Fréttasafn17. júl. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Umbætur á húsnæðismarkaði þurfa að gerast hratt

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, ræddi um húsnæðismarkaðinn og þær umbætur sem þurfa að verða bæði hjá ríki og sveitarfélögum í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær. „Það hefur alltof lítið verið byggt síðustu ár þannig að það er talsverður skortur á íbúðarhúsnæði í landinu, ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Við sjáum það líka og heyrum dæmi að því hvernig uppbyggingin hefur verið út á landi. Nýtt dæmi sem hefur verið í fréttum af íbúðarbyggingum á Bíldudal þar sem vel hefur tekist til og það er kannski áminning til okkar um þær brotalamir sem við er að eiga hér á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að sveitarfélögunum, skipulagi og lóðaskorti sem auðvitað bæði hamlar uppbyggingu og tefur uppbygginguna. Þannig að þetta eru klárlega atriði sem þarf að bæta úr og hefur lítið gerst í þeim efnum á síðustu árum.“

Sigurður segir í viðtalinu að ekkert hafi hreyfst hér á höfuðborgarsvæðinu og það sé miður. „Stóri munurinn er auðvitað afgreiðsla sveitarfélaganna, annars vegar framboð á lóðum og hins vegar ferlið sjálft. Það getur verið svo ofboðslega þungt í vöfum og ófyrirsjáanlegt, sem hefur meðal annars gert það að verkum að stórir verktakar vilja frekar byggja í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur eða á svæðum eins og Suðurlandi og Reykjanesbæ, frekar en að byggja í Reykjavík og eiga við skipulagsyfirvöld þar.“

Umbætur þurfa að gerast hratt því húsnæðisskortur hefur heilmiklar afleiðingar

Nú eru nýafstaðnar sveitarstjórnarkosningar og ekki mikil breyting á meirihluta hér í Reykjavík, eigum við þá kannski ekkert von á neinum úrbótum í þessu eða hvað heldur þú? „Þessi mál voru auðvitað heilmikið til umræðu núna í aðdraganda kosninganna en ég heyri ekki betur en að allir séu sammála um það, meira og minna, að vilja bæta úr. Ég held að það sé vilji til þess en hitt er annað mál hvort við sjáum það gerast. Ég vona svo sannarlega að það verði því það er algjörlega nauðsynlegt að bætt sé úr en það þarf auðvitað að gerast frekar hratt því húsnæðisskorturinn hefur heilmiklar afleiðingar. Við sjáum það til dæmis ef við horfum á vinnumarkaðinn og stöðuna þar, á sama tíma og kaupmáttur hefur aukist gríðarlega á síðustu árum þá gætir heilmikillar óánægju í röðum launþega. Ég held að ein af stóru ástæðunum þar er húsnæðisverð og framboð á húsnæði. Það er erfitt að fá húsnæði og það kostar miklu meira, leiguverð hefur hækkað, hærra hlutfall þegar upp er staðið hefur að miklu leiti farið í húsnæðiskostnað.“

