Fréttasafn29. jan. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Vantar fleiri fagmenntaða í rafiðn

Í nýju fylgiblaði Viðskiptablaðsins í tengslum við Verk og vit er rætt við Kristján Daníel Sigurbergsson, viðskiptastjóra á mannvirkjasviði SI og framkvæmdastjóra Samtaka rafverktaka, sem segir mikla eftirspurn vera eftir menntuðu fólki í rafiðngreinum. „Það er mjög mikil aðsókn í rafiðnaðarnámið og jafnvel þannig að ekki hefur náðst að tryggja öllum áhugasömum skólavist þar sem fjárveitingar til skólanna eru einfaldlega ekki nægjanlegar.“

Kristján segir í viðtalinu að forsvarsmenn fyrirtækjanna sem séu í Samtökum rafverktaka hafi flestir sömu sögu að segja um það sem helst brenni á atvinnugreininni og það sé skortur á fagmenntuðu fólki í rafiðn. „Það eru auðvitað ekki einungis rafverktakar sem vilja ráða fólk úr rafiðngreinum til starfa heldur eru fyrirtæki á sviði fjarskipta, framleiðslu og hvers konar þjónustu sífellt að leita að slíku fagfólki til starfa. Staðreyndin er því sú að tækni- og verknámsskólar hér á landi útskrifa ekki nægjanlega marga sveina til að anna eftirspurn markaðarins. Skólarnir eru að reyna að bregðast við þessu ástandi með því að auka fjölda nýnema sem teknir eru inn.“ Þá segir hann það ánægjulegt að hlutur kvenna sem hefji rafiðnaðarnám fari vaxandi. „Það má örugglega rekja það að einhverju leyti til framtaks Félags fagkvenna sem hafa unnið mikið og óeigingjarnt starf við að kynna iðnnám fyrir grunnskólanemum.“

Hafa gefið 2.000 spjaldtölvur

Kristján segir í blaðinu að undanfarin ár hafi Samtök rafverktaka og Rafiðnaðarsamband Íslands lagt sitt af mörkum til að auðvelda nemendum aðgang að góðu námsefni með því að afhenda öllum nýnemum í rafiðngreinum öfluga spjaldtölvu ásamt gjaldfrjálsum aðgangi að öllu fagtengdu námsefni. „Í gegnum Rafmennt hafa verið afhentar samtals ríflega 2.000 spjaldtölvur og hefur það mælst ákaflega vel fyrir bæði hjá nemum og kennurum þeirra í rafiðngreinum sem hafa einnig fengið spjaldtölvur.“

Ótal tækifæri framundan í rafiðn

Í blaðinu kemur fram að rafiðngreinarnar skiptist í stórum dráttum í tvennt, annars vegar sé um að ræða rafeindavirkjun og hins vegar rafvirkjun. Þá sé hægt að bæta við rafvirkjanámið og útskrifast sem rafvélavirki eða rafveituvirki. „Við heyrum af því að grunnskólanemar hafi margir hverjir brennandi áhuga á því að læra þessa iðn og sjá þar mjög góða möguleika á því að komast hratt út á vinnumarkaðinn, skapa sér góðar tekjur og í fyllingu tímans hefja eigin rekstur í iðngreininni sem þeir hafa lært til. Það spillir heldur ekki fyrir að hafa möguleika á því að geta unnið á alþjóðlegum markaði því nám fólks í rafiðn hér á landi er viðurkennt erlendis og íslenskir rafvirkjar eru eftirsóttir starfskraftar á Norðurlöndunum. Í því samhengi má rifja upp að fjöldinn allur af rafvirkjum sótti sér góðar tekjur til Noregs á árunum eftir hrunið.“ 

Kristján segir í viðtalinu að framtíðin fyrir rafiðngreinarnar sé björt þó gera verði átak í því að skólarnir geti tekið á móti fleiri nemendum og útskrifað þá til að koma til móts við aukna eftirspurn. „Það er ekki hægt annað en að vera bjartsýnn á framtíð greinarinnar enda mikil eftirspurn eftir menntuðu fólki í rafiðngreinum. Fjórða iðnbyltingin hefur beint sjónum okkar að nýjum og spennandi verkefnum og hvert sem við lítum innan greinarinnar eru tækni og nýsköpun í fyrirrúmi. Það eru því ótal tækifæri framundan.“