Fréttasafn



12. okt. 2020 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Tímabært að framlög til byggingarannsókna verði aukin

Það er löngu tímabært að framlög til byggingarannsókna verði aukin og fagna samtökin því að komið verði á fót rannsóknarsjóði byggingarannsókna. Þetta kemur fram í umsögn Samtaka iðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins um drög að frumvörpum um opinberan stuðning við nýsköpun og Tækniþróunarsjóð sem send hefur verið í Samráðsgátt. Í umsögninni segir að samtökin styðji við breytingar sem gerðar verði á nýsköpunarumhverfi byggingariðnaðarins í þeim tilgangi að efla það og styrkja. Taka samtökin einnig heilshugar undir mikilvægi þess að koma á og halda uppi öflugum rannsóknum á sviði bygginga- og mannvirkjagerðar en allt of lítið fjármagn hafi runnið til slíkra verkefna á undanförnum árum.

Samtökin segja einnig í umsögninni að brýnt sé að móta langtímaáætlun um rannsóknir og þróun í byggingariðnaði og fagna því að til standi að Byggingavettvanginum, samráðsvettvangi hagaðila í bygginga- og mannvirkjagerð, verði falið að móta slíka áætlun. 

Þá árétta samtökin mikilvægi þess að útgáfa svokallaðra Rb-blaða verði efld og þau gerð aðgengilegri. Blöðin séu í raun kennsluefni um rétta aðferðarfræði og séu því til þess fallin að auka gæði, draga úr tjóni og efla þekkingu í greininni. Samtökin fagna því áformum um að halda starfseminni áfram innan Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en að tryggja þurfi nægilegt fjármagn til verkefnisins og vinna að forgangsröðun verkefna í samráði við atvinnulífið og menntastofnanir.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI og SA.