Fréttasafn18. maí 2017 Almennar fréttir Menntun

Til skoðunar að stytta iðnnám í þrjú ár

Í frétt Morgunblaðsins í dag kemur fram að til skoðunar sé hjá stjórnvöldum að stytta iðnnámið í þrjú ár. Rætt er við Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóra hjá Samtökum iðnaðarins, sem segir að nú þegar búið sé að stytta nám til stúdentsprófs í þrjú ár gæti það hafa veikt samkeppnisstöðu iðnnámsins. 

Hér má lesa fréttina: Hún mætti á fund hjá Landssambandi bakarameistara þar sem hún viðraði nokkur atriði sem hún telur að þurfi að skoða varðandi iðnnám. Til stendur að eiga fundi með öllum meistarafélögum iðngreina á næstu dögum, þar sem hvert samband um sig getur verið með sérþarfir vegna eðlis iðnarinnar. „Iðnnám hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár, of fáir sækja um nám í iðngreinum,“ segir Ingibjörg jafnframt, afar brýnt sé að fleiri fari í iðnnám. Skoða þurfi ýmis atriði, t.d. hvort stytta megi iðnnámið til jafns á við stúdentspróf, en einingar til sveinsprófs eru ekki fleiri en til stúdentsprófs, skv. mennta- og menningarmálaráðuneyti. Nú innritast nemendur í bóknám og útskrifast, en það er hærra flækjustig í iðnnámi. 16 ára unglingar þurfa til dæmis að finna sér meistara en það getur verið erfitt, ekki síst fyrir iðnnema úti á landi. Þá segir Ingibjörg að takast þurfi á við kerfislægan vanda, en stjórnsýslan í kringum námið sé þung. Hlutverk starfsgreinaráðs sé of óskýrt, það séu mörg tækifæri til úrbóta. Stuðst er við „Hvítbók“ menntamálaráðuneytisins, ásamt úttekt frá Ríkisendurskoðun en þar komi fram gagnrýni og afgerandi rök með úrbótum.

Morgunblaðið, 18. maí 2017.

Á móti styttingu náms

Moggi-20.-mai-2017Í Morgunblaðinu 20. maí var frétt um að matvælaiðnaðurinn væri á móti styttingu náms. Í fréttinni er rætt við Níels Sigurð Olgeirsson, formann Matvís sem segir fyrirtækin beri að hluta til sjálf ábyrgð á því hvernig komið er fyrir sumu iðnnámi og að þau þurfi að sýna meiri metnað og fagmennsku, en hann telur að skemmt hafi verið fyrir iðngreinum eins og t.d. kjötiðnaði og framreiðslu þegar veitinga- og matvælafyrirtæki fóru að slaka á kröfum til að spara launakostnað. Eftir að hárgreiðslustofur fóru að leigja stóla í verktöku og byggingarfyrirtækin að taka undirverktöku hafi færri bolmagn til að taka nema. 

Í fréttinni segir að Níels hafni því alfarið að stytta megi námið, en í matvælaiðnaði t.d. hafi ríkt mikill metnaður og séu t.d. íslenskir matreiðslumenn á heimsmælikvarða. Hann mælir með því fögin verði betur markaðssett sem álitlegur kostur til menntunar. Matreiðslumenn séu t.d. duglegir að halda keppnir og koma sér á framfæri, enda sé ekki skortur á nemum. 

Einnig er rætt við Jóhannes Felixson, betur þekktan sem Jói Fel, nýkjörinn formann Landssambands bakarameistara, sem tekur undir með Níels og bætir við að bakaranámið krefjist að lágmarki alls þess tíma sem í það fer og ekkert rými sé til styttingar án þess að það bitni á gæðum. Þá er haft eftir Níels að matvælagreinarnar standi vel að vígi vegna þess að þau hafa ríghaldið í gamla meistarakerfið, það hafi verið mistök að færa sumar iðngreinar úr atvinnulífinu og yfir í skólana. Danir og Svíar séu að breyta þessu til baka. Níels telur að SI eigi að hjálpa meistarafélögunum svo að hægt verði að taka fleiri nema. Vinnustaðanámssjóður þurfi meira fjármagn, hann hafi þegar sýnt ágæti sitt til að aðstoða meistara við að taka nema en stöðugt hark sé að fá stuðning frá hinu opinbera þrátt fyrir fögur fyrirheit á hátíðarstundum um verðmæti faggreina iðnaðarins.

Morgunblaðið, 20. maí 2017.