Fréttasafn17. apr. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Til lengri tíma þarf stóraukið lóðaframboð

Rætt er við Gylfa Gíslason, framkvæmdastjóra Jáverk og formann Mannvirkjaráðs SI, í kvöldfréttum Stöðvar 2 um stöðuna á íbúðamarkaði. Þegar fréttamaður, Berghildur Erla Bernharðsdóttir, spyr til hvaða aðgerða þurfi að grípa til núna þegar það líti út fyrir að framundan verði erfitt á þessum markaði svarar Gylfi: „Já, ef við gerum ráð fyrir því að þessi spá sé rétt þá er það þannig. Þetta hefur kannski verið fyrirséð lengi en það þarf lóðir til að byggja hús, fjármagnið hefur verið of dýrt í ljósi stýrivaxtanna. Síðan var ákveðið fyrir rúmu ári fyrirvaralaust að auka skattheimtu með lækkun á endurgreiðslu hlutfalls vasks á nýbyggingar. Allt hefur þetta áhrif. En til lengri tíma, því það eru ekki til patent lausnir, þá þurfum við auðvitað bara stóraukið lóðaframboð.“ 

Stýrivextir í hæstu hæðum

Fréttamaður segir að Gylfi og aðrir verktakar hafi bent á þetta áður og Samtök iðnaðarins. Hefur eitthvað gerst núna síðustu misseri þegar að bent hefur verið á að það þurfi að grípa þegar til aðgerða? „Nei, það er ekki hægt að segja það. Það hefur verið vinnuhópur í að reyna að einfalda regluverk, stóraukið lóðaframboð hefur ekki komið fram ennþá. Stýrivextirnir eru í hæstu hæðum. Ég held að allir sem voru á þessum markaði spáðu því að þetta myndi gerast fyrir einu og hálfu ári, tveimur, og það er kannski að raungerast núna.“ 

Dregið bæði úr framboðs- og eftirspurnarhliðinni

Fréttamaður segir að þannig að við erum að grípa of seint til aðgerða, ef einhverjar aðgerðir koma þó og  Gylfi svarar: „Já, ef við viljum hafa þetta svona, það er alveg hugsanlegt líka. Ég meina við vildum draga úr þenslu í hagkerfinu, það var gagnrýnt að það væri bæði á framboðs- og eftirspurnarhliðinni. En það var gert og ég held að afleiðingarnar séu svona að einhverju leyti að koma í ljós ef þessar spár reynast réttar.“

Alls ekki nóg byggt miðað við gífurlega fólksfjölgun

Í fréttinni er einnig rætt við Jónas Atla Gunnarsson, hagfræðing hjá HMS sem segir að það sé búið að byggja mjög mikið í sögulega samhengi en bara alls ekki nóg miðað við gífurlega fólksfjölgun sem á sér stað á landinu. „Það sem við sjáum að muni gerast á næstu misserum er að þetta mun skapa mikinn þrýsting á fasteignaverði þá bæði á leigu- og húsnæðisverð. Stýrivaxtahækkanir undanfarin misseri hafi hægt verulega á uppbyggingu meðan mikil þörf sé í gangi fyrir nýtt húsnæði.“ Jónas Atli segir að vaxtarstigið sé náttúrulega það tól sem Seðlabankinn hafi til að draga úr þenslu en það hafi þessar hliðarafleiðingar. Það dragi úr fjárfestingu og ef það sé fjárfest minna í húsnæði muni það örugglega leiða til hærra íbúðaverðs til lengri tíma og að ástandið hafi mest áhrif á tekjulægstu hópanna. „Þetta bitnar á fólki sem á erfitt með að sinna húsnæðiskostnaði hvort sem er á leigu- eða eignamarkaði. Þá fólki sem hefur lítið á milli handanna og eyðir stórum hluta tekna sinna í húsnæði. Eina leiðin til að lækka þennan húsnæðiskostnað til langs tíma er að byggja meira.“

Stöð 2, 16. apríl 2024.

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri Jáverks.

Stod-2-16-04-2024_3Jónas Atli Gunnarsson, hagfræðingur hjá HMS.