Fréttasafn



8. mar. 2018 Almennar fréttir

Tími verka er runninn upp

Gengi krónunnar er of hátt, sveiflur í gjaldmiðlinum eru alltof miklar, vaxtastigið er í engu samræmi við samkeppnislönd okkar, skattar og álögur á atvinnulífið eru íþyngjandi, lækka þarf tryggingagjald, aflétta þarf þakinu á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar í nýsköpun og hækka ætti endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað íbúðahúsnæðis til að sporna við svartri atvinnustarfsemi. Úrbætur í þessum efnum eru allt of hægar. Stöðugleiki er forsenda þess að bæði heimili og fyrirtæki geti dafnað. Starfsumhverfið þarf að vera skilvirkt og umgjörð fyrirtækja fyrirsjáanlegt til að útflutnings- og samkeppnisgreinar geti þrifist hér á landi. Orð duga ekki ein og sér. Tími verka er runninn upp.

Þetta kom meðal annars fram í ræðu Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns SI, á Iðnþingi sem fram fer í Silfurbergi í Hörpu í dag. 

Hér fyrir neðan er hægt að lesa ræðu Guðrúnar í heild sinni.

Góðir Iðnþingsgestir – Velkomin á Iðnþing 2018

„Fyrsta skilyrðið fyrir frjálsri og óháðri tilveru manna, kvenna sem karla, er fjárhagslegt sjálfstæði. Fyrir því verðum vér að berjast í orðum og verkum. Og það vinnst á tvennan hátt: Með fullum aðgangi bæði að lögum og í framkvæmd, að öllum atvinnugreinum og stöðum, og sömu launum og karlmenn áskilja sér fyrir þau.“

Þetta skrifaði ein mesta kvenréttindakona okkar Íslendinga árið 1916. Það merkilega er að orð hennar eru enn í gildi og gætu hæglega hafa verið skrifuð í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Það var Bríet Bjarnhéðinsdóttir sem lét þessi orð falla, ári eftir að konur hlutu kosningarétt hér á landi. Hún brýndi fyrir Íslendingum að baráttu, jafnt karla sem kvenna, fyrir betra og réttlátara lífi væri hvergi nærri lokið. Við sjáum það í dag, rúmum 100 árum síðar, að þeirri baráttu mun líklega seint linna.

Því ber þó að fagna að konur á Íslandi búa í dag við hvað mest jafnræði og einhver bestu lífsskilyrðin á allri jarðarkringlunni. Ísland  hefur setið í efsta sæti á lista yfir þau lönd þar sem aðstæður kvenna til lífs og starfs þykja einna bestar, samfellt í níu ár. Slíkur árangur verður ekki til af engu. Heldur verður hann til af þrautseigju fólks sem er reiðubúið að leggja sig alla fram fyrir málstaðinn. Saga Bríetar er til marks um hvað einn einstaklingur getur fengið miklu áorkað og ber ekki síst að nefna kosningaréttinn sjálfan sem barátta hennar og félaga skilaði konum. Barátta hennar á ugglaust mikinn þátt í því að jafnrétti kvenna hér á landi er í fremstu röð miðað við stöðu kvenna í öðrum löndum.

Í dag er #metoo byltingin að móta nýjar kynslóðir kvenna, og karla, og þau eru hvergi nærri hætt. Þau sætta sig ekki við óbreytt ástand. Ég ber virðingu fyrir þeim konum sem stigið hafa fram og sagt sínar sögur og þar með lagt sitt lóð á vogarskálar að réttlátara samfélagi. Við atvinnurekendur megum ekki láta okkar eftir liggja. Það þarf að kveða niður þessa ómenningu hvar sem til hennar sést eða heyrist. Við munum ekki líða áframhaldandi misbeitingu valds. Til að minna á mikilvægi þess að vinnustaðir veiti starfsmönnum bæði öryggiskennd og vellíðan þá hafa Samtök atvinnulífsins gert Sáttmála gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Ég bið ykkur um að hugsa það þegar þið gangið héðan út á eftir, hvernig þið getið gert ykkar til að láta þennan sáttmála fá inntak í ykkar fyrirtækjum og hvarvetna þar sem þið getið beitt áhrifum ykkar.

