Uppbygging raforkukerfisins í algjöru lamasessi
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir í fréttaskýringu Kjarnans um skerðingu Landsvirkjunar á afhendingu raforku til gagnavera, álvera og fiskimjölsverksmiðja að staðan sem upp sé komin núna sé meðal annars birtingarmynd þess að hér hafi umræða um orkuöflun verið í ákveðnum skotgröfum á síðustu árum, samanber rammaáætlun sem hafi verið í algjöri frosti um árabil. „Ljóst er að stjórnsýsla raforkumála hefur ekki verið skilvirk og þvert á móti, í raun hefur uppbygging raforkukerfisins verið í algjöru lamasessi. Lærdómurinn er auðvitað sá að við verðum að temja okkur að hugsa lengra fram í tímann, það hefur legið fyrir lengi að atvinnu- og efnahagslíf framtíðar verður að miklu leyti raforkuknúið og það eru að verða miklar breytingar í iðnaði. Orkuskipti, framtíðariðnaður; meðal annars gagnaversiðnaður, hátæknimatvælaframleiðsla, líftækni, vetnis- og rafeldsneytisframleiðsla (sem má nefna sem dæmi) eru allt stór tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Við getum hins vegar ekki nýtt þau tækifæri, til hagsbóta fyrir þjóðarbúið allt, nema með því að efla raforkukerfið til muna, auka orkuöflun og stuðla að aukinni skilvirkni og bolmagni í flutnings- og dreifikerfi raforku.”
Gagnaversiðnaður í stöðugri sókn á heimsvísu
„Gagnaversiðnaður er í stöðugri sókn á heimsvísu enda verða gögn sífellt mikilvægari í viðskiptum og daglegu lífi. Aukin notkun fyrirtækja og einstaklinga á upplýsingatækni hefur stuðlað að hröðum vexti gagnaversiðnaðar og búist er við að hann haldi áfram í veldisvexti,“ segir Sigríður í fréttaskýringu Kjarnans. Einnig kemur fram að sá iðnaður hér á landi sem vex einna hraðast um þessar mundir tengist gagnaverum, geymslu og vinnslu gagna í öflugum tölvum. Þá segir að viðskiptavinir Landsvirkjunar í gagnaversiðnaði séu fjórir og geti eftirspurnin sveiflast á milli ára. Þannig hafi sala til gagnaveranna verið á bilinu 1-4% af heildarraforkusölu fyrirtækisins á árunum 2017–2021. Sala Landsvirkjunar til gagnavera nemi um 100 MW um þessar mundir og sala HS orku til þeirra sé um 15 MW til viðbótar. Þá segir að gagnamagn aukist á degi hverjum og tilheyrandi gagnavinnsla sömuleiðis.
Gjaldeyristekjur 20 milljarðar króna og um 100 starfsmenn hér á landi
Í fréttaskýringu Kjarnans kemur einnig fram að Samtök iðnaðarins áætli að um helmingur af starfsemi gagnavera hér á landi tengist vinnslu rafmynta. Hlutfallið af starfsemi sem tengist greftri eftir rafmyntum hafi farið minnkandi á undanförnum árum en það hafi verið um 80-90% þegar mest hafi látið. Önnur starfsemi gagnavera hafi hins vegar verið í hraðari vexti og ekkert þeirra fjögurra stóru gagnavera sem starfrækt séu á Íslandi sé eingöngu í rafmyntum. Haft er eftir Sigríði að gagnaverin leggi mikið til þjóðarbúsins, um 20 milljarða í gjaldeyristekjur á ári auk þess sem þar starfi um 100 fastráðnir starfsmenn. Einnig segir hún að hér hafi skotið upp kollinum tæknifyrirtæki sem eingöngu starfi í kringum gagnaversiðnaðinn og íslensk upplýsingatæknifyrirtæki þjónusti einnig gagnaverin.
Kjarninn, 9. desember 2021.