Fréttasafn



30. des. 2016 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Væntingar á nýju ári

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, svaraði spurningu ViðskiptaMoggans um hvað stjórnvöld geta gert á nýju ári til þess að bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja sem tilheyra samtökunum:

Rekstrarumhverfi aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins er krefjandi um þessar mundir þrátt fyrir kröftugan hagvöxt. Sterkt gengi krónunnar leiðir til verri samkeppnisstöðu fyrirtækja sem eru í alþjóðlegri starfsemi. Því er mikilvægt að vextir geti lækkað frekar þannig að betra jafnvægi náist á gengi krónunnar. Ein forsenda lækkunar vaxta er að friður sé á vinnumarkaði. Til að sá friður haldist skiptir máli að miklar launahækkanir alþingismanna og æðstu embættismanna nái ekki yfir allan vinnumarkaðinn. Þær hækkanir þurfa að vera í eðlilegum takti við aðra launaþróun í landinu og mega því ekki fara óbreyttar í gegn.

Við vorum ósátt við að Alþingi lækkaði ekki tryggingagjald í samræmi við samkomulag við fjármálaráðherra í janúar. Atvinnurekendur eru að taka á sig mikla hækkun á þessu ári á framlagi í lífeyrissjóði í því skyni að jafna lífeyrisréttindi á vinnumarkaði. Lækkun á tryggingagjaldi væri eðlileg mótvægisaðgerð gagnvart fyrirtækjum í landinu.

Þrátt fyrir góðan hagvöxt síðustu ár er það enn veikleiki hvað opinberar fjárfestingar og önnur uppbygging innviða er veik. Það er brýnt að hugað verði að undirbúningi slíkra framkvæmda með fjölbreyttri fjármögnun. Undirbúningur innviðaframkvæmda tekur langan tíma og skynsamlegt að hefja þegar undirbúning með skýrum áætlunum. Uppbygging innviða á ekki að vera sérstakt hagstjórnartæki en engu að síður er nauðsynlegt að hafa slík verkefni í handraðanum þegar efnahagsaðstæður breytast.

ViðskiptaMoggi, 29. desember 2016.