Fréttasafn31. okt. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Iðnaður og hugverk Innviðir Mannvirki Menntun Nýsköpun Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Umsögn SI til umræðu á fundi fjárlaganefndar

Á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun var til umræðu umsögn Samtaka iðnaðarins um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2023. Fyrir hönd SI mættu á fundinn Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

Mikilvægt að forgangsraða rétt

Á fundinum kynntu fulltrúar SI helstu niðurstöður umsagnarinnar þar sem m.a. kemur fram að forgangsraða þurfi í fjármálum ríkissjóðs með áherslum á þá þætti sem styrkja framboðshið hagkerfisins og styðja við vöxt nýrra atvinnugreina. Með áherslu á menntun, innviði, nýsköpun og fleiri þætti sem skapa samkeppnishæfara starfsumhverfi fyrirtækja má auka framleiðni og verðmætasköpun. Stjórnvöld þurfa að ráðist í aðgerðir til að styrkja framboðshlið hagkerfisins og skapa þannig greiðari leið fyrir hagkerfið til að vaxa án verðbólgu.

Mótmæla samdrætti í innviðafjárfestingum

Eitt af því sem er rætt í umsögn samtakanna og var rætt á fundi nefndarinnar er boðaður samdráttur í fjárfestingum ríkis. Samdráttur í innviðafjárfestingum ríkis, m.a. í vegakerfinu skv. frumvarpinu vekur ugg um að framundan sé tímabil þar sem þörf efnahagslífsins og samfélagsins fyrir innviðauppbyggingu verði ekki mætt með fullnægjandi hætti. Mikilvægt er að mati SI að fallið sé frá þessum niðurskurði. Sama sjónarmið kemur fram í umsögn Mannvirkis – félags verktaka og Félags vinnuvélaeigenda um fjárlagafrumvarpið. Fram kom á fundinum að greinin þurfi stöðugleika en með hliðrun fjármuna milli ára í tilraun ríkisins til að draga úr þenslu og stemma stigu við áframhaldandi verðbólgu sé verið að skapa óstöðugt starfsumhverfi fyrir markaðinn.

Fagna áherslum á nýsköpun

Á fundinum var rætt um rætur hagvaxtar um þessar mundir og þörf hagkerfisins fyrir fjölbreytileika og vöxt nýrra atvinnugreina. Í því sambandi fagna samtökin áherslum í frumvarpinu á nýsköpun og eflingu hugverkaiðnaðar og sérstaklega þeim fyrirætlunum stjórnvalda að viðhalda endurgreiðslukerfi vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar. Útgjöld til málaflokksins munu bera ríkulegan ávöxt eins og fram kemur í frumvarpinu og umsögn samtakanna. Rætt var um að helsta vaxtahindrun hugverkaiðnaðar um þessar mundir væri skortur á sérfræðiþekkingu og að í því sambandi væri mikilvægt að efla menntakerfið hér á landi og fjölgu útskrifuðum með tæknimenntun.

Setja þarf Tækniskólann á dagskrá

Á fundinum hvöttu fulltrúar samtakanna stjórnvöld til þess að setja nýjan Tækniskóla á dagskrá en fjölgun iðnmenntaðra á vinnumarkaði styrkir framboðshlið hagkerfisins. Talsverður skortur er á framboði af sérmenntuðu vinnafli meðal félagsmanna SI og brýn þörf að bregðast skjótt við og mennta fleira fólk til starfa og leggja sérstaka áherslu á iðn-, starfs- og tæknimenntun. Rætt var um þörfina fyrir að auka framlög í Vinnustaðanámssjóð og nýta fjárhagslega hvata til að auka hlutfall brautskráðra úr STEM fögum.

Lækka þarf skatta og gjöld

Fram koma á fundinum að álögur hins opinbera í formi skatta og gjalda eru mjög íþyngjandi hér á landi. Stefna stjórnvalda þar sem leiðarljósið eru lágir skattar og gjöld í samanburði við helstu samkeppnislönd skapar mikilvægan þátt í samkeppnishæfni fyrirtækja. Með lækkun á þessum álögum má efla fyrirtækin til aukinnar verðmætasköpunar. Með lækkun tryggingagjalds og fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði má skapa samkeppnisforskot. Einnig skiptir miklu að eftirlits- og þjónustugjöld séu lág. Með lækkun á þessum álögum má efla fyrirtækin til aukinnar verðmætasköpunar.

Umhverfisgjöld skili sér til baka

Á fundinum var rætt um að gæta þurfi hófs við álagningu umhverfisgjalda og um leið tryggja að þau skili sér í umhverfis- og loftlagsaðgerðir. Þannig verði komið á grænum hvötum í samræmi við þau umhverfisgjöld sem atvinnulíf er að greiða og þau stuðli að umbótaverkefnum hjá atvinnulífi, sér í lagi nýsköpun og grænna fjárfestinga.

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.