Fréttasafn17. jan. 2018 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Umhverfismál snúast um miklu meira en náttúruvernd

Umhverfismál snúast um miklu meira en náttúruvernd og má þar nefna endurvinnslu, áhrif okkar á lífríki, loftgæði, vatnsgæði og náttúruauðlindir. Gott samstarf stjórnvalda og atvinnulífs er forsenda þess að stjórnvöld nái metnaðarfullum markmiðum sínum í málaflokknum en stefnt er að 40% minni losun gróðurhúsalofttegunda árið 2030 í samanburði við losun árið 1990 samkvæmt Parísarsamkomulaginu. Þetta kemur fram í grein Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra SI, í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. 

Í grein Sigurðar segir að atvinnulífið, þar á meðal iðnaður, leggi sitt af mörkum og nefnir hann þrennt í því sambandi; Í fyrsta lagi hafa mörg fyrirtæki markað sér stefnu í umhverfismálum og ráðist í breytingar til að draga úr áhrifum á umhverfið. Í öðru lagi skapa fyrirtæki verðmæti með endurvinnslu og úrvinnslu úrgangs. Í þriðja lagi mun atvinnulífið þróa nýja tækni og innleiða lausnir sem gerir þjóðum heims kleift að ná metnaðarfullum markmiðum í loftslagsmálum. 

Íslensk fyrirtæki hanna lausnir sem geta orðið mikilvægt framlag

Þá segir Sigurður að einn helsti styrkleiki Íslands liggi í þekkingu á endurnýjanlegri orku og að þá þekkingu megi nýta í meira mæli annars staðar til að hjálpa öðrum að draga úr losun. „Ný tækni leysir eldri tækni af hólmi með minni áhrifum á umhverfi og loftslag. Íslensk fyrirtæki hafa hannað lausnir sem minnka orkunotkun í sjávarútvegi með betri tækjabúnaði, orkustýringu og bættri nýtingu hráefnis. Íslenskt hugvit hefur leitt af sér lausnir til að vinna verðmæti úr koltvísýringi eða koma honum fyrir í jörðu til að hindra útblástur svo dæmi séu tekin. Þetta hefur vakið verðskuldaða athygli erlendis og getur orðið mikilvægt framlag Íslands til baráttu heimsins í loftslagsmálum.“

Framlag atvinnulífsins hefur þegar haft áhrif 

Í niðurlagi greinarinnar segir Sigurður að umhverfismál og loftslagsbreytingar séu meðal helstu áskorana sem Ísland stendur frammi fyrir og að atvinnulífið sé reiðubúið að vera þátttakandi í því að ná markmiðum um minnkun gróðurhúsalofttegunda og hafi framlag þess þegar haft áhrif.  „Metnaðarfull markmið um að draga úr útblæstri eru áskorun fyrir samfélagið á komandi áratugum en að sama skapi verða til tækifæri til þess að nýta hugvit og sköpunargáfu til að þróa nýja tækni og aðferðir til að gera hluti öðruvísi og betur. Gott samstarf stjórnvalda, atvinnulífs og almennings er forsenda þess að árangur náist.“

Hér er hægt að lesa grein Sigurðar í heild sinni.