Fréttasafn



3. júl. 2018 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Vantar skýra atvinnustefnu

Í Morgunblaðinu í dag ræðir Baldur Arnarson, blaðamaður, við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir að stjórnvöld verði að bregðast við versnandi stöðu framleiðslufyrirtækja með skýrri atvinnustefnu annars sé hætta á að fleiri framleiðslufyrirtæki og störf fari úr landi, líkt og fréttir hafa verið um Novomatic, Rafnar og Odda. „Samtök iðnaðarins hafa kallað eftir atvinnustefnu stjórnvalda sem felur í sér samhæfingu á allri þeirri stefnumótun sem fