Fréttasafn9. maí 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Vantar lóðir og byggingarsvæði

„Ákallið frá okkar félagsmönnum er mjög skýrt um að það vanti lóðir og byggingarsvæði. Verktakar sem vilja byggja íbúðir fá ekki lóðir. Þess vegna hafa slíkir aðilar leitað meira í önnur sveitarfélög,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu. 

Hægt að byggja í Keldnaholti

Sigurður segir í frétt Morgunblaðsins að vandann liggi í því að meirihlutinn vilji ekki fjölga lóðum sem byggja megi á, en þær lóðir þar sem borgin hafi auglýst uppbyggingu séu í eigu fjárfesta og þeir ráði hvenær uppbygging eigi sér stað. Spurður hvort til séu svæði sem hægt sé að byggja á en ekki sé verið að úthluta segir Sigurður: „Besta dæmið um þetta er Keldnaholtið, það er nálægt byggð, það er stórt og hægt að byggja þar býsna margar íbúðir en meirihlutinn hefur lýst því yfir að þar muni engar framkvæmdir hefjast. Ekki fyrr en eftir árið 2030 allavega. Þeirra rök felast í því að þau vilji að borgarlína sé komin áður en byggt verður á svæðinu þótt vöntun sé á húsnæði og svæðið tilbúið til uppbyggingar og verktakar bíði eftir svæðum til að byggja á. Reykjavíkurborg gefur árlega út bækling sem sýnir skipulag borgarinnar; hvaða verkefni eru hafin og hvaða verkefni sé stefnt á að framkvæma. Í þessum bæklingi eru verkefni sem auglýst hafa verið á hverju ári í átta ár og aldrei hefjast framkvæmdir. Reykjavíkurborg hefur undanfarið auglýst uppbyggingu á svæðum sem hún á ekki og stýrir borgin því ekki hvenær eða hversu hratt byggt verður upp á þeim svæðum. Uppbyggingin hefur verið hægari en borgin hefur talað um.“ 

Sveitarfélög komi sér saman um að flýta uppbyggingu

Í fréttinni er Sigurður spurður hvort það sé raunhæft það sem Reykjavíkurborg sé að reikna með á næstu tíu árum að það muni þurfa að byggja um 35.000 íbúðir: „Það er alveg gerlegt en ekki miðað við núverandi fyrirkomulag. Sveitarfélögin öll þurfa að koma sér saman um að flýta uppbyggingu og fara í nauðsynlegar breytingar á skipulagi.“ 

Hækkun kemur illa niður á yngra fólki og tekjulægri

Þá kemur fram að Sigurður segir  að flöskuhálsinn í húsnæðismálum sé stefnu meirihlutans, sem ýti undir núverandi stöðu á húsnæðismarkaði, hækkandi verð og aukinn ójöfnuð. Hækkun fasteignaverðs komi illa niður á yngra fólki og þeim tekjulægri. „Það er auðvitað hægt að bjóða bara út lóðir, svo þeir sem vilja byggja kaupi lóðirnar og geti ráðist í framkvæmdir.“ 

Borgin fær hærri fasteignagjöld með hækkun húsnæðisverðs

Jafnframt kemur fram í fréttinni að Sigurður bendi á að hækkun húsnæðisverðs komi sér einkar vel fyrir eigendur húsnæðis og borgaryfirvöld, hækkun á fasteignaverði færi borginni hærri fasteignagjöld, en fasteignagjöld eru annar stærsti tekjustofn sveitarfélaga. Í fréttinni segir að frá árinu 2016 til ársins 2020 hafi álagður fasteignaskattur hækkað úr 15 milljörðum í tæpa 22,5 milljarða á ári. 

Morgunblaðið / mbl.is, 9. maí 2022.

Morgunbladid-09-05-2022