Fréttasafn



3. des. 2019 Almennar fréttir Menntun

Þurfum skólakerfi sem hámarkar hæfileika fólks

Iðnaðurinn þarf skólakerfi sem hámarkar hæfileika fólks og beinir fólki á réttar brautir. Tæknin býður upp á einstaklingsmiðað nám í meiri mæli en verið hefur og við ættum að nýta það. Þetta kom meðal annars fram í máli Vilhjálms Hilmarssonar, sérfræðings í greiningum hjá SI, í erindi sem hann flutti á afmælishátíð Iðnú í Iðnó í gær. Vilhjálmur sagði jafnframt að segja ætti skilið við gamla færibandaskólakerfið sem samanstandi af hefðbundnum skólastofum þar sem krakkar sitji oft og tíðum aðgerðarlausir við borð og meðtaki upplýsingar og læri stöðluð bóknámsfög eingöngu. „Við í atvinnulífinu erum ekki að biðja um fólk sem getur setið kyrrt tímunum saman og hlustað og svarað eftir uppskrift. Við viljum heldur ekki fólk sem getur bara fylgt leiðbeiningum og munað. Við viljum fólk með frumkvæði, fólk sem er skapandi í hugsun, fólk sem getur leitað sér upplýsinga og fólk sem hefur fjölbreytta verklega og bóklega færni. Þá er líka kominn tími til þess að við hættum að draga fólk í dilka. Nám er nám og allt nám felur í sér fræðilega og verklega hlið sem saman mynda órjúfanlega heild.“

Verðum að byggja á mannauði í meira mæli

Í erindi Vilhjálms kom fram að árið 1900 hafi Íslendingar verið 40% fátækari en íbúar Evrópu þegar horft væri til landsframleiðslu á mann og 120 árum síðar væri Ísland orðið helmingi ríkara. Hann sagði miklar sveiflur hafa einkennt íslenska hagkerfið og væri það eitt óstöðugasta hagkerfið í vestrænum heimi. Hann sagði landsmann hafa reitt sig á búhnykki og ríkulegar náttúruauðlindir að mestu og landfræðileg lega hafi verið okkur hagstæð. „En það er ekki nóg til framtíðar. Við verðum að byggja á mannauði í meiri mæli ef við eigum að auka stöðugleika og varðveita lífsgæði okkar til samæmis við Evrópu. Heimurinn er orðinn eitt markaðssvæði þar sem mikil samkeppni er um alla framleiðsluþætti.“

Hlutfall starfsmenntaðra stórlækkað

Þá kom fram í erindi Vilhjálms að ungt fólk hér á landi sæki í minna mæli í starfsnám en annars staðar og að nær þrisvar sinnum fleiri ungar konur leggi stund á starfsnám í Evrópu en hér. „Það verður að teljast harla ólíklegt að meira en 90% ungra kvenna sé best borgið í bóknáminu og hugurinn liggi þar. Það er eitthvað mikið að í íslensku menntakerfi og við sjáum afleiðingarnar. Hlutdeild starfsnámsmenntaðra á Íslandi hefur stórlækkað í hlutfalli við háskólamenntaða síðustu 15 ár. Þetta er að koma iðnaðinum í mikil vandræði en 73% félagsmanna Samtaka iðnaðarins vantar fólk með verklega færni og 12% félagsmanna vantar háskólamenntaða.“ Vilhjálmur sagði hlutverk menntakerfisins vera að hámarka hæfileika fólks með þarfir vinnumarkaðar til hliðsjónar um leið og sérkenni menningar í hverju landi væru varðveitt. „En hvernig gengur það? Illa, því svo virðist sem við höldum enn fast í gömlu hugsunina um stöðluðu námsskrána þar sem skólabækur eru í forgrunni, kennslustundir eru tímamiðaðar og lærdómur óvirkur þar sem nemendur hlusta og glósa en spyrja ekki spurninga. Allir eiga að vera steyptir í sama mót.“

Hér er hægt að nálgast glærur Vilhjálms.

Vilhjalmur-Idnu-02-12-2019-3-Vilhjálmur Hilmarsson, sérfræðingur í greiningum hjá SI.