Fréttasafn



2. ágú. 2022 Almennar fréttir

Tryggja þarf að árangri verði ekki glutrað niður

„Staðan í efnahagsmálum er tvísýn og ljóst að gerð kjarasamninga er lykilbreyta í því að ná tökum á verðbólgu og vaxtastigi. Hvort tveggja bítur heimili og fyrirtæki landsins fast,“ segir Árni Sigurjónsson, formaður SI, í viðtali Sigurðar Boga Sævarssonar í Morgunblaðinu um efnahagsmálin. Árni segir að tryggja þurfi að þeim árangri sem hafi náðst á undanförnum árum verði ekki glutrað niður. „Miklar launahækkanir í verðbólgu og því ótrygga efnahagsástandi sem nú ríkir, yrði ekki góð aðgerð. Mikilvægt verkefni á hverjum tíma er að tryggja næga atvinnu og halda uppi góðri framleiðni. Harðar aðgerðir í tengslum við samninga myndi vinna gegn slíku. Launahækkanir síðustu ára hafa sömuleiðis komið við rekstur fyrirtækjanna, sem fresta því í lengstu lög að velta kostnaði út í verðlagið. Stóra verkefnið er því með öðrum orðum sagt að halda stöðugleika á vinnumarkaði og efnahagsmálum – sem vonandi tekst með góðri samstöðu.“

Tryggingagjaldið er íþyngjandi skattheimta 

Í viðtalinu segir Árni að það myndi hjálpa til að lækka tryggingagjaldið: „Verðbólga kemur illa við fyrirtækin, rétt eins og við almenning. Vaxtakostnaður fer hækkandi og það gerir fyrirtækjum erfiðara um vik að halda verðlagi stöðugu. Þetta er einfaldlega staðan á heimsvísu. Fyrirtækin leita allra leiða til að hagræða í rekstri til að takast á við þessar áskoranir, sem nú eru uppi. Eins og oft hefur verið bent á, er tryggingagjaldið svonefnda, sem er 6,35% skattur og er viðbót á greidd laun, íþyngjandi skattheimta, sér í lagi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Það myndi hjálpa til ef það yrði lækkað.“ 

Breyta þarf fyrirkomulagi álagningar fasteignagjalda

Í viðtalinu kemur fram að fasteignagjöld hafi jafnhliða hækkandi fasteignamati rokið upp að undanförnu og segir Árni að það sé staða sem sveitarfélögin bjuggu til með lóðaskorti. Hann segir því þurfa að breyta fyrirkomulagi álagningar fyrir almenning og fyrirtæki og sömuleiðis þurfi að fara yfir útfærslu ýmissa þeirra eftirlitsverkefna sem sveitarfélög hafa með höndum, svo sem bygginga- og heilbrigðiseftirlits. Ef áform stjórnvalda gangi eftir verði mikið umleikis í mannvirkjagerð á næstu árum og segir í Morgunblaðinu samanber að gefið hafi verið út að vegna áætlana um orkuskipti, þurfi að virkja meira á Íslandi. Þá hafi  innviðaráðherra og sveitarfélögin nýlega kynnt áætlanir um að byggðar verði 35 þúsund íbúðir á næstu 10 árum. Þegar blaðamaður spyr hvað þurfi að gerast svo þetta megi raungerast segir Árni brýnt að þau verkefni sem framundan séu verði skoðuð í tengslum við loftslagsaðgerðir: „Íslensk iðnfyrirtæki hafa tekið loftslagsmálin föstum tökum. Þau hafa ráðist í aðgerðir til að draga úr losun og þróað grænar lausnir sem nýtast hér á landi og um heim allan. Iðnaðurinn er eina útflutningsgreinin sem notar nær eingöngu hreina orku til að knýja verðmætasköpun, á meðan sjávarútvegur og ferðaþjónusta eru að verulegu leyti knúin áfram af olíu. Það þarf því að virkja fyrir þessar greinar, þannig að í framtíðinni noti þær einnig hreina og græna orku. Ég trúi því að íslenskt samfélag standi heils hugar á bak við metnaðarfull markmið stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040 og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti sama ár.“

Sveitarfélögin geri miklu betur í húsnæðismálum

Hvað húsnæðismálin áhrærir segir formaður SI í viðtalinu þá staðreynd liggja fyrir að of fáar íbúðir hafi verið byggðar undanfarin ár miðað við þá miklu eftirspurn sem fyrirséð var. Í Morgunblaðinu kemur fram að SI fagni áformum innviðaráðherra og samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga um uppbyggingu. „Það sem skiptir þó mestu máli er að sveitarfélögin, hvert og eitt, geri miklu betur í þessum málum og ryðji eins mörgum hindrunum úr vegi og mögulegt er. Breyta þarf skipulagi í þágu aukinnar uppbyggingar. Taka þarf stjórnsýslu til gagngerrar endurskoðunar í þágu skilvirkni, gera lóðir tilbúnar og aðgengilegar og byggja þarf innviði. Þetta er vel mögulegt og við sjáum þegar jákvæð teikn á lofti hvað þetta varðar, en betur má ef duga skal. Ríkisvaldið hefur staðið sig vel í að gera regluverkið skilvirkara og niðurstöður átakshóps eru skýrar um framhaldið.“ 

Miklir öfgar í efnahagslífinu 

Árni segir í viðtalinu að fáar greinar búi við eins miklar sveiflur og íslenskur byggingariðnaður. „Fyrir vikið er aðlögunarhæfni hans mikil. Ég hef enga trú á því að iðnaðurinn verði fyrirstaða þegar kemur að þessu stóra verkefni, þvert á móti. Vonandi mun ójafnvægi í heimsbúskapnum ekki tefja óþægilega mikið fyrir nauðsynlegri uppbyggingu. Mikil eftirspurn er eftir vinnuafli um þessar mundir. Vextir eru háir en samt miklar framkvæmdir. Sala á notuðum og talsvert dýrum bílum er mikil, og verðbólgan er komin í 9,9%. Skortur er á hrávörum víða frá sem snarhækka í verði. Hér mætast miklar öfgar í efnahagslífinu, nú þegar dregur að gerð nýrra kjarasamninga.“ 

Morgunblaðið, 2. ágúst 2022.

Morgunbladid-02-08-2022