Fréttasafn19. nóv. 2018 Almennar fréttir Menntun

Vantar fleiri fagmenntaða starfsmenn

Íslenskur iðnaður og íslensk fyrirtæki hrópa á fleiri fagmenntaða starfsmenn. Það er alveg sama hvar borið er niður, alltaf er viðkvæðið það sama hjá íslenskum atvinnurekendum; okkur vantar fleiri fagmenntaða starfsmenn. Nú er svo komið að þetta er það sem vegur einna þyngst er atvinnurekendur eru spurðir um hvað hrjái þá helst í rekstri sinna fyrirtækja. Þetta kom meðal annars fram í erindi Guðrúnar Hafsteinsdóttur, formanns SI, sem hún flutti á sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í Hörpu í síðustu viku. 

Í erindi sínu fjallaði Guðrún um mikilvægi þess að mannauðurinn hér á landi búi yfir færni sem stenst samanburð við það sem best gerist annars staðar og sagði hún undirstöðu íslenska efnahagslífsins byggjast á vel menntuðu og hæfu starfsfólki. Hún sagði að í nokkurn tíma hafi verið kallað eftir því að breytingu þurfi að gera á menntakerfinu til að mæta breyttum tímum og nýjum áherslum. Það væri ekki nauðsynleg forsenda fyrir breytingarnar að setja meira fjármagn í menntakerfið, miklu frekar þyrfti nýja hugsun til að leysa vandann. „Við hjá Samtökum iðnaðarins kynntum nýlega menntastefnu samtakanna þar sem við drögum fram hvað þurfi að gera í íslensku menntakerfi til að mæta krefjandi áskorunum framtíðarinnar.“ 

Kröfur um færni að breytast

Guðrún sagði að fjórðu iðnbyltingunni sem þegar væri hafin fylgi miklar breytingar á tækni og störfum. „Oft er nefnt að um 60% þeirra starfa sem grunnskólabörn munu vinna við í framtíðinni þekkist ekki í dag og að á árinu 2020 verði mikilvægasta færnin fólgin í lausnamiðaðri og gagnrýnni hugsun og sköpun. Nú þegar er orðið heilmikið misræmi á milli þeirrar færni sem atvinnulíf sækist eftir og færni þeirra sem eru á vinnumarkaði. Það hefur að undanförnu reynst erfitt fyrir fyrirtæki að manna störf á sviði iðn-, tækni- og raungreina og mikilvægt að fjölga þeim sem útskrifast af þessum sviðum til að mæta þörfum atvinnulífsins.“

Áhersla á róttæka endurskoðun námskrár

Guðrún sagði það einkum vera tvö viðfangsefni í menntamálum sem Samtök iðnaðarins hafi látið sig varða á undanförnum misserum. „Annars vegar er um að ræða stóreflt átak í iðn- og verknámi og hins vegar er um að ræða tækninám í víðtækri merkingu þar sem forritun og viðfangsefni stafræns hagkerfis eru höfð að leiðarljósi.“ Hún sagði að forsvarsmenn atvinnulífsins leggi einnig ríka áherslu á róttækari endurskoðun námsskrár en verið hefur. „Þróun í menntamálum endurspeglar ekki þann hraða sem er á þróun og þörfum atvinnulífsins. Bent hefur verið á að vandinn snúi ekki aðeins að námsskránni heldur sé hann djúpstæðari og snúi að því hvernig efla megi kennarastéttina, efla námsefnisgerð og bregðast við þeim skýru vísbendingum sem þegar hafa komið fram um stöðu í íslensku menntakerfi, t.d. í niðurstöðum PISA.“

Sjávarútvegurinn þarf stöðugt iðn-, verk- og tæknimenntað fólk

Í erindi sínu vék Guðrún að sjávarútveginum sem væri ein af okkar undirstöðuatvinnugreinum sem hefur þurft á sérhæfðum tæknibúnaði að halda til að geta framleitt úr miklu magni af afla á sem skemmstum tíma. „Sjávarútvegurinn hefur haft umfram margar aðrar framleiðslugreinar hérlendis fjárhagslega burði til að vinna að framgangi og þróun tæknilausna með tæknifyrirtækjum. Þar af leiðandi hafa orðið til fjölmörg fyrirtæki hér á landi sem þróa vélar, hugbúnað eða aðrar tæknilausnir tengdum sjávarútvegi. Í dag eru yfir 40 fyrirtæki hér á landi sem bjóða tæknilausnir undir eigin vörumerki fyrir fiskvinnslu og mörg af stærri tæknifyrirtækjum landsins hafa orðið til í þjónustu og þróun eftir áratuga samstarf við útgerðir og fiskvinnslu. Má þar nefna Hampiðjuna, Héðinn, Ísaga, Íslenska Kalkþörungafélagið, Launafl, Marel, Slippinn á Akureyri, NaustMarine, Sæplast, StjörnuOdda, Vaki og Valka til að nefna nokkur.“ Hún sagði öll þessi fyrirtæki vera félagsmenn Samtaka iðnaðarins og þau þurfi stöðugt á iðn-, verk- og tæknimenntuðu fólki á að halda. „Því ber einnig að halda á lofti að mörg þessara fyrirtækja bjóða hinum ýmsu greinum matvælaframleiðslu tæknilausnir sem eiga uppruna sinn að rekja til þróunar í sjávarútvegi. Þannig hjálpar allt hvert öðru. Marel er í dag til dæmis orðið leiðandi á heimsvísu í tæknilausnum fyrir alifuglaslátrun þó uppruni fyrirtækisins sé í sjávarútvegi. Það má því segja að fyrirtæki okkar séu orðin leiðandi í matvælatækni og heildarvelta í greininni hleypur á hundruðum milljarða ef Marel og Hampiðjan eru tekin með í reikninginn.“ 

Sjavarutvegsradstefna-2018-3-