Fréttasafn



22. mar. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Töpum samkeppnisforskoti í gagnaversiðnaði án aðgerða

Ísland er að tapa samkeppnisforskoti sínu í gagnaversiðnaði, samkvæmt nýrri skýrslu KPMG um íslenska gagnaversiðnaðinn sem unnin var fyrir Samtök gagnavera, DCI, í samvinnu við Landsvirkjun, Íslandsstofu og fleiri hagsmunaaðila innan gagnaversiðnaðarins.

Á undanförnum árum hefur gagnaversiðnaður vaxið talsvert á heimsvísu. Gögn eru helsta hrávara fjórðu iðnbyltingarinnar sem snýst að miklu leyti um söfnun gagna og úrvinnslu þeirra. Það verður því vaxandi þörf fyrir gagnaver og stjórnvöld í hinum ýmsu ríkjum hafa keppst um að laða til sín slíka starfsemi með markvissri stefnumótun og ýmsum aðgerðum henni tengdri. Hér á landi skortir stjórnvöld framtíðarsýn um gagnaversiðnaðinn og ef ekkert verður að gert mun Ísland dragast aftur úr í samkeppni ríkja og missa af tækifærum á þessu sviði. Lagt er til að stjórnvöld móti skýra stefnu og að ráðist verði í margvíslegar aðgerðir til að efla umhverfi þessa mikilvæga iðnaðar, sambærilegt því sem best gerist í samkeppnislöndum Íslands á þessu sviði. Þannig verður byggður upp iðnaður tengdur fjórðu iðnbyltingunni sem skapar verðmæti, eykur fjölbreytni í útflutningi og styður þannig við uppbyggingu alþjóðageirans, fjórðu stoðar hagkerfisins, sem byggir á hugviti.

  1. Orkumál: Efla þarf samkeppni á raforkumarkaði og auka gagnsæi. Stjórnvöld verða að:
    • styrkja Rammaáætlun með það að markmiði að auka fyrirsjáanleika á framboði á raforku,
    • marka skýra stefnu fyrir dreifingu og aðgengi raforku á þeim svæðum sem helst eru talin henta fyrir gagnaver,
    • lækka kostnaðarþröskuld vegna dreifingar á raforku fyrir nýja aðila á markaði og
    • beita sér fyrir því að koma á laggirnar opnum raforkusölumarkaði.
  2. Gagnatengingar: Efla þarf gagnatengingar til landsins, fjölga þeim valkostum sem viðskiptavinir gagnavera hafa og lækka kostnað:
    • Ýmsar leiðir eru tilteknar í skýrslunni til að ná þessu markmiði, m.a. að greiða leið einkafjárfestingar í nýjum gagnastreng.
  3. Markaðssetning erlendis: Samhæfa þarf skilaboð stjórnvalda og annarra aðila til erlendra aðila um að Ísland sé vænlegur kostur fyrir kaupendur gagnaversþjónustu og fjárfesta í markaðssetningu líkt og samanburðarríki hafa gert af miklum krafti.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.

Forsida-skyrslu-staerri