Umhverfisvernd í íslenskum skipaiðnaði
Raunhæft er að íslensk fiskiskip verði knúin raforku að hluta til á innan við fimm árum. Þetta segir Þröstur Auðunsson, formaður Samtaka skipaiðnaðarins í viðtali við fréttastofu Rúv. Hann segir fiskiskip eyða allt að þriðjungi minni olíu á hvert veitt kíló en fyrir 15 árum og að hagsmunir skipasmíða og umhverfisverndar haldist í hendur.
Íslensk stjórnvöld hafa sett markmið um að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum. Þetta samræmist vel hagsmunum íslensks skipaiðnaðar, að mati formanns Samtaka skipaiðnaðarins.
Þröstur segir olíueyðslu á hvert veitt kíló hafa minnkað um 20 til 30 prósent á síðustu fimmtán árum. Það helgist af betri vélbúnaði og lengri róðrum - sem hvort tveggja geri það að verkum að eldsneyti nýtist betur - en einnig því að afköst íslenskra smábáta hafi þre- til fjórfaldast á tímabilinu. „Ef við skoðum afköst bátanna þá er smábátur í dag að veiða 1500 upp í 2000 tonn á ári. Hagkvæmnin með því, ef þú reiknar út hvert kíló af fiski á móti olíulítra, er hún mikil og góð og hefur verið þróun í rétta átt á síðustu árum.“
Hann segir að allar skipasmiðjur á Íslandi vinni nú með umhverfisvernd að leiðarljósi. Rafvæðing skipa, að öllu leyti eða að hluta til, sé það sem flestir horfi til.
Samtök skipaiðnaðarins voru stofnuð í desember 2014 og starfa sem starfsgreinahópur innan Samtaka iðnaðarins.