Fréttasafn13. jan. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Útboðsferli hins opinbera tekur of langan tíma

Í Morgunblaðinu í dag er umfjöllun um fund Samtaka iðnaðarins um opinber innkaup sem haldinn var í gærdag á Grand Hótel Reykjavík. Í samtali við Þórodd Bjarnason, blaðamann, segir Ragnheiður H. Magnúsdóttir, stjórnarformaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja, að það sé ótækt að útboðsferli hins opinbera taki jafnvel eitt til tvö ár, sérstaklega þegar kemur að tækniverkefnum. „Nú erum við komin á fullt í fjórðu iðnbyltinguna, með sýndarveruleika, gervigreind og fleiru. Hlutirnir gerast alveg gríðarlega hratt og því gengur það ekki að útboðsferli hins opinbera taki jafnvel eitt til tvö ár að klárast, sérstaklega hvað tækniverkefni varðar. Það er komin alveg ný tækni á markaðinn þegar loksins er búið að ljúka ferlinu.“

Jafnframt segir Ragnheiður að ef við ætlum að sjálfvirknivæða opinbera þjónustu þá verðum við að flýta okkur til að missa ekki af þessari fjórðu iðnbyltingu. Hún segir að innkaupaferlið sé hægt og „lögfræðingasinnað“, rígbundið í reglugerðafargan. „Þetta tekur allt gríðarlegan tíma og ég er ekki viss um að við höfum þennan tíma.“ Hún segir að innkaupaferlið sé ekki nógu aðgengilegt fyrir nýsköpunarfyrirtæki og aðra minni aðila. „Það er ákveðið orðfæri sem menn þurfa að setja sig inn í. Sprotafyrirtæki hafa engan áhuga á að aðstoða hið opinbera við að leysa þarfir þess, því allt ferlið er svo þungt, erfitt og óskiljanlegt. Við þurfum að opna á samstarf á milli fyrirtækjanna og hins opinbera og hafa þetta á mannamáli. Við þurfum að hugsa hlutina alveg upp á nýtt.“

Í umfjölluninni kemur fram að innkaupastjórar séu einsleitur hópur og segir Ragnheiður þetta vera mjög mikið eldri karlmenn. „Það er ekki bara að það vanti konur í þennan hóp, heldur þarf meiri aldursdreifingu.“

Á fundinum kom einnig fram að ríkið kaupir árlega vörur og þjónustu fyrir rúmlega 90 milljarða króna, en þrátt fyrir það fari minna en helmingur innkaupa ríkisins í gegnum útboð. Á fundinum var jafnframt bent á að árlegur sparnaður ríkisins gæti numið hátt í 10 milljörðum með breyttu fyrirkomulagi í opinberum innkaupum. Theodóra Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar og formaður bæjarráðs Kópavogs, fór á fundinum yfir hvernig opinber innkaup í Kópavogi væru virkjuð sem mikilvægt stjórntæki til að auka hagkvæmni og gagnsæi í rekstri bæjarins en þar hefur bókhald bæjarins verið opnað. Hún sagði að opnun bókhaldsins stuðlaði að bættum stjórnsýsluháttum og fleiri útboðum en drægi jafnframt úr því að stjórnmálamenn hygluðu tengdum aðilum og gæti almennt dregið úr líkum á spillingu. Annar frummælandi, Arnhild Gjönnes, lögmaður systursamtaka Samtaka atvinnulífsins í Noregi, hreifst af opnu bókhaldi Kópavogs. „Þetta mun ég taka með mér til Noregs,“ sagði Gjönnes í samtali við Morgunblaðið, en hún er sérfræðingur á sviði opinberra innkaupa og leiðir þann málaflokk hjá Business Europe, sem eru samtök evrópskra atvinnurekenda. Á fundinum var ennfremur vakin athygli á því að með nýrri Evrópulöggjöf sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið haust gæfust mörg tækifæri til betrumbóta, en með henni ættu minni fyrirtæki að geta átt greiðari aðgang að opinberum verkefnum í gegnum útboð.

Morgunblaðið, 13. janúar 2017.