Fréttasafn



20. feb. 2020 Almennar fréttir Orka og umhverfi Starfsumhverfi

Upprunaábyrgðir grafa undan samkeppnisforskoti Íslands

Heimir Már Pétursson, fréttamaður, ræðir við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í kvöldfréttum Stöðvar 2 um upprunaábyrgðir. Þar segir hann að með sölu þeirra sé verið að grafa undan samkeppnisforskoti Íslands. „Til þess að auka virði þeirra vara sem að við framleiðum og auka eftirspurn þannig að ávinningurinn sé svo sannarlega mikill, og það gildir ekki bara um orkusækinn iðnað, það gildir um allt sem að héðan kemur, hvort sem það er sjávarfang eða ferðaþjónustan eða aðrar útflutningsgreinar. Í dag þurfi öll fyrirtæki á Íslandi sem noti mikla raforku að kaupa sér upprunavottorð vilji þau tiltaka að afurðir þeirra séu framleiddar með grænni orku. Og þarna erum við akkúrat að ræða um samkeppnisforskot Íslands. Með þessum gjörningum er auðvitað verið að grafa undan þessu forskoti okkar sem er óskiljanlegt.“

Samtök iðnaðarins vilja að sölu upprunaábyrgða verði hætt

Í fréttinni kemur fram að opinberlega framleiða Íslendingar um 90% orku sinnar með jarðefnaeldsneyti og kjarnorku þó nær öll orkan sé framleidd með endurnýjanlegum orkulindum. Undanfarin átta ár hafi íslensk orkufyrirtæki getað selt svo kallaðar upprunaábyrgðir eða aflátsbréf á raforku til orkufyrirtækja í Evrópu sem framleiða raforku með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku en ekki með endurnýjanlegum auðlindum. Þetta þýði að opinberlega framleiða Íslendingar 55% orku sinnar með jarðefnaeldsneyti eins og kolum og olíu, 34% með kjarnorku en aðeins 11% með endurnýjanlegum hætti þótt raunin sé að hér sé nánast öll orka framleidd þannig. Í fréttinni segir að Samtök iðnaðarins vilji að sölu þessara upprunaábyrgða verði hætt. „Þetta er vissulega evrópsk löggjöf sem að við innleiðum hér á landi en hins vegar er þetta valkvætt, það er að segja það er val fyrirtækjanna að selja þessar ábyrgðir,“ segir Sigurður. Þá segir að þar sé stærsti raforkuframleiðandinn, Landsvirkjun, atkvæðamest með um 900 milljónir í tekjur af sölunni í fyrra og önnur orkufyrirtæki með um 300 milljónir. Í stóra samhenginu segir Sigurður þessar tekjur því ekki mikilvægar en ímynd gæða og hreinleika sé hins vegar verðmæt.

Stöð 2, 19. febrúar 2020.

Ísland fari úr kerfi upprunaábyrgða

RUV-19-02-2020-2-

Einnig var rætt við Sigurð í fréttatíma RÚV um upprunaábyrgðir þar sem hann segir samtökin vilja að Ísland fari úr kerfi upprunaábyrgða.

Í frétt RÚV segir að Samtök iðnaðarins vilji að íslensk stjórnvöld dragi sig út úr viðskiptakerfi með upprunaábyrgðir raforku. Þrátt fyrir að tekjur af sölu þeirra nemi ríflega milljarði króna á ári sé skaðinn fyrir ímynd Íslands umtalsvert meiri. Þá segir að fjallað hafi verið ýtarlega um viðskipti með upprunaábyrgðir í fréttaskýringaþættinum Kveik en í stuttu máli sé um að ræða vottorð um hreina raforkuframleiðslu. Íslensk raforkufyrirtæki hafi á undanförnum árum selt þessar ábyrgðir til Evrópu fyrir hundruð milljóna króna á ári. Á móti þurfi að breyta raforkubókhaldi þannig að á pappírum lítur út fyrir að raforka á Íslandi sé að stórum hluta frá jarðefnaeldsneyti og kjarnorku. 

Skaðar ímynd landsins

Sigurður segir: „Við viljum að það verði undið ofan af þessu kerfi. Staðan er auðvitað sú að þetta skaðar að okkar mati ímynd landsins. Upprunaábyrgðin fylgir raforku til almennings og fyrirtækja á almennum markaði. Orkufrekur iðnaður eins og álver og gagnavera að hluta til fær þær ekki og þarf því að kaupa slíkar ábyrgðir til að geta auglýst framleiðslu sína sem umhverfisvæna. Sigurður segir erfitt að segja hvort þetta hafi beinlínis skaðað starfsemi íslenskra fyrirtækja.“

Hægt að vinda ofan af þessu án afleiðinga

„En ef við tökum t.d. allan útflutning landsins og segjum að það væri hægt að auka verð á því sem við seljum, um segjum 1%, vegna þess að ímynd landsins er sterk, að þá er það mælt í stórum fjárhæðum sem eru langt umfram söluandvirði þessara skírteina.“ Í fréttinni kemur fram að þetta fyrirkomulag sé hluti af regluverki Evrópusambandsins sem hafi verið fest í lög hér á landi árið 2008 með markmiði að flýta fyrir orkuskiptum á evrópska raforkumarkaðnum. Sigurður telur það ekki eiga að vera fyrirstöðu og bendir á að Spánn og Austurríki hafi sett á hömlur á viðskipti með upprunaábyrgðir. „Já það er hægt að vinda ofan af þessu án afleiðinga,“ segir hann.

RÚV, 19. febrúar 2020.