Fréttasafn



22. apr. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Upplýsingaóreiða um byggingarhæfar lóðir í Reykjavík

Tölur Reykjavíkurborgar yfir byggingarhæfar lóðir gefa til kynna að fleiri lóðir séu tilbúnar undir framkvæmdir en raunin er, segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í helgarútgáfu Morgunblaðsins. Tilefni fréttarinnar er umfjöllun í Morgunblaðinu um lóðaframboð í borginni en samkvæmt tölum frá borginni eru byggingarhæfar lóðir undir tæplega 2.800 íbúðir en borgarstjóri hafði áður nefnt að til væru byggingarhæfar lóðir undir tæplega 3.000 íbúðir. 

Morgunblaðið bað Samtök iðnaðarins að leggja mat á hversu margar lóðanna væru í raun tilbúnar undir framkvæmdir. Niðurstaðan er að reisa má 2.784 íbúðir á lóðunum, þar af eru 744 íbúðir á þéttingarreitum sem kalla á niðurrif, 561 íbúð eru á reitum þar sem framkvæmdir eru hafnar en uppbyggingin áfangaskipt og 389 íbúðir eiga að vera fyrir félagslega kerfið, Bjarg og stúdentaíbúðir, og eru þá líka taldar íbúðir í viðbyggingu við hjúkrunarheimilið í Sóltúni. 

Í frétt Morgunblaðsins segir að séu lóðir í þessum þremur flokkum dregnar frá er útkoman að lóðir undir 1.090 íbúðir eru tilbúnar undir uppbyggingu. „Því miður ríkir talsverð upplýsingaóreiða varðandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og lóðaskortur stendur núna í vegi fyrir uppbyggingu. Það að lóð sé byggingarhæf þýðir ekki að hún sé samstundis tilbúin til framkvæmda og það vita stjórnendur Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga mætavel. Sveitarfélög benda á lóðarhafa og segja þá tefja uppbyggingu en þegar við rýnum í gögnin þá kemur í ljós að stór hluti lóða er annaðhvort ekki tilbúinn til framkvæmda því þar standa hús sem þarf að rífa eða þá að verkefni eru áfangaskipt og framkvæmdir eru í raun hafnar. Þær lóðir sem eftir standa og eru tilbúnar til framkvæmda eru langflestar í eigu fjárfesta sem hafa unnið að skipulagsbreytingum og hyggja senn á framkvæmdir, en þær lóðir hafa sumar skipt um hendur nýlega. Það er umhugsunarefni að þegar sveitarfélög selja lóðir virðast ekki vera gerðar kröfur um þekkingu eða reynslu af húsbyggingum heldur ræður verðið öllu þannig að sveitarfélögin sjálf skapa jarðveg fyrir lóðabrask. Staðan á húsnæðismarkaði er alvarleg og það er engum greiði gerður með því að auka á upplýsingaóreiðuna. Embættismenn Reykjavíkurborgar þekkja stöðuna vel og þurfa að veita borgarstjóra og öðrum kjörnum fulltrúum traustar upplýsingar. Sveitarfélög, ríki og iðnaðurinn þurfa að taka höndum saman um að stórauka uppbygginguna. Iðnaðurinn er svo sannarlega tilbúinn í þá uppbyggingu.“

Morgunblaðið, 20. apríl 2024.

Morgunbladid-20-04-2024


Eyjan, 20. apríl 2024.