Fréttasafn



26. okt. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Undirbyggja þarf kröftuga viðspyrnu og fjölgun starfa

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í Speglinum á RÚV um nýja greiningu SI þar sem kemur fram að bráðnauðsynlegt sé að skapa störf í einkageiranum og hagstjórnin þurfi að miðast við það þar sem fyrst og fremst eigi að líta til peningamálanna og opinberra fjármála. „Við búum það vel að á báðum þessum vígstöðvum er staðan betri en flest önnur ríki til að taka á þessari niðursveiflu til að mynda með lækkun stýrivaxta sem var talsvert hærra hér en gengur og gerist í upphafi faraldursins og höfum geta tekið þá niður til að auka við fjárfestingu og eftirspurn í hagkerfinu. Ef við getum beitt peningamálum meira en þar sem stýrivexti hafa verið rétt undir núllinu þegar faraldurinn skall á. Síðan er hitt, opinberu fjármálin stóðu mjög vel í upphafi faraldursins, skuldastaðan var mjög góð, ríkissjóður stóð afskaplega vel hvað það varðar og við höfum getað nýtt ríkissjóð af talsverðum þunga til að vinna á móti þessari niðursveiflu.“ Ingólfur segir að staða ríkissjóðs sé feykilega góð miðað við mörg önnur ríki og við getum enn nýtt þetta tæki til þess að verja störf og undirbyggja kröftuga viðspyrnu og fjölgun starfa.

Stýrivaxtalækkun skili sér í útlánum

Ingólfur bendir á að efnahagsspár hafi verið að versna eftir því sem faraldurinn dragist á langinn. „Það sem að við getum gert þá til þess að mæta svartari mynd af þessu er að lækka stýrivexti meira. Við erum reyndar með mjög lága stýrivexti, 1%, en það er alveg hægt að nýta það svigrúm. Það er líka í peningamálum hægt að fara út í aðgerðir sem að byggi betur að stýrivaxtalækkun skili sér í útlánum til fyrirtækja sérstaklega.“ 

Ingólfur segir að þá sé hægt að beita opinberum fjármálum til að auka samkeppnishæfni atvinnulífsins, ekki bara til að verja störf heldur líka til að skapa störf. „Þar höfum við verið að benda á aðgerðir á sviði nýsköpunar, innviðaframkvæmdir, aðgerðir í menntamálum og síðan hið almenna að bæta starfsumhverfi fyrirtækja með til að mynda lækkun á álögum.“

Iðnaðurinn verði stór hluti viðspyrnu fyrir nýtt hagvaxtarskeið

Í Speglinum kemur fram að Samtök iðnaðarins séu sátt við þær áherslur sem koma fram bæði í fjárlögum eða fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætlun en að hægt sé að gera meira ef þörf krefur. Ingólfur bendir á að íslenskur iðnaður sé stór, einn af hverjum fimm starfi í iðnaði, hann sé líka fjölbreytilegur og að iðnaður hafi skapað mjög mikið af þeim störfum sem urðu til eftir síðustu kreppu. „Þegar maður lítur á þá viðspyrnu sem þarf núna þá teljum við að með réttum forsendum þurfi að skapa samkeppnishæfni, ekki bara í þessum greinum heldur almennt fyrir atvinnulífið, þá sé iðnaðurinn í góðri stöðu til þess að vera, líkt og í síðustu uppsveiflu, stór hluti þeirrar viðspyrnu sem myndar grunn að nýju hagvaxtarskeiði. Ég held að iðnaðurinn sé í stakk búinn til að gera þetta en spurningin er þá bara hvort okkur takist að búa honum þau skilyrði sem við þurfum til þess að þetta verði. Við erum afskaplega jákvæð gagnvart því sem hefur verið gert á sviði nýsköpunar til að mynda. Það er klárlega vettvangur sem getur verið stór drifkraftur hagvaxtar á næstu árum.“

Íslenskt hagkerfi vel í stakk búið fyrir kröftugan vöxt 

Ingólfur segir þessa kreppu hafi mótast öðru fremur af sóttvörnum og áhrifum þeirra á hagkerfið og áhrif veirunnar á starfsemi hagkerfa hér heima og erlendis. „Þetta hefur víðtæk áhrif og lausnin felst í því hvenær finnst bóluefni og hversu fljótt verður hægt að dreifa því og skapa þetta hjarðónæmi sem að þörf er á til að koma þessu almennilega af stað. Þetta hefur nú allt dregist á langinn og við þurfum að vera undir það búin að taka á þessu í einhvern tíma. En þegar hins vegar þetta leysist þá held ég að íslenskt hagkerfi sé vel í stakk búið til þess að hér sé tiltölulega kröftugur vöxtur. Ég held ekkert endilega að hann sé að fara að gerast með sömu forsendum og eftir kreppuna 2008. Ég held að sagan kenni okkur að eftir svona áfall þá er sjaldnast sem hagkerfin rísa upp með sama móti og var fyrir áfallið. Þarna erum við að benda á að tækifæri liggja á sviði nýsköpunar og líka í augnablikinu á uppbyggingu á innviðum sem er þá til þess fallið að geta undirbyggt hagvöxtinn.“

Mikilvægi fjölbreyttrar flóru fyrirtækja 

Ingólfur segir að horfa þurfi til þess að efnahagslífið sé fjölbreytt. „Iðnaðurinn er í sjálfu sér mjög fjölbreyttur. Við erum með þrjár meginstoðir iðnaðar sem er byggingariðnaður, framleiðsluiðnaður og síðan hugverkaiðnaður. Þarna eru fyrirtæki sem eru starfandi bara á innlendum markaði og sem eru mjög stór í gjaldeyrisöflun, þetta eru lítil og meðalstór fyrirtæki og mjög stór fyrirtæki. Það er í raun svona flóra sem við þurfum að byggja upp. Fjölbreytt starfsemi af fyrirtækjum sem geta þá verið grundvöllur vel launaðra starfa hér á landi.“

Á vef RÚV er hægt að hlusta á viðtalið við Ingólf í heild sinni.