Ísland býður upp á góð lífskjör og óhætt er að segja að samfélagið hafi tekið stakkaskiptum frá því Bríet stóð í sinni merku baráttu. Okkur hættir samt til að halda að staðan geti bara batnað. Staðreyndin er þó sú að góðri stöðu má glutra niður. Á undanförnum árum hafa launþegar upplifað sögulega kaupmáttaraukningu en þrátt fyrir stóraukinn kaupmátt upplifa margir launþegar að þeir hafi borið skarðan hlut frá borði. Sú óánægja beinist þó einkum að skattkerfinu og tilfærslukerfum hins opinbera, húsnæðisstuðningi og barnabótum. En einnig því að aðrir hópar á vinnumarkaði hafi fengið meira af gnægtarborðinu. Sumt má taka undir, eins og úrskurði Kjararáðs undanfarin ár um laun kjörinna fulltrúa okkar og æðstu embættismanna sem hafa gengið þvert á þá launastefnu sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld mótuðu sameiginlega. Því miður er þetta hvorki í fyrsta né annað sinn sem Kjararáð eða forverar þess hafa valdið usla á vinnumarkaði, því það hafa þeir ítrekað gert áratugum saman, en vonandi munu skynsamlegar tillögur starfshóps um nýtt fyrirkomulag við launaákvarðanir kjörinna fulltrúa okkar koma varanlega í veg fyrir slíkar uppákomur í framtíðinni, verði þær að veruleika. Sá órói á vinnumarkaði sem ákvarðanir Kjararáðs og aðrar opinberar aðgerðir hafa valdið, gætu ef ekkert er að gert, haft mikil og skaðleg áhrif. Óróinn varðar okkur öll, því sá ávinningur, sem hér hefur orðið, gæti hreinlega glutrast niður.

Ég nefndi á Iðnþingi 2015 að ekki hafi verið full innistæða fyrir þeim launahækkunum sem samið var um í síðustu kjarasamningum. Þeir voru hins vegar mikilvægur steinn í vörðu þeirrar sameiginlegu vegferðar launþega og atvinnurekenda, að koma hér á betra kjarasamningslíkani, sem í daglegu tali er nefnt SALEK. Sú vegferð gæti fengið bráðan endi ef launafólk sér ekki mikilvægi þess að varðveita það sem hefur áunnist. Það er því mikið í húfi. Við erum að tala um mestu kaupmáttaraukningu í lýðveldissögunni. Til að verja hana þurfum við að ganga fram af skynsemi en ekki með upphrópunum. Því var það lofsvert hjá launþegahreyfingunni, í síðustu viku, þegar hún ákvað að láta kjarasamninga á almennum markaði halda út samningstímann. Það var raunsætt og það var skynsamlegt.

Nýsköpun

Warren Buffet hefur orðað það þannig að oft njótum við þess að sitja í forsælunni vegna þess að fyrir langalöngu hafi einhver tekið sig til og gróðursett tré. Í því samhengi er mér minnisstætt hvernig afi minn lýsti því þegar hann sá kvikna á ljósaperu í fyrsta sinn. Hann varð agndofa þar sem hann stóð í litlu stofunni sem hafði fram að því verið lýst upp með lýsislampa og sagði „það kviknaði ljós í þessari litlu glerkúlu sem lýsti upp alla stofuna. Þvílíkt undur. Mér fannst tæknin ekki geta orðið meiri“.

Þrátt fyrir orð afa liggur fyrir að aukin tækni mun leysa fjölmörg vandamál heimsins á næstu árum á sviði umhverfisverndar, framleiðslu og velferðar. Þegar við leitum lausna við daglegum úrlausnarefnum verða til nýjar hugmyndir og ný sköpun á sér stað. Þannig viljum við sjá Ísland, sem skapandi lausnamiðað samfélag. Við viljum að mótuð verði nýsköpunarstefna sem er hluti af heildrænni atvinnustefnu fyrir Ísland.  Til þess að ýta enn frekar undir sköpun viljum við taka þökin af endurgreiðslum á rannsóknar- og þróunarkostnaði. Sú aðgerð ein og sér mun ýta undir nýja sköpun í fjölmörgum fyrirtækjum, hringinn í kringum landið. Samtök iðnaðarins setja einnig markið hátt. Við viljum að Ísland verði á meðal fimm samkeppnishæfustu landa heims á sviði nýsköpunar innan fimm ára.

Með tilkomu tækniframfara eins og gervigreindar verður okkur ljóst að framtíðin liggur í hugvitsdrifnu hagkerfi. Dæmi um hugvitsdrifna atvinnugrein er kvikmyndagerð. Ný íslensk kvikmynd var frumsýnd fyrir skömmu sem nú þegar er búið að selja til 55 ólíkra landa. Kvikmynd þessi er næstdýrasta mynd íslenskrar kvikmyndasögu, kostaði rúman milljarð og það tók sex ár að gera myndina. Um 400 manns eiga heiður að gerð hennar. Það er ljóst að það þarf mikla þekkingu til að framleiða kvikmyndir og ekki síst teiknimyndir. Við eigum fagfólk á þessu sviði hér á Íslandi sem er á heimsmælikvarða. Verkefni í kvikmyndgerð eru flest unnin úti á landsbyggðinni og hafa haft jákvæð áhrif á margvíslega starfsemi út um allt land. Sterk króna og hár launakostnaður hefur valdið því að verkefnum í kvikmyndagerð hefur farið fækkandi hér á landi á síðustu misserum. Við það eykst hættan á því að þessi þekking, sem byggst hefur hér upp, fari til annarra landa. Við skulum sjá brot úr myndinni Lói – þú – flýgur aldrei einn.

Innviðir

En horfum þá inn á við. Í haust gáfu Samtök iðnaðarins út skýrslu um stöðu innviða í landinu. Skýrslan fékk mjög mikla athygli og umræðu. Í henni er meðal annars lagt mat á verðmæti þeirra innviða sem við Íslendingar eigum. Í skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga kemur fram að innviðir okkar eru metnir á um 3.500 milljarða sem er lítið minna en allar eignir lífeyrissjóðakerfisins. Fram kemur að uppsöfnuð viðhaldsþörf er upp á 372 milljarða króna. Það eru fá verkefni sem geta komið öllum Íslendingum til góða að ráðist sé í. Bætt innviðafjárfesting getur, að mati Samtaka iðnaðarins, aukið framleiðni um 1,3%. Betra vegakerfi og flutningskerfi raforku gerir allt landið samkeppnishæfara. Vegakerfið er að þrotum komið, hvort sem litið er til landsbyggðarinnar eða höfuðborgarsvæðisins. Við þetta verður ekki búið. Þetta eru grunnstoðir og þær verða að vera í lagi. Ég vona að ráðamenn leggi við hlustir því ég veit að við tölum einni röddu hér í dag um nauðsyn þess að farið verði í þessi brýnu verkefni.

Staðan á íbúðamarkaði er grafalvarleg. Lóðir til íbúðabygginga eru hluti af innviðum. Það þarf ekki að líta langt til að sjá að síðustu ár hefur verið lóðaskortur og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu sem hefur leitt til þess að alltof lítið hefur verið byggt. Á næstu tveimur árum má áætla að fjölga þurfi íbúðum um 17.000. Það er jákvætt að þétta byggð en yfirvofandi skortur á húsnæði er með þeim hætti að það þarf að líta lengra, út í jaðar höfuðborgarsvæðisins.

Metnaðarfull umhverfisstefna og raforkustefna mun gegna lykilhlutverki í samkeppnishæfni okkar til framtíðar litið. Avinnurekendur láta sig umhverfismál varða. Við sem erum í fyrirtækjarekstri erum þess meðvituð að við verðum að skila betra dagsverki í dag en í gær og við getum ekki gengið á umhverfi okkar með óábyrgum hætti. Hugvit skapar grænar lausnir og hér eru tækifæri fyrir okkur Íslendinga og félagsmenn í Samtökum iðnaðarins að skapa okkur sérstöðu. Forskot Íslands liggur í fjölbreyttum iðnaði sem byggst hefur upp vegna góðs aðgengis að endurnýjanlegri orku. En nú er það orðið áhyggjuefni að raforkuverð er ekki lengur með þeim hætti hér á landi að það skapi íslenskum fyrirtækjum samkeppnisforskot. Stjórnvöld hljóta að deila þeim áhyggjum með félagsmönnum Samtaka iðnaðarins. 

Menntun

Ég hef nefnt bæði nýsköpunarumhverfið og góða innviði sem forsendu fyrir því að Ísland verði í fremstu röð þjóða. Ekki veigaminni þáttur er gott menntakerfi. Á meðan ég er formaður Samtaka iðnaðarins mun ég halda áfram að knýja á um að vegur iðmenntunar verði aukinn hér á landi og að sú menntun njóti sannmælis. Á hátíðis- og tyllidögum er gjarnan rætt um mikilvægi iðnmenntunar og að efla skuli iðnnám. En því miður fara orð og aðgerðir ekki alltaf saman. Afstaða ráðamanna hér á landi til iðnnáms afhjúpaðist fullkomlega þegar Alþingi gerði lagabreytingu sem gerði það að verkum að erlendir nemar sem stunduðu iðnnám hér á landi fengu ekki dvalarleyfi heldur einungis þeir sem stunduðu háskólanám. Iðnnám taldist því að mati Alþingis ekki nám. Sem betur fer er nú búið að breyta þessari víðáttuvitleysu en málið í heild sinni afhjúpar samt sem áður algjört skilningsleysi ráðamanna á mikilvægi iðnnáms. Á Alþingi Íslendinga sitja 63 kjörnir fulltrúar og það var ekki einn, EKKI EINN sem sá eitthvað athugavert við þessa lagabreytingu. Á Íslandi skrá um 12-15% ungmenna sig í iðnnám en hlutfallið í nágrannalöndum okkar er nálægt 50%. Þetta er mér með öllu óskiljanlegt. Ég mun ekki una mér hvíldar fyrr en við breytum þessu.

Menntakerfið þarf að vera vakandi og sveigjanlegt. Samtök iðnaðarins hafa að undanförnu beitt sér fyrir því að forritun verði sett inn í námskrá grunnskóla. Kannski þarf að setja fleiri iðngreinar inn í námskrá grunnskólanna svo iðnnám öðlist þann sem sess sem því ber. (anda) Í dag eru 1.500 háskólamenntaðir án atvinnu á sama tíma og atvinnulífið hrópar eftir iðnmenntuðum starfskröftum. Því hlýtur maður að spyrja: Erum við að mennta unga fólkið okkar með þarfir atvinnulífsins í huga?. Skortur á fólki með iðnmenntun er þegar orðið stórt vandamál. Í nýlegri könnun meðal félagsmanna SI kemur fram að 76% svarenda segja að þeim vanti fleiri iðnmenntaða og tæknimenntaða starfskrafta.

Við eigum að vera óhrædd við að leita nýrra leiða til að laða ungt fólk í iðnnám. Við þurfum að lyfta iðn- og starfsnámi á hærri plan. Dagurinn í dag – Iðnþing, er dagur iðnmenntaðra. Við öll sem erum hér saman komin erum afar stolt af því fólki sem beitir sínu framúrskarandi handverki og þekkingu á Íslandi á degi hverjum. Tíminn fyrir iðnmenntun er núna og það er ánægjulegt að geta þess að fyrr í dag skrifuðu Samtök iðnaðarins og Kvikubanki undir samning um stofnun Hvatningasjóðs Kviku sem hefur það hlutverk að veita styrki til nema í iðn- og starfsnámi með það að markmiði að vekja athygli á mikilvægi náms og starfa á þessu sviði. 

Starfsumhverfi - Samkeppnishæfni Íslands

Kæru Iðnþingsgestir. Nú langar mig að tala tæpitungulaust. Þótt margt hafi áunnist og ljós bjartsýninnar lýsi upp ýmsa kima okkar tilveru og starfsumhverfis þá er gengi krónunnar of hátt, sveiflur í gjaldmiðlinum eru alltof miklar, vaxtastigið er í engu samræmi við samkeppnislönd okkar, skattar og álögur á atvinnulífið eru íþyngjandi, lækka þarf tryggingagjald, aflétta þarf þakinu á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar í nýsköpun og hækka ætti endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu á byggingarstað íbúðahúsnæðis til að sporna við svartri atvinnustarfsemi. Úrbætur í þessum efnum eru allt of hægar. Stöðugleiki er forsenda þess að bæði heimili og fyrirtæki geti dafnað. Starfsumhverfið þarf að vera skilvirkt og umgjörð fyrirtækja fyrirsjáanlegt til að útflutnings- og samkeppnisgreinar geti þrifist hér á landi. Orð duga ekki ein og sér. Tími verka er runninn upp.

Ég er líka mjög hugsi yfir því að í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar frá því í desember er ekki minnst einu orði á iðnað. Orðið „iðnaður“ kemur ekki fyrir í gjörvöllum sáttmálanum. Það eru sérstakir kaflar um landbúnað, sjávarútveg, ferðaþjónustu og fjármálakerfið.  En ekki eitt orð um iðnað þrátt fyrir að iðnaður á Íslandi skapi nær 30% landsframleiðslunnar, skapi rúmlega þriðjung gjaldeyristekna og að einn af hverjum fimm á vinnumarkaði starfi við iðnað. EN í stað þess að kvarta og kveina höfum við hjá Samtökum iðnaðarins ákveðið að snúa vörn í sókn og bjóða ríkisstjórninni aðstoð okkar og höfum í þeim tilgangi tekið saman skýrslu sem gefin er út í dag og er nokkurs konar stöðumat á efnahagsumhverfi Íslands. Skýrslan ber sama heiti og yfirskrift Iðnþingsins: Ísland í fremstu röð – eflum samkeppnishæfnina  og er þar varpað skýru ljósi á stöðuna út frá þeim þáttum sem samtökin leggja megináherslu á, innviði, menntun, nýsköpun og starfsumhverfi. Allt þættir sem skipta höfuðmáli varðandi samkeppnishæfni landsins. Ég er stolt af þessari skýrslu sem er að fullu unnin af starfsmönnum Samtaka iðnaðarins og tel ég að hún  verði mikilvægt innlegg í umræðu komandi mánaða. Skýrslan er að okkar mati upphafið að þeirri stefnumótun sem Ísland þarf að fara í. Samtök iðnaðarins kalla eftir að unnin verði heildstæð atvinnustefna fyrir Ísland til að auka samkeppnishæfni landsins. Í þeirri vinnu þarf að móta menntastefnu, nýsköpunarstefnu, umhverfisstefnu og stefnu um uppbyggingu innviða. Allir þessir þættir mynda grunn að heildrænni atvinnustefnu. Við finnum ekki nýjar og betri leiðir nema að hafa góða stefnu.

Sem minnir mig á sögu af tveimur ungum mönnum í Hveragerði. Þeir ákváðu að fara í Evrópureisu aleinir og þótti kunnugum það undrun sæta, enda varla farið út úr Hveragerði, hvað þá til útlanda! Einhver hafði á orði að það yrði kraftaverk ef þeir skiluðu sér aftur heim. En það gerðu þeir, reynslunni ríkari og ánægðir með sig. Fólki lék vitaskuld forvitni á að vita hvort allt hefði gengið vel og játtu þeir því. Þá voru þeir spurðir hvort þeir hefðu ekki villst eða týnst í ferðinni og leit þá annar þeirra forviða á spyrjandann og sagði „Villst? Nei aldrei. Við vissum aldrei hvert við vorum að fara“.

Þannig höfum við dálítið verið hér á landi. Við höfum ekki almennilega vitað hvert við erum að fara. Ég bind vonir við að með ríkisstjórnarsamstarfi sem inniheldur stjórnmálaöfl til hægri, vinstri og á miðju megi nýta langþráðan pólítískan stöðugleika til að taka til við að móta þessa stefnu. Við hjá Samtökum iðnaðarins ætlumst til að nú verði breyting á. Breytingarnar þurfa ekki endilega að þýða útgjaldaauka fyrir hið opinbera heldur óskum við þess að ríkisstjórnin tileinki sér nýja hugsun og sýni þor í ákvörðunum sínum. Í hvaða átt viljum við stefna, næstu tíu, tuttugu, fimmtíu árin. Við þurfum atvinnustefnu fyrir Ísland og við hjá Samtökum iðnaðarins eru reiðubúin í þá vegferð með stjórnvöldum.

Kæru Iðnþingsgestir!

Ég hef nú dregið fram þau atriði sem ég tel  að þurfi að bæta til að gera Ísland að einu besta landi til búsetu og reksturs fyrirtækja. Ísland hefur alla burði til að tróna á toppnum í þeim efnum. Eins og ég sagði í upphafi orða minna næst slíkur árangur ekki af engu. Árangur næst með þrotlausri vinnu fólks sem hefur hugsjónir til að berjast fyrir. Bríeti Bjarnhéðinsdóttur sveið óréttlætið sem hún sá í samfélaginu. Hún setti sér snemma markmið og stefnu og uppskar eftir því. Hún náði með samvinnu og samtakamætti að virkja afl þjóðar sinnar til framfara. Þetta getum við líka. Við stöndum á krossgötum en höfum hugfast það sem Lói lærði í íslensku teiknimyndinni að: Enginn flýgur einn.

Góðir gestir! Ég hlakka til að vera með ykkur í dag og ekki síst hlakka ég til umræðu um helstu áskoranir til að efla samkeppnishæfni Íslands.

IÐNÞING 2018 ER SETT