Fréttasafn20. jún. 2017 Almennar fréttir

Tryggja á framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi

Ný verkáætlun um máltækni fyrir íslensku á árunum 2018-2022 var kynnt á blaðamannafundi í Veröld - húsi Vigdísar í gær. Markmið áætlunarinnar er að íslensku verði að finna í öllum tækjabúnaði og í hugbúnaði stærstu tæknifyrirtækja heims. Raddstýring alls kyns tækja og tóla verður regla í náinni framtíð en þau skilja ekki íslensku í dag. Úr því þarf að bæta til að tryggja framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi ásamt því að finna leiðir til að byggja upp vélar sem geta þýtt erlendan texta yfir á íslensku og öfugt. „Það er ríkur vilji stjórnvalda að hrinda í framkvæmd verkáætlun fyrir máltækni til næstu fimm ára og tryggja þannig að íslenskan verði fullgilt tungumál í stafrænum heimi. Ábyrgðin liggur þó ekki einvörðungu hjá stjórnvöldum heldur okkur öllum; fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum. Það hversu vel við hlúum að tungu okkar mun ráða úrslitum um stöðu hennar í framtíðinni,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, á blaðamannafundinum. 

Mikilvægt að viðhalda íslensku sem megintungu í atvinnulífinu

Þegar verður hafist handa við fjölmörg verkefni á þessu ári en meginþungi vinnunnar fer fram á árunum 2018-2022. Tími til stefnu er naumur vegna þess að gervigreind og máltækni í heiminum þróast á ógnarhraða og mikilvægt að Ísland sitji ekki eftir. Bylting er að eiga sér stað en þetta málefni varðar hvert einasta heimili í landinu, atvinnulífið, menntastofnanir og stjórnvöld. Aðeins með samstilltu átaki er hægt að byggja upp innviði íslenskunnar þannig að hún hörfi ekki fyrir öðrum tungumálum í daglegu lífi fólks vegna tæknibreytinga. „Það er mikilvægt að á íslensku megi alltaf finna svar og að íslensku verði viðhaldið sem megintungu í atvinnulífinu. Íslendingar hafa dregist aftur úr nágrannaþjóðunum en með nýrri máltækniáætlun til ársins 2022 er blásið til sóknar. Raddstýring sem stærstu tæknifyrirtæki heims hafa þróað hefur aðeins verið í stuttan tíma á markaði en það mun taka 10-20 ár að fullþróa hana. Ísland hefur tækifæri til að taka þátt í byltingunni frá upphafi og tryggja að snjalltæki muni bæði tala og skilja íslensku,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. „Ef vel tekst til verður ávinningurinn mikill. Máltækni getur t.d. aukið framleiðni í atvinnulífinu því sjálfvirkar þýðingar munu nýtast í öllum viðskiptum sem verða öruggari og hraðari. Vélrænar málfarslöggur munu einnig auðvelda fólki lífið við að leiðrétta málfar, stafsetningu og beygingar. Atvinnulífið gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að nýsköpun og þróun á máltækni og mun leggja sitt af mörkum til að markmið nýrrar máltækniáætlunar náist í nánu samstarfi við stjórnvöld, fyrirtæki, stofnanir og háskóla.“

Tillögur stýrihóps

Verkáætlunin byggir á tillögum stýrihóps um máltækni sem var skipaður í lok október 2016. Í stýrihópnum áttu sæti Davíð Þorláksson formaður, Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, Birna Ósk Einarsdóttir, Guðrún Nordal og Pétur Reimarsson. Tillögurnar eru settar fram í skýrslunni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022 en hún var unnin af Önnu Björk Nikulásdóttur sérfræðingi í máltækni við Gervigreindarsetur Háskólans í Reykjavík, Jóni Guðnasyni, lektor við Háskólann í Reykjavík og Steinþóri Steingrímssyni, verkefnastjóra upplýsingatækni hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

Á myndinni eru, talið frá vinstri: Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir, Steinþór Steingrímsson, Birna Ósk Einarsdóttir, Halldór Benjamín Þorbergsson, Davíð Þorláksson, Eiríkur Rögnvaldsson, Anna Björk Nikulásdóttir og Jón Guðnason.

Sjá nánar á vef SA.