Tölvuleikjaiðnaðurinn þarf starfsfólk með sérfræðiþekkingu
„Við höfum lagt áherslu á atriði eins og aðgang að sérhæfðu starfsfólki. Ég held það geti allir verið sammála um að eitt af því sem þessi fyrirtæki þurfa hvað mest á að halda er sérfræðiþekking og tæknimenntað starfsfólk, sem hefur verið skortur á svo það þarf að sækja erlent starfsfólk,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, í Fréttablaðinu um fyrirtæki í tölvuleikjaiðnaði hér á landi en um þriðjungur þeirra sem starfa við tölvuleikjagerð á Íslandi er erlent starfsfólk. Hún segir að tækifæri séu til úrbóta hjá íslenskum stjórnvöldum til að bæta umgjörð nýsköpunarfyrirtækja og að eitt af því sé ferlið við að sækja um atvinnuleyfi. „Það mætti einfalda það ferli að fá atvinnuleyfi og að fá atvinnuleyfi fyrir maka. Og við getum kynnt Ísland miklu betur sem ákjósanlegan kost.“
Í fréttinni er vitnað til þess sem kemur fram í nýrri skýrslu um íslenska tölvuleikjaiðnaðinn þar sem segir að sautján fyrirtæki sem sérhæfa sig í tölvuleikjaframleiðslu séu nú starfandi á landinu og hafi gefið út 83 leiki á síðastliðnum tíu árum. Fyrirtækin hafi alls 345 starfsmenn og höfðu tekjur upp á tæplega tíu milljarða á síðasta ári. Flest fyrirtækin séu hins vegar lítil, eða með á bilinu einn til sextán starfsmenn. Skortur sé á sérhæfðu starfsfólki og að Samtök iðnaðarins hafi bent á að stjórnvöld geti gert ýmislegt til að bæta þar úr.
Þá segir í fréttinni að tölvuleikjaframleiðandinn CCP sé langstærsta tölvuleikjafyrirtækið sem sé starfandi á landinu með um 270 starfsmenn. Flest fyrirtækin séu aftur á móti smá nýsköpunarfyrirtæki með einn til sextán starfsmenn og það sé því mikill stærðarmunur á milli fyrirtækja.
Fréttablaðið, 20. desember 2019.