Fréttasafn



22. maí 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Útlit fyrir færri nýjar íbúðir strax árið 2025

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í sérblaði Viðskiptablaðsins um fasteignamarkaðinn að niðurstöðu könnunar SI meðal stjórnenda verktakafyrirtækja í íbúðabyggingum gefi til kynna að þótt umsvif í byggingariðnaði séu mikil núna og uppbygging hafi verið nokkuð jöfn undanfarin ár þá sé útlit fyrir að talsvert færri nýjar íbúðir komi inn á markaðinn eftir 2-3 ár og að áhrifanna muni gæta strax árið 2025. „Við höfum verið í vítahring sem kemur til vegna þess að of fáar íbúðir voru byggðar á síðasta áratug. Afleiðing þess er að fasteignaverð hækkaði töluvert umfram kaupmátt sem orsakaði verðbólgu. Við því er brugðist með hækkun vaxta. Hár fjármagnskostnaður er núna fram á veginn helsta fyrirstaðan fyrir meiri uppbyggingu. Það mun viðhalda þessu ástandi á húsnæðismarkaði ef ekkert verður að gert.“ 

Ríki, sveitarfélög og iðnaðurinn þurfa að ganga í takt

Í viðtalinu segir Sigurður að þörf sé á samhentu átaki ríkisins, sveitarfélaga og iðnaðarins. „Þessir þrír lykilaðilar þurfa að ganga í takt ef okkur á að auðnast að byggja yfir landsmenn.“ Hann segir að sveitarfélögin þurfi að útdeila fleiri byggingarhæfum lóðum en á því hafi verið nokkur misbrestur undanfarin ár. Mikil eftirspurn í útboðum á lóðum og fjöldi tilboða gefi til kynna að ekki sé verið að útdeila í takt við þarfir markaðarins. Þá þurfi stjórnsýslan á sveitarstjórnarstiginu að vera mun skilvirkari. Skipulagsferlið, leyfisveitingar og eftirlit geti verið mjög tafsamt. Með því að færa sig í auknum mæli í stafræna stjórnsýslu megi stytta ferla og einfalda mál. Í viðtalinu kemur fram að beinar aðgerðir ríkisins á framboðshliðinni felist annars vegar í stofnframlögum til byggingar á almennum íbúðum á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga á borð við Bjarg. Hins vegar séu það hlutdeildarlán þar sem HMS veitir lán fyrir allt að 20% kaupverðs til að aðstoða lántakendur, sem uppfylla ákveðin skilyrði, að brúa bilið við fasteignakaup.

Á vef Viðskiptablaðsins er hægt að nálgast blaðið.

Viðskiptablaðið - Fasteignamarkaður, 19. maí 2023.

vb.is, 23. maí 2023.

Fasteignamarkadur.19.05.23