Fréttasafn14. feb. 2018 Almennar fréttir

Umsóknum íslenskra fyrirtækja um einkaleyfi hefur fækkað

Umsóknum íslenskra fyrirtækja um einkaleyfi hefur fækkað undanfarin ár á sama tíma og erlend fyrirtæki sækja um einkaleyfi hér á landi í æ ríkara mæli. Þetta segir okkur tvennt. Annars vegar að fyrirætlanir um hugvitsdrifið hagkerfi eru skemmra á veg komnar en stefnt var að. Hins vegar að við virðumst ekki sjá sömu tækifæri í því að vernda hugmyndir okkar og aðrir sjá fyrir sínar hugmyndir. Þetta kom meðal annars fram í ávarpi sem Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, flutti á málþinginu Öld rannsókna og þróunar - Hugverkaréttur jarðvarmageirans á Íslandi, sem haldið var í Arion banka síðastliðinn föstudag. 

Sigurður sagði jafnframt að íslenskir sérfræðingar í jarðvarma væru eftirsóttir víða um heim enda væri íslenska hitaveitukerfið einstakt. „Íslenskir vísindamenn eru mjög framarlega í leit að nýtanlegu heitu vatni og gufu og byggja þar á áralangri reynslu. Beislun jarðvarmans, hvort heldur sem er til húshitunar eða orkuframleiðslu er hátækniverkefni sem krefst mikillar sérþekkingar. Í gegnum aldirnar hafa Íslendingar hagnýtt jarðvarma. Langt er síðan heitt vatn var nýtt í laugar og í gegnum tíðina þróaðist sundlaugarmenning Íslendinga sem hefur vakið verðskuldaða athygli erlendra gesta. Það þurfti hugvit til að koma þessu heim og saman en segja má að síðan hafi heilmikið hugvit verið virkjað í laugunum, ekki síst heitu pottunum. Það má velta því fyrir sér hvort sú staðreynd að hægt hefur verið í gegnum árin að stunda knattspyrnu allan ársins hring í upphituðum íþróttahúsum hafi komið afreksfólki okkar á EM og nú síðast á HM í knattspyrnu.“

Ættu að vera miklu fleiri einkaleyfi í jarðvarmageiranum

Hann sagði að dýrmæt þekking á hagnýtingu jarðvarma hafi byggst upp í áranna rás og væri án efa mikilvæg stoð undir velsæld þjóðarinnar. Þar hafi hugvit verið nýtt til að þróa lausnir og á þessu sviði höfum við verið fyrirmynd annarra og þekkingin hefur orðið útflutningsvara. „Íslendingar hafa komið að nýtingu jarðvarma víða um heim, bæði að uppbyggingu hitaveitna sem og raforkuframleiðslu. Þess vegna vekur það athygli hve fá einkaleyfi eru til staðar í þessum geira. Þau ættu með réttu að vera miklu fleiri. Það ætti að vekja okkur til umhugsunar og vera hvatning til að skoða leiðir til að fjölga þeim. Mikil verðmæti felast í rannsóknum og þróun og fjöldi einkaleyfa getur endurspeglað það.“

Í niðurlagi ávarpsins sagði Sigurður að allt benti til þess að á Íslandi búi skapandi fólk í skapandi umhverfi og að Ísland væri uppspretta innblásturs til góðra verka í leik og starfi. „Þannig er íslenskt hugvit - innblásið af náttúrulegum og menningarsögulegum andstæðum. Eldi og ís, þúsund ára fátækt og síðari tíma velsæld, plúsum og mínusum sem mætast og leysa úr læðingi ómældan sköpunarkraft. Hugum að þeim verðmætum sem hér verða til. Látum þau skapa þann grunn að frekari velsæld þjóðarinnar sem þau sannarlega geta – og eiga – að vera. Þannig verðum við áfram í fremstu röð.“

Á myndunum sem teknar voru á málstofunni má sjá Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, og Ara Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Jardvarmaradstefna2