Fréttasafn22. sep. 2020 Almennar fréttir Nýsköpun Starfsumhverfi

Þurfum að skapa 60 þúsund ný störf á næstu 30 árum

Sigmar Guðmundsson og Hulda Geirsdóttir ræða við Árna Sigurjónsson, formann SI, í morgunútvarpi Rásar 2 um stöðuna í efnahagslífinu og leiðina fram á við en Samtök iðnaðarins hafa gefið það út að skapa þurfi 60 þúsund ný störf fram til ársins 2050 eða 2.000 störf á ári næstu 30 árin. Árni segir þetta vera stórar tölur en telji þetta mjög raunhæf markmið sem við þurfum að ná. Staðan sé erfið og skoða þurfi hvernig við förum eiginlega að þessu og hvað þurfi að gera. Hann segir að ef þetta sé sett í samhengi við þau fyrirtæki sem við þekkjum þá sé um að ræða 100 Omnom eða 3 Marel sem þurfi að bætast við á hverju ári næstu 30 árin. 

Hann segir að eftir lengsta hagvaxtarskeið á lýðveldistímum sé hagkerfið farið að kólna og þá sé spurning hvort grunnatvinnuvegir okkar geti staðið undir endurreisn og vexti sem þurfi og vísar þar til sjávarútvegs, orkusækins iðnaðar og ferðaþjónustu. Hann segir að bæta þurfi við stoðum og þar þurfi að líta fyrst og fremst til nýsköpunar. 

Árni segir Samtök iðnaðarins hafa lagt áherslu á nýsköpun síðustu árin sem hafi skilað verulegum árangri og þetta ár hafi verið helgað nýsköpun. Hann sagði gríðarmiklar umbætur hafa orðið í starfsumhverfi nýsköpunarmála og mkilvægar breytingar verið gerðar varðandi nýsköpun, auk þess sem ríkisstjórnin hafi gefið frá sér nýsköpunastefnu. En hann segir jafnframt að það þyrfti að vera samstaða um að þrýsta þessum hlutum hraðar áfram. Á tímum COVID gerist hlutirnir hraðar, tæknibyltingin sé hraðari og það sama þurfi að gerast í starfsumhverfinu. Hann segir að horfa þurfi fyrst og fremst á starfsumhverfið og menntunina sem sé langtímafjárfesting. 

Byggja þarf nýjan Tækniskóla

Þá segir Árni það hafa verið baráttumál samtakanna lengi að fjölga nemendum í starfs-, tækni- og iðnnámi. „Við sjáum núna að aðsókn eykst mikið sem helgast mikið af stöðu mála í þjóðarbúinu þessa dagana en það eru líka ákveðin vandamál þegar aðsóknin eykst. Ég hef lagt mikla áherslu á í samtölum við ríki og sveitarfélög að einhenda þarf sér í að byggja nýjan Tækniskóla sem er stærsti framhaldsskóli landsins, með 2.500-2.700 nemendur. Við vitum að aðsóknin er gríðarlega mikil en skólinn hefur átt erfitt með að anna þessum áhuga. Það gerir skólanum erfitt fyrir að reka sig vel eins dreifður og hann er og að sinna sínum nemendum. Það vantar sveigjanleika til að vaxa til framtíðar.“

Árni segir að á þessum 30 árum þá sé gert ráð fyrir að 140 þúsund nýir aðilar komi inn á vinnumarkaðinn og 90-100 þúsund detti út vegna aldurs. „En við gerum okkur líka grein fyrir að störfin breytast.“ Hann segir að menntun þurfi að fylgja þeirri tæknibyltingu sem er að verða og þeim breytingum sem verða á störfum.

Myndarleg lækkun tryggingagjalds og fasteignagjalda

„Það er okkar skoðun að ein leiðin út úr bráðavandanum, en það er engin patentlausn til og engir plástrar sem munu lækna þetta sár einn tveir og þrír, sé myndarleg lækkun tryggingagjalds og fasteignagjalda.“ Árni segir það vera orðinn verulegan bagga á atvinnulífinu og lækkun gæti stuðlað að verndun starfa sem við höfum nú þegar og skapað ný störf. Hann segir að nú sé lag að lækka tryggingagjaldið því þannig skapist rými fyrir atvinnurekendur að skapa fleiri störf og verja þau störf sem fyrir eru. 

Árni segir að áherslan ætti fyrst og fremst að vera á að búa til enn meiri hvata til að skapa svigrúm til að ráða fólk í vinnu frekar en að hækka atvinnuleysisbætur. Staðan væri mjög erfið núna með 9-10% atvinnuleysi og einhverjir á hlutabótum sem væri þungur baggi á ríkinu. „Þó það komi minni tekjur vegna tryggingagjaldsins þá léttir það á ríkiskassanum.“

Atvinnurekendur segja ekki innistæðu fyrir launahækkunum

Árni segir það þurfi ekki að flytja langt um mál um stöðu hagkerfa heimsins og Ísland sé ekki undanskilið í þessari kreppu, það væru komnar tvær launahækkanir og næsta væri um áramótin. Hann sagði atvinnurekendur hafa gert verkalýðsforystunni grein fyrir því að ekki sé innistæða fyrir launahækkunum um þessar mundir. „Við fórum þess á leit við þau í vor að launahækkunum yrði frestað vegna ástandsins eða að kæmu til einhverjar aðrar ráðstafanir sem gerðu atvinnurekendum kleift að standa við lífskjarasamningana en þeirri umleitan var hafnað umsvifalaust. Þau hafa ekki viljað ljá máls á því.“ Árni segir að áhugavert verði að sjá hvað kemur út úr umræðu um endurskoðun á forsendum lífskjarasamninga. „Við sjáum ekki annað og heyrum ekki annað í skilaboðunum frá verkalýðsforystunni en að þeir kjósi að standa vörð um samningsbundnar hækkanir frekar en að standa vörð um störf sinna umbjóðenda,“ 

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Árna.

RÚV, 22. september 2020.