Fréttasafn30. apr. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Umbætur í starfsumhverfi efla samkeppnishæfni

Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segja í grein í Viðskiptablaðinu að starfsumhverfi hafi áhrif á samkeppnishæfni Íslands og með stöðugu, hagkvæmu og skilvirku starfsumhverfi skapist skilyrði til aukinna fjárfestinga, framleiðnivaxtar og hagvaxtar til lengri tíma. Þau segja að stöðugleiki sé lykilforsenda í starfsemi hvers fyrirtækis. Til að ná fram stöðugleika sé mikilvægt að hagstjórnartækjum á sviði opinbera fjármála og peningamála sé beitt með samstilltum og réttum hætti. Með hagkvæmni megi skapa fyrirtækjum forskot í samkeppni. Það þurfi að vera hagkvæmt að starfrækja hér fyrirtæki, samanborið við önnur ríki. Tryggja þurfi skilvirknina þannig að atvinnulífið geti hlaupi hraðar. Regluverk þurfi að vera einfalt og skýrt og eftirlitið skilvirkt. Stuðla þurfi að heilbrigðri og virkri samkeppni þar sem öll fyrirtæki starfi eftir sömu leikreglum. 

SI leggur fram tillögur að umbótum í starfsumhverfi fyrirtækja til að ná enn frekari árangri

Í greininni kemur fram að Samtök iðnaðarins hafi lagt til umbætur í starfsumhverfi fyrirtækja til að ná enn frekari árangri. Til að ná fram stöðugleika sé mikilvægt að hagstjórnartækjum á sviði opinbera fjármála og peningamála sé beitt með samstilltum og réttum hætti. Gæta þurfi að því að forgangsröðun sé rétt og að skuldasöfnun sé ekki umfram það sem mæta megi með sjálfbærum hætti litið til framtíðar. Verðbólguvæntingar við markmið peningastefnunnar gefi Seðlabankanum einnig svigrúm til þess að beita tækjum peningastjórnunar til að hvetja hagkerfið til vaxtar. Stýrivextir bankans hafi verið lækkaðir umtalsvert til að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við efnahagsamdráttinn. Bankinn hafi einnig beitt öðrum stýritækjum á borð við sveiflujöfnunarauka og bindiskyldu til að tryggja aðgang að lausu fé og stutt þannig við fyrirtæki og heimili í landinu. Mikilvægt sé að haldið sé áfram á sömu braut.

Fjölbreytni er vörn gegn efnahagslegum áföllum

Í greininni segja þau að hagkerfið sem komi út úr núverandi niðursveiflu sé ólíkt því sem var fyrir niðursveifluna. Efnahagsbatinn verði á öðrum forsendum, í öðrum greinum og með þann lærdóm í farteskinu sem áunnist hefur. Meðal þess sé að lífskjör framtíðarinnar þurfi að byggjast á fjölbreyttu atvinnulífi. Fjölbreytni sé grundvöllur stöðugleika – vörn gegn efnahagslegum áföllum. Þá kemur fram að iðnaðurinn skapaði í fyrra um 22% landsframleiðslunnar og um eitt af hverjum fimm störfum í landinu. Greinin sé mjög fjölbreytt í eðli sínu – samsett af bæði rótgrónum og nýjum fyrirtækjum, stórum og smáum með starfsemi um land allt. Fjölbreytni sé styrkur greinarinnar sem nýtast muni við uppbyggingu atvinnulífsins litið til næstu ára. Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar ráðist að miklu leyti af því starfsumhverfi sem stjórnvöld skapi.

Í niðurlagi greinarinnar segja þau að stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi styðji við nýsköpun og frekari verðmætasköpun. Með ofangreindum umbótum eflum við samkeppnishæfni Íslands og verðum betur í stakk búin til að endurreisa hagkerfið.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Viðskiptablaðið, 29. apríl 2021.

Vidskiptabladid-29-04-2021