Fréttasafn10. mar. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Vantar 65 milljarða í vegakerfið

Gylfi Gíslason, framkvæmdastjóri JÁVERK, hafði framsögu á Iðnþingi í umræðum um samgöngur og uppbyggingu:

Innviðir eru undirstaða hagvaxtar og velferðar og ætti því uppbygging innviða að vera forgangsverkefni. Um er að ræða sameiginlegt hagsmunamál okkar allra. Styrking innviða leiðir til aukinnar framleiðni og betri lífskjara og eykur árangur samfélagsins á öllum sviðum.

Fjárfestingar í vegum eru líklega dýrustu innviðirnir. Vegafjárfestingar hins opinbera hafa farið minnkandi sem hlutfall af landsframleiðslu. Fjárfestingar í vegakerfinu hafa að jafnaði numið 1,5-2% af landsframleiðslu en frá árinu 2009 hefur hlutfallið verið undir 1%. Á sama tíma er umferðin stöðugt að aukast og bara í fyrra var aukningin 9% frá árinu á undan.

Við sem erum að reka fyrirtæki eða eigum hús vitum vel hvað gerist ef lágmarksviðhaldi er ekki sinnt. Eignir okkar rýrna. Sú staðreynd að uppsöfnuð þörf í fjárfestingum í vegakerfinu sé að minnsta kosti 65 milljarðar króna ætti heldur betur að vekja okkur til umhugsunar. Það er enginn sparnaður fólginn í því að verja ekki eignir okkar og bæta þessi kerfi – þvert á móti.

Því miður er það svo að þrátt fyrir að efnahagsástandið hafi verið gott síðustu ár er fjárfesting í landinu enn of lítil og þá sérstaklega í innviðum. Ég þori varla að hugsa þá hugsun til enda ef þessi þróun heldur áfram – að álag á innviðina okkar haldi áfram að vaxa á meðan fjárfesting og uppbygging tekur ekki við sér.

Fjárfestingar í samgönguinnviðum, hvort sem um er að ræða vegi, hafnir eða flugvelli, styðja við alla aðra uppbyggingu og starfsemi í landinu. Veikleikar í innviðum geta auðveldlega takmarkað fjárfestingar og umsvif í öðrum greinum. Vegir geta takmarkað flutninga á fólki og vörum og ekki má gleyma því að aukið öryggi í umferðinni verður seint metið til fjárs.

Það virðist vera pólitísk og samfélagsleg samstaða um mikilvægi þess að innviðir okkar verði byggðir upp og eðlilegu viðhaldi verði sinnt. Hins vegar sjást þess lítil merki þegar kemur að því að fjármagna helstu samgönguinnviðina. Á sama tíma og fjöldi þeirra sem nýta samgöngukerfið er á uppleið er fjármögnun á niðurleið og fátt sem gefur til kynna að bæta eigi í svo einhverju nemi.

Færa má gild rök fyrir því að ein ástæða þess að framleiðnivöxtur á Íslandi hafi ekki verið nægjanlegur á síðustu árum sé vegna of lágs fjárfestingastigs. Þessu þarf að breyta. Við verðum að bæta samgöngur landsins til að efla byggð og auka verðmæti.