Fréttasafn10. ágú. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Umgjörð ríkis og sveitarfélaga er rót vandans á fasteignamarkaði

Ef við horfum á hver er rót vandans varðandi fasteignamarkaðinn þá er það umgjörð markaðarins sem bæði ríki og sveitarfélög skapa. Þetta er margþætt þannig að það eru margir sem þurfa að koma að til að leysa þetta mál. Það hefur auðvitað verið reynt en gengið alltof hægt. En það er mjög mikið í húfi að það takist. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni í Sprengisandi á Bylgjunni þar sem Kristján ræddi við Sigurð og Kristrúnu Frostadóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík um efnahagsráðstafanir og fasteignamarkaðinn.

Sigurður segir að beinar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem ráðist var í, eins og atvinnuleysisbætur, hlutabætur, viðspyrnustyrkir, tekjufallsstyrkir, brúarlán, stuðningslán, lokunarstyrkir og svo framvegis, séu allt aðgerðir sem miði að ákveðnum hópum sem þurfi á fjármunum að halda, sérstaklega atvinnuleysisbætur og hlutabætur sem sé kannski stærsti parturinn af þessu sem fari auðvitað beint til fólks. 

Íbúðaframboð er ekki nóg

Varðandi fasteignamarkaðinn segir Sigurður að það sé rétt að vaxtalækkun plús auðvitað aukinn kaupmáttur sem leiði af kjarasamningum og ákveðið ójafnvægi sem verið hafi á fasteignamarkaðnum leiði til þess að verðið hækkar. „En af hverju gerist það? Það er vegna þess að framboðið hefur ekki verið nóg og það er vandamál sem teygir sig langt aftur. Við hjá Samtökum iðnaðarins sem stöndum í því að telja íbúðir í byggingu, eins og frægt er, vegna þess að opinberar upplýsingar eru ekki áreiðanlegar. Við tókum eftir þessu strax árið 2019 að umsvifin á byggingamarkaði voru að minnka, fjöldi launþega var að dragast saman, uppsagnir í greininni, minni umsvif og færri ný verkefni. Sú þróun hefur bara ágerst.“ Hann segir að á tveggja ára tímabili sé samdrátturinn frá 2019 tæplega 30% á fjölda íbúða í byggingu.

Ekki rétt að metfjöldi íbúða sé að koma inn á markaðinn

Sigurður segir að fólk sé að tala um að það sé metfjöldi íbúða að koma inn á markaðinn en það standist ekki, „Það er ekki rétt. Við til dæmis sjáum það að samtökin leggja ekki sjálfstætt mat á þörfina en Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gerir það. Stofnunin mat það að í upphafi þessa árs þá væri uppsöfnuð þörf 4.000 íbúðir, það vantaði 4.000 íbúðir til að ná jafnvægi. Þar að auki þarf að þeirra mati 3.000 íbúðir á hverju einasta ári til þess að uppfylla þörfina. Þetta er mikill fjöldi. Til samanburðar þá gerum við ráð fyrir því að rúmlega 2.000 íbúðir komi inn á markaðinn í ár og tæplega 2.000 á næsta ári. Við sjáum það sem er aðaláhyggjuefnið hérna að fjöldi íbúða á fyrstu byggingarstigum, ný verkefni, þau hafa verið að dragast ennþá meira saman sem gefur vísbendingar um stöðuna eftir tvö til þrjú ár.“ Sigurður segist vilja leita skýringa á verðhækkunum íbúða til þessa fyrst og fremst.

Hækkun fasteignaverðs ekki eingöngu vegna þess að vextir lækkuðu

Sigurður segir að annars vegar sé skammtímaþróunin sem sé mikil hækkun á stuttum tíma en líka langtímaþróunin, mikil hækkun á löngum tíma. „Þannig að sama hvernig horft er á þetta þá hefur fasteignaverð hækkað langt umfram kaupmáttaraukninguna. Það er ekki bara hægt að tala um að þetta sé eitthvað vandamál af því að vextir lækkuðu. Maður getur líka velt fyrir sér að vextir lækkuðu út um allan heim, fasteignaverð hefur verið að hækka út um allan heim, þannig að þetta er ekki eitthvað sem er bundið bara við Ísland en þetta dregur bara fram veikleikana í kerfinu hjá okkur þessi staða, sem er þessi umgjörð. Það er eins og ég segi margir sem koma að því.“

Þarf umbætur hjá ríki og sveitarfélögum í umgjörð fasteignarmarkaðarins

Þegar Sigurður er spurður hvernig þetta verði leiðrétt segir hann að fara þurfi í umbætur. „Til dæmis ríkið, ef byrjum þar, þar þarf að sameina alla þessa málaflokka inn í eitt ráðuneyti. Ég er ekki að tala um að búa til nýtt ráðuneyti frá grunni eða stækka báknið, heldur bara færa húsnæðis- og byggingarmál yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og  færa skipulagsmálin sömuleiðis þangað inn. Þar verði öflugt innviðaráðuneyti sem að tekur þá til samgöngumála, vegagerðar, húsnæðisuppbyggingar, sveitarstjórnarmála, fjarskipta og fleira.“

Hann segir að skoða þurfi stofnanirnar. „Við sjáum það hvernig Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem varð til við sameiningu stofnana tókst gríðarlega vel. Skilvirkni jókst og sparnaðurinn nemur 300 milljónum á ári. Mjög vel heppnað. Við verðum að halda áfram þar.“

Einnig þurfi að skoða umbætur hjá sveitarfélögum. „Það eru 53 embætti byggingarfulltrúa á landinu. Eitt af því sem verktakar lenda í er að túlkunin á regluverkinu er ólík eftir sveitarfélögum. Það sem er í lagi í einu sveitarfélagi gengur ekki í því næsta. Þetta er auðvitað auka flækjustig. Það þarf að laga þetta.“

Þá vill Sigurður horfa til stafrænnar stjórnsýslu. „Eins og ég sagði áðan þurfa Samtök iðnaðarins að telja íbúðir í byggingu af því opinberar upplýsingar eru ekki áreiðanlegar. Auðvitað á þetta að vera í lagi vegna þess að þessi skortur á yfirsýn kostar samfélagið heilmikið vegna þess að það er ekki almennilega vitað hver þörfin er. Hvað er það sem markaðurinn þarf, eru það íbúðir á þessu svæði eða hinu, eru það stórar íbúðir eða litlar og svo framvegi.“ 

Sveitarfélög séu með stöðugt framboð lóða út um allt land

Þá nefnir Sigurður lóðarframboðið. „Það er auðvitað ekki hægt að líta framhjá því og þá er ég að tala um allt landið, ekki bara Reykjavík heldur landið allt. Þar þarf að vera stöðugt framboð á lóðum á hverjum tíma. Við sjáum hvað eftirspurnin er mikil, á Selfossi til dæmis þar sem voru fimmtíuogeitthvað lóðir boðnar út og komu átta þúsund umsóknir. Þetta segir sína sögu um þetta ójafnvægi sem að þarna ríkir. Þannig að þetta er samspil margra þátta sem þarf að laga.“

Sigurður segir að þetta hafi hafist að einhverju leyti 2018/2019 og var innsiglað í tengslum við lífskjarasamninginn þegar aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld komu saman og gerðu ákveðið plan, umbótaáætlun. „Því hefur verið fylgt eftir að einhverju leyti en það vantar meira til. Ég sakna þess að sjá sveitarfélögin koma með mun meira afgerandi hætti þar inn.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan/Vísir, 25. júlí 2021.

Bylgjan-25-07-2021Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík.