Fréttasafn



22. maí 2018 Almennar fréttir Mannvirki

Umferðin vaxið miklu meira en fólksfjöldinn

„Við sjáum að íbúum hefur fjölgað um 9% á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og umferðin hefur vaxið um tæplega 30% svo umferðin hefur vaxið miklu meira heldur en fólksfjöldinn. Það lítur út fyrir að umferðin haldi áfram að vaxa á þessu ári og má búast við því að enn eitt metið verði þá slegið núna varðandi umferð og þá væntanlega varðandi ferðatímann líka,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni fyrr í dag en síðasta ár var metár í umferð og umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu náðu sögulegum hæðum. Hann segir að umferðartafir hafi aldrei verið meiri og sem dæmi nefnir hann að það taki þá sem eiga leið úr miðbænum í Grafarvoginn eftir vinnu síðdegis í síðdegisumferðinni 40% lengri tíma að komast heim núna heldur en var árið 2012. „Það munar ansi mikið um það.“ Sigurður segir að það sem helst skýri þennan mikla vöxt sé fjölgun ferðamanna á síðustu árum auk þess sem efnahagsuppsveiflan geri það að verkum að umferð eykst með auknum kaupmætti og aukinni velmegun.

Hver borgarbúi fastur í umferðinni aukalega í 25 klukkustundir á ári

Í viðtali þáttastjórnandans Þorgeirs Ásvaldssonar við Sigurð kemur fram að Samtök iðnaðarins meti það þannig að 15 þúsund tímum hafi verið sóað á hverjum einasta degi í umferðartafir á höfuðborgarsvæðinu. Ef það er reiknað á hvern höfuðborgarbúa á ársgrundvelli þá eru það um 25 klukkustundir sem hver og einn borgarbúi er fastur aukalega í umferðinni á hverju ári. „Svo þetta auðvitað skiptir mjög miklu máli. Við sjáum það að þjóðhagslegur kostnaður af þessu er mældur í milljörðum á ári vegna tapaðs tíma, auk þess er aukinn orkukostnaður, eldsneytiskostnaður og meiri mengun. Þannig að það er bæði beinn og óbeinn kostnaður sem hlýst af þessu.“

Þarf að fjárfesta í nýjum umferðarmannvirkjum

En hver eru úrræðin í þessum efnum? „Fyrst og fremst þarf fjárfestingu. Það þarf að fjárfesta í nýjum umferðarmannvirkjum og arðsemin af því er auðvitað talsvert mikil. Það hefur kannski ekki verið mikið um nýjar fjárfestingar eða samgönguframkvæmdir á stofnæðum höfuðborgarinnar á undanförnum árum, þrátt fyrir stóraukna umferð. Afleiðing þess blasir við okkur, meiri og auknar tafir sem kostar auðvitað sitt. En þessu til viðbótar þá höfum við haldið því á lofti að það þurfi líka að meta, ekki bara kostnaðinn af framkvæmdum, heldur ábatann. Því að svona framkvæmdir geta auðvitað verið mjög hagkvæmar. Og þá erum við að horfa á forgangsröðun,“ segir Sigurður.

Á Vísi er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð.