Fréttasafn



6. apr. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Tryggja að fyrirtæki geti haldið starfsfólki í rannsóknum og þróun

Heilt yfir höfum við hjá Samtökum iðnaðarins fagnað útspili ríkisstjórnarinnar og ég vil hrósa forystumönnum ríkisstjórnarinnar fyrir að sýna dug og kjark á þessum tímum og sýna að það er vilji til þess að gera frekar of mikið en of lítið. Þetta skiptir sköpum í væntingarstjórnun og annað. En það sem er líka fagnaðarefni er að Seðlabankinn, aðilar vinnumarkaðarins, fjármálakerfið og stjórnvöld eru að ganga í takti. Þetta skiptir öllu. Þetta segir Sigríðar Mogensen, sviðsstjóra hugverkasviðs SI, meðal annars í hlaðvarpsþætti Kristjáns I. Mikaelssonar í hlaðvarpi Rafmyntaráðs. 

Í þættinum ræðir Sigríður um hvernig Íslendingar geta snúið bökum saman og blásið til sóknar. Sérstaklega er farið í saumana á þeim iðnaði sem byggir á hugviti, en Sigríður telur það vera augljósan kost sem ein af grunnstoðum Íslands þegar rykið sest eftir faraldurinn. Í þættinum ræða þau meðal annars um mikilvægi þess að skapa rétta hvata í samfélagnu til þess að verja góð störf í landinu.

Auknar endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði

Sigríður segir að þessi hlutastarfaleið sé vissulega mjög góð og mjög jákvætt útspil. „Það skiptir auðvitað miklu máli að fólk geti haldið áfram að geta keypt vörur inn á heimilið og fleyta sér áfram núna næstu mánuði. Þannig að þegar fyrirtæki þurfa óumflýjanlega að fara í uppsagnir að þá er frábært að ríkið ætli að stíga inn og styðja við það að hægt sé að lækka starfshlutfall niður í 25% eða 50% hjá stórum hópi fólks. En til lengri tíma þá velti ég því upp og þetta á kannski við sumar atvinnugreinar en ekki allar. Getur ríkið mögulega búið til aðgerðir, smíðað aðgerðir, sem tryggja frekar að fyrirtæki geti haldið þessu fólki í vinnu á jafnvel fullum launum eða á einhverjum lækkuðum launum, til dæmis í rannsóknum og þróunum í nýsköpun. Eru hvatarnir alveg réttir þarna?“ 

Hún tekur dæmi af hátæknifyrirtæki sem er með 20-30 starfsmenn í rannsóknum og þróun og fjárfestingu í því. „Þarna mundi ég til dæmis vilja sjá ríkið stíga inn í með auknum skattahvötum, auknum endurgreiðslum á rannsóknar- og þróunarkostnaði sem er tæki sem er nú þegar staðar, og löggjöf sem er þegar til staðar. Að gefa í þar gæti mögulega tryggt að þetta fyrirtæki gæti haldið þessu starfsfólki í fullri vinnu við rannsóknir og þróun á sínum vörum og sinni þjónustu í stað þess að senda fólk heim í 25% starfshlutfall og ríkið taki reikninginn í gegnum atvinnuleysisbótakerfið. Við þurfum líka að hugsa hvernig sköpum við réttu hvatana þannig að fyrirtæki stökkvi ekki bara strax á þessa leið að lækka starfshlutfall og að ríkið taki í rauninni yfir launagreiðslur tugþúsunda manna.“

Á Spotify er hægt að nálgast hlaðvarpið þar sem rætt er við Sigríði.