuga frá lífeyrissjóðum að koma að fjárfestingum í innviðum.“ 

Mikil samvinna við félagsmenn og stjórnvöld

Fyrsta starfsári Árna sem formaður Samtaka iðnaðarins fer senn að ljúka en hann var kosinn til tveggja ára. „Fyrsta starfsárið hefur verið óvenjulegt en lærdómsríkt. COVID-19 heimsfaraldurinn hefur tekið lengri tíma en vonir stóðu til í upphafi. Þótt það glitti í ljós við enda ganganna mun áhrifa hans gæta á næstu árum. Vinnan síðasta árið hefur einkennst af mikilli samvinnu við félagsmenn og stjórnvöld í björgunarstarfi efnahagslífsins í kappi við tímann. Við sendum stjórnvöldum vel ígrundaðar tillögur og margar þeirra komu til framkvæmda. Má þar nefna áherslur á nýsköpun, menntun og innviði. Við erum til að mynda strax farin að sjá meiri nýsköpun en ýmsir þorðu að vona við það að endurgreiðsluhlutfall rannsókna- og þróunarkostnaðar var hækkað.“ 

Árni segir í viðtalinu að það hafi verið aðdáunarvert að fylgjast með því hvernig íslenskur iðnaður hafi umbylt starfsemi sinni til að takast á við breyttan veruleika; framleiðslufyrirtæki hafi til dæmis breytt framleiðslulínum og hólfaskipt þeim á meðan þeir sem gátu unnið heima gerðu það. „Við teljum að flestum félagsmönnum hafi tekist að halda uppi starfsemi að verulegu leyti.“

Varnarsigur íslensks iðnaðar

Aðspurður um hve þungt efnahagshöggið hafi verið fyrir fyrirtæki innan Samtaka iðnaðarins segir hann að höggið hafi ekki orðið eins mikið og margir óttuðust. „Við eigum eftir að sjá rauntölur og það er misjafnt hve mikil áhrif heimsfaraldurinn hefur haft á tiltekna atvinnustarfsemi. Heilt yfir má segja að íslenskur iðnaður hafi unnið varnarsigur á síðasta ári. Byggingaiðnaður hefur til dæmis staðið þetta býsna vel af sér þótt hann sé sögulega sveiflukenndur. Það má vafalaust þakka lágum stýrivöxtum, átakinu Allir vinna og aukinni áherslu á framkvæmdir af hálfu hins opinbera. Hugverkaiðnaður hefur blómstrað síðastliðið ár. Það hafa verið áskoranir í framleiðsluiðnaði enda vantar tvær milljónir ferðamanna til að festa kaup á neysluvörum og matvælum.“ 

Framlag íslensks iðnaðar mikilvægt fyrir vöxt hagkerfisins

Í lok viðtalsins segir Árni að aukinnar bjartsýni gæti á meðal félagsmanna og vitnar í nýlega könnun Samtaka iðnaðarins. Um 43% meta aðstæður í efnahagslífinu góðar en 19% slæmar. Í apríl í fyrra þegar heimsfaraldurinn hafði nýlega breiðst út hafi aðeins 24% metið aðstæðurnar góðar og 52% slæmar. Hlutfallið sé nú hærra en árið 2019. „Félagsmenn vænta viðsnúnings á seinni helmingi ársins. Niðurstöður könnunarinnar benda ekki til þess að það verði snarpur viðsnúningur. Iðnaður hefur alla burði til að knýja áfram hagkerfið eins og hann var drifkraftur uppsveiflu efnahagshrunsins 2008. Þá sköpuðum við um þriðjung hagvaxtar. Iðnaður leggur til um fimmtung landsframleiðslu og starfa í landinu. Þess vegna þykir okkur mikilvægt að því sé haldið til haga að framlag og vöxtur íslensks iðnaðar er mikilvægur fyrir vöxt hagkerfisins.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 3. mars 2021.