Vænta samdráttar í byggingu íbúða
Í nýrri greiningu SI kemur fram að hagnaður fyrirtækja í byggingu húsnæðis hafi dregist saman á síðasta ári samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo. Nam hagnaður fyrirtækja í greininni fyrir skatta 5,9% af veltu samanborið við 11,2% árið áður. Hagnaðurinn í greininni var undir meðaltali hagnaðar í greininni síðustu ár og undir meðaltali hagnaðar fyrirtækja í viðskiptahagkerfinu almennt. Í greiningunni sem ber yfirskriftina Vænta samdráttar í byggingu íbúða segir að ljóst sé að hækkun fjármagnskostnaðar ásamt hækkun launa og hækkun á verði aðfanga hafi stuðlað að lægri hagnaði í greininni. Fyrirséð sé að enn muni draga úr hagnaði fyrirtækja í greininni í ár og mun það koma fram í samdrætti í fjölda nýrra byggingarverkefna sem ráðist verður í og fjölda nýrra íbúða sem koma inn á markaðinn síðar. Fyrirhuguð lækkun á endurgreiðslum virðisaukaskatts vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði úr 60% í 35% sem koma á til framkvæmda um mitt þetta ár muni koma til viðbótar við aðra þætti sem draga úr hvötum til uppbyggingar íbúða á næstunni.
Þá segir að hækkun fjármagnskostnaðar muni leiða til samdráttar í fjölda íbúða. 88% stjórnenda verktakafyrirtækja í íbúðabyggingu segja að hækkandi fjármögnunarkostnaður muni leiða til samdráttar í uppbyggingaráformum þeirra fyrirtækja á íbúðarhúsnæði samkvæmt könnun sem Outcome gerði fyrir Samtök iðnaðarins.
Önnur helstu atriði sem koma fram í greiningunni:
- 20% stjórnendanna segja að það hafi dregið úr fjármögnunarmöguleikum þeirra fyrirtækja til byggingar íbúðarhúsnæðis á sl. 6 mánuðum. 52% segja hins vegar að ekki hafi dregið úr fjármögnunarmöguleikum.
- Verulegur samdráttur er fram undan í byggingu nýrra íbúða samkvæmt könnuninni en stjórnendur reikna með því að fjöldi íbúða sem byrjað verður á hjá þeirra fyrirtækjum á næstu tólf mánuðum verði 509 samanborið við 1.473 á síðustu tólf mánuðum. Samdrátturinn nemur 65%.
- Verðbólgan á Íslandi er mikil um þessar mundir m.a. vegna þess ójafnvægis sem ríkt hefur á íbúðamarkaði undanfarin ár þar sem ekki hefur verið nægjanlega mikið byggt af íbúðum. Ofangreindar niðurstöður um samdrátt benda til þess að hætta sé á að slíkt ójafnvægi kunni að myndast aftur í náinni framtíð með sömu áhrifum til hækkunar verðbólgu og vaxta.
- Markaðsaðstæður til sölu íbúða hafa versnað hratt undanfarið. 64% svarenda segja að fyrirtækið eigi erfiðar með að selja íbúðir nú en fyrir 6 mánuðum. Ekki nema 8% segja að fyrirtækið eigi ekki erfiðara með það. Þetta hefur áhrif á vilja verktaka til að fara út í ný verkefni á þessu sviði.
- Áhrif verðhækkana aðfanga heftir uppbyggingu. 36% segja að verðhækkun aðfanga síðustu mánaða hafi breytt áformum þeirra fyrirtækis um uppbyggingu íbúða litið til næstu 12 mánaða. 52% segja að þær verðhækkanir hafi ekki breytt byggingaráformum fyrirtækisins.
- Áhrif launahækkana mun hafa minni áhrif en vaxtahækkanir á framboð íbúðarhúsnæðis á næstunni. Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar segja 28% stjórnendanna að hækkun launa síðustu mánaða hafi breytt áformum þeirra fyrirtækis um uppbyggingu íbúða litið til næstu 12 mánaða. 64% segja að hækkun launa hafi ekki haft áhrif á áform þeirra.
- Könnunin náði til verktaka sem byggja íbúðir í eigin reikning. Heildarfjöldi íbúða sem þeir eru með í byggingu eru 2.062 eða um fjórðungur af heildarfjölda íbúða sem nú eru í byggingu í landinu. Rétt tæplega helmingur þessara verktaka eru einnig á útboðsmarkaði. Könnunin var gerð á tímabilinu frá mars til apríl 2023.
Hér er hægt að nálgast greiningu SI í heild sinni.
Morgunblaðið / mbl.is, 4. maí 2023.
vb.is, 4. maí 2023.
Byggingar.is, 4. maí 2023.