Húsnæðismál í einu sterku innviðaráðuneyti

Sigurður segir þetta klárlega vera mál sem verði að bæta úr. „Við höfum ekki mikinn tíma til stefnu. Ég mundi segja að við verðum að sjá einhverjar umbætur fram að áramótum. Ef við horfum á hvað þarf að gerast þá í fyrsta lagi þarf ríkið að gera eitthvað hjá sér. Við sjáum það til dæmis að þessi mál eru hjá þremur aðilum, húsnæðismálin eru hjá félagsmálaráðuneytinu, bygginga- og skipulagsmálin eru í umhverfisráðuneytinu og svo eru málefni sveitarstjórnar í samgönguráðuneytinu. Þetta er alltof flókið. Við sjáum það til dæmis að í Danmörku þá hafa þessi mál verið sameinuð í einu sterku innviðaráðuneyti. Ég held að það færi vel á því að gera það til þess að auka samhæfingu og til þess að hægt sé að taka á þessu mikilvæga máli af festu. Síðan eru það sveitarfélögin, þar er það auðvitað skipulagið. Afgreiðslan þarf að vera miklu skilvirkari. Við sjáum það til dæmis að í Úlfarsárdal þar sem skipulagi var breytt til að fjölga íbúðum. Það tók þrjú ár frá því að hugmyndin kom upp og þar til lóðirnar voru auglýstar. Þrjú ár að breyta skipulagi. Þetta er auðvitað alltof langur tími. Hins vegar er það framboðið á lóðum. Það þarf að gera ráð fyrir meira byggingarmagni. Við létum gera greiningu á því fyrir okkur í aðdraganda kosninganna og þá kemur í ljós að það er gert ráð fyrir alltof fáum nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu miðað við spár um mannfjöldaaukningu. Þetta auðvitað þýðir að það þarf að fjölga lóðunum. Þannig að ég mundi segja að ríkið og sveitarfélögin þurfa auðvitað að taka þessi mál til endurskoðunar og ljúka þeirri vinnu fyrir árslok.“

Raunhæft að stofna innviðaráðuneyti

Þú ert að mæla með stórum aðgerðum, stofnun innviðaráðuneytis, á sama tíma og hlutirnir þurfi að gerast fyrir áramót. Er þetta raunhæft að menn spýti í lófana og gefi í? „Já þetta er frábær spurning. Stofnun innviðaráðuneytis er mjög einföld, hún snýst um að taka húsnæðismálin úr félagsmálaráðuneytinu, taka skipulags- og byggingarmálin úr umhverfisráðuneytinu og setja þau inn í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið.“ Tekur það ekki mikinn tíma? „Nei það þarf ekki að gera það. Við sjáum það til dæmis að núna stendur  til að skipta velferðarráðuneytinu upp í tvö ráðuneyti, annars vegar í heilbrigðisráðuneyti og hins vegar í félagsmálaráðuneyti. Þetta á að gerast núna í haust. Þannig að ég held að þetta sé vel raunhæft og meira en það.“

Færri að vinna í byggingariðnaði núna heldur en þegar mest var

En er byggingariðnaðurin að draga saman, eru einhver teikn um það? „Við finnum  nú ekki merki um það hjá okkar félagsmönnum. Það hefur verið mjög mikið að gera og útlit fyrir að svo verði áfram. Við höfum ekki fundið fyrir því. En við sjáum það líka að fjöldi launþega í byggingariðnaði var 12 þúsund á síðasta ári, fyrir 10 árum voru um 16 þúsund manns að vinna í byggingariðnaði, það eru ennþá talsvert færri að vinna í þessum iðnaði heldur en var þegar mest var á sínum tíma.“

Ekki hægt að bíða eftir umbótum í mörg ár

Sigurður segist hafa séð húsnæðismálaráðherra í viðtali núna um helgina hvetja til meiri uppbyggingar. „Það er hins vegar ekki nóg að safna gögnum og hvetja sveitarfélögin til að skipuleggja meira á næstu árum. Þetta verður að gerast miklu miklu hraðar. Það er ekki hægt að bíða í mörg ár eftir því að hlutirnir lagist einhvern veginn af sjálfum sér. Það þarf festu til þess að þetta verði að veruleika.“

Þegar Sigurður er spurður hvort hann sé bjartsýnn miðað við þann meirihluta sem var kosinn í Reykjavík og tali aðallega um þéttingu byggðar, að það sé mikill vilji til þess að fara að auka byggingarmagn verulega. „Ég get ekki skilið það öðruvísi eins og fyrir síðustu kosningar en að vilji allra stæði í þá átt að einfalda hlutina og gera þá skilvirkari. En það er alveg rétt, við eigum auðvitað eftir að sjá þetta gerast. Maður þarf að vera bjartsýnn þar til annað kemur í ljós.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð.