Fréttasafn



25. jan. 2021 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Útflutningur er forsenda fyrir bættum lífskjörum

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, hrósar skýrslu utanríkisráðuneytisins, Áfram gakk! Utanríkisviðskiptastefna Íslands, í fréttaskýringu  Kjarnans eftir Bjarna Braga Kjartansson en í skýrslunni er yfirlit um viðskiptastefnuna og alþjóðlega viðskiptasamninga. Sigurður segir skýrsluna vera einskonar handbók um það sem hefur verið að gerast í málaflokknum. Hann hrósar utanríkisráðherra fyrir áhuga á viðskiptamálum, sem hann hafi sýnt í verki, m.a með ýmsum samningum um utanríkisviðskipti. Sigurður nefnir einnig áherslu á viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins í tengslum við COVID-19 þar sem t.d. landamæralokanir hafa valdið fyrirtækjum vandræðum. Sigurður minnir á það grundvallaratriði að aukinn útflutningur sé forsenda fyrir bættum lífskjörum, en um leið og útflutningur verði fjölbreyttari verði hagsmunirnir sem séu undir þ.a.l. miklu flóknari og kalli á annað hagsmunamat.

SI kalla eftir skýrari atvinnustefnu

Í umfjöllun Kjarnans kemur fram að Sigurður segir að ljóst sé að mikið hagræði hafi skapast af slíkum samningum og þeir verið til mikilla hagsbóta fyrir Íslendinga, bæði fyrirtæki og almenning. Spurningin sé hins vegar hvort og hvernig íslenskt samfélag sé í stakk búið til að mæta þeim kröfum sem alþjóðleg viðskipti gera, m.a. með nógu víðtækri og samræmdri stefnu í mennta- og atvinnumálum. Jafnframt því að innlend og erlend fjárfesting sé nauðsynleg til að auka útflutning sé mikilvægt að auka fjárfestingu í nýsköpun, menntun og innviðum og gott dæmi sé öflug gagnatenging Íslands við útlönd. Það sé því grundvallaratriði að umgjörðin um þessa þætti sé í lagi og hafi samtökin kallað eftir skýrari atvinnustefnu sem snúist um samhæfingu þessara grunnþátta.

Eins og staðan sé beri ekkert eitt ráðuneyti ábyrgð á því að hvetja til erlendrar fjárfestingar og geti falist í því ákveðin hindrun. Þegar hlutirnir eru á höndum margra aðila verði uppbygging ekki eins markviss og hún gæti orðið. Þó stórstígar framfarir hafi vissulega orðið á undanförnum árum þyrfti að huga betur að áherslum í menntakerfinu, að þær styðji við atvinnuþróun, að hugsa allt í stærra samhengi með breiðari heildarhugsun og stefnu.

Hvatar eru að skila miklu

Sigurður segir í fréttaskýringunni að hvatar eins og endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar hafi skilað miklu. Fjárfesting í rannsóknum og þróun hafi aldrei verið meiri en 2019 og farið úr 55 í 70 milljarða, eða um 2,35% af landsframleiðslu. Sigurður spáir því að hlutfallið fari yfir 3% á þessu ári sem sé markmið vísinda- og tækniráðs og stjórnvalda en jafnframt viðmið margra ríkja. Svo virðist sem þarna séu hlutirnir að þokast í rétta átt því þetta sé í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að skapa fleiri störf í þekkingargreinum.

Stuðla ætti að erlendum fjárfestingum með markvissari hætti

Þá nefnir Sigurður í fréttaskýringunni þátt Íslandsstofu sem hefur verið endurskipulögð og hann segir vera gott innlegg til að efla markaðssetningu erlendis. Það megi velta því upp hvort Íslandsstofa þurfi ekki aukinn stuðning stjórnvalda á þeirri vegferð, sér í lagi varðandi umbætur til að greiða götu fjárfestinga. Skýrsla ráðuneytisins fjalli hins vegar ekkert um erlendar fjárfestingar og hvernig megi stuðla að þeim með markvissari hætti að öðru leyti en því að einn kafli fjalli um fjárfestingasamninga. Slíkir samningar séu vissulega mikilvægir, en hér virðist vera tækifæri til að vinna að frekari stefnumörkun og skarpari framtíðarsýn.

Mestu tækifærin framundan falin í hugverkaiðnaði

Í fréttaskýringunni segir að þegar tekist hafi verið á um stóriðjuframkvæmdir á Íslandi sé gjarnan deilt á andstæðinga slíkrar uppbyggingar, sagt að þeir hafi engar hugmyndir um hvað ætti þá að koma í staðinn – nema þá bara „eitthvað annað“. Allt sé það óljóst, huglægt og þar með bara einhverjir draumórar, sem sé skiljanlegt viðhorf þegar hinn kosturinn sé stóriðja með öllum þeim áþreifanlegu umsvifum sem henni fylgi.

Þá kemur fram að það veki því athygli að SI telji mestu tækifærin framundan einmitt vera falin í hugverkaiðnaði – sem nefndur hafi verið fjórða stoðin í íslensku efnahagslífi – hinar þrjár séu: sjávarútvegur, ferðaþjónusta og orkusækinn iðnaður. Einkennandi greinar hugverkaiðnaðar séu líf- og heilbrigðistækni, upplýsingatækni, tölvuleikjaiðnaður, hátækniiðnaður og skapandi greinar eins kvikmyndagerð og tónlist.

Í fréttaskýringunni segir að Sigurður leggi áherslu á að nú sé rétti tíminn til að styðja við hugverkaiðnaðinn, stoðin byggi á mörgum greinum og í því felist styrkurinn þegar næsta niðursveifla verði. Þvert á það sem margir kynnu að halda sé fjórða stoðin ekki á byrjunarreit því hún sé þegar orðin til með þróun sem hafi hafist fyrir 20–30 árum. Sigurður segir hugverkaiðnað því hafa alla burði til að verða öflugasta stoðin þegar fram í sækir. Hafi því verið spáð að framundan sé áratugur nýsköpunar, ekki bara á Íslandi heldur einnig á heimsvísu, þar hafi COVID-19 mikið að segja því marga hluti hafi þurft að hugsa upp á nýtt.

Í fréttaskýringu Kjarnans er einnig rætt við Ólaf Steph­en­sen, framkvæmdastjóra Félags atvinnu­rek­enda, sem segir félagið fagna sér­stak­lega skýrri stefnu­mörkun utan­rík­is­ráð­herra  að halda áfram á þeirri braut að auka frí­verslun og ryðja úr vegi hindr­unum í milli­ríkja­við­skiptum Íslands. 

Kjarninn, 24. janúar 2021.