Fréttasafn



2. des. 2021 Almennar fréttir

Uppstokkun ráðuneyta góð ráðstöfun og ný nálgun mikilvæg

„Orkuskipti eru mikilvæg fyrir umhverfið, en almenningur sættir sig þó ekki við þær breytingar sem boðaðar eru nema þær feli í sér vöxt og betri lífsskilyrði. Því er uppstokkun og ný nálgun mikilvæg,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í viðtali Sigurðar Boga Sævarssonar, blaðamanns, í Morgunblaðinu. 

Iðnaður standi undir velmegun í framtíðinni

Í fréttinni kemur fram að margt í stefnu nýrrar ríkisstjórnar snúi að hagsmunum atvinnulífs. Megi þar nefna að sett hafi verið á laggirnar sérstakt ráðuneyti vísinda, nýsköpunar og iðnaðar sem Sigurður telur vera góða ráðstöfun. Nýsköpun sé drifkraftur í iðnstarfsemi, sem aftur byggist á þekkingu. „Ánægjulegt er að sjá skýr skilaboð í stjórnarsáttmálanum um að iðnaður í víðum skilningi muni standa undir velmegun í framtíðinni. Viðbrögð í efnahagsmálum nú eru allt önnur en við bankahrunið árið 2008, þegar farið var í víðtækan niðurskurð sem hefur reynst dýrkeyptur, til dæmis hvað varðar innviði landsins. Viðhorfin hafa breyst þannig að ríki heims halda hagkerfum gangandi á tímabundnum yfirdrætti. Hagstjórnartækjunum er beitt til að verja heimili og fyrirtæki fyrir niðursveiflu og til að efla samkeppnishæfni fyrirtækja og stoðir hagvaxtar litið til lengri tíma.“ 

Helstu vaxtarbroddar byggja á hugviti

Þá segir í Morgunblaðinu að um 44 þúsund manns starfi í dag hjá íslenskum iðnfyrirtækjum, sem standi undir 21% landsframleiðslu og sköpuðu á síðasta ári upp undir 41% útflutningstekna. Þar séu í aðalhlutverki stóriðja og annar orkusækinn iðnaður og svo hugverkaiðnaður, til dæmis tölvuleikjagerð, upplýsingatækni, líf- og heilbrigðistækni og hátækni. „Helstu vaxtarbroddar atvinnulífsins í dag byggja á hugviti og geta því vaxið endalaust. Þetta kallar á eflda háskólakennslu í raungreinum, því í dag er takmarkað framboð af fólki með tæknimenntun hamlandi þáttur. Að háskólarnir séu vistaðir í ráðuneyti iðnaðar er því spennandi. Ég tel Íslendinga líka geta líka tekið forystu með þróun ýmissa grænna lausna í tengslum við fyrirhuguð orkuskipti. Á sínum tíma færðu Íslendingar sig úr notkun olíu til húshitunar yfir í hitaveitu og rafmagn. Því er hér til staðar þekking og reynsla í orkumálum, reyndar mun meiri en áður, sem við getum miðlað á svo marga vegu. Hjálpað öðrum þjóðum að ná sínum markmiðum í loftslagsmálum.“ 

Með innviðaráðuneyti verður bygging allra mannvirkja skilvirkari

Jafnframt segir í fréttinni að meðal breytinga sem fylgi nýrri ríkisstjórn sé að skipulagsmál færist nú í innviðaráðuneyti sem jafnframt fari með samgöngu- og sveitarstjórnarmál. Sigurður segir SI fagna þessari breytingu því með þessu séu allar forsendur fyrir því að bygging allra mannvirkja verði skilvirkari en verið hafi. Oft hafi seinagangur einkennt afgreiðslu mála og tafið framkvæmdir. Það slái góðan tón að ríkið skuli sameina skipulags-, byggingar- og samgöngumál í innviðaráðuneyti sem ætti að greiða úr flækjum. „Að afgreiðsla verkefna í skipulagsmálum taki mörg ár er ekki eðlilegur framgangur. Þarna er svigrúm til þess að gera betur.“

Þörf á framkvæmdum víða um land

Í fréttinni segir að Sigurður setji þetta í samhengi við ríkjandi aðstæður á fasteignamarkaði þar sem tilfinnanlega vanti meira íbúðahúsnæði. Eina svarið við því sé að byggja meira, og þá sé til bóta að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun haldi í dag vel utan um fjölda húsa í byggingu, geri húsnæðisáætlanir og fleira. Átak hafi verið gert til að koma slíkri upplýsingaöflun og -miðlun í betra horf. „Þörf er á miklum framkvæmdum víða um land, hvort sem slíkt er uppbygging íbúðarhúsnæðis, vegagerð, opinberar byggingar eða aðrir innviðir.“

Þarf að virkja meira svo endurnýjanleg orka komi í stað jarðefnaeldsneytis

Þá segir Sigurður í fréttinni að svo þurfi líka að virkja meira. „Svo endurnýjanleg orka geti að öllu leyti komið í stað jarðefnaeldsneytis. Endurbætur á flutningskerfi raforku eru líka aðkallandi. Ýmsar fyrirhugaðar framkvæmdir styðja við spár um kröftugan hagvöxt á næsta ári – en svo eitthvað hægari vöxt 2023 og 2024. Þegar ég les stjórnarsáttmálana og önnur gögn sýnist mér að næstu ár ætti hér að verða jafn stígandi í efnahagsmálum. Þar hefur mikið að segja að í stjórnarstefnunni verða atvinnulífi og iðnaði á marga lund sköpuð bætt starfsskilyrði og vonandi ná þær fyrirætlanir fram að ganga.“

Morgunblaðið, 2. desember 2021. 

Morgunbladid-02-12-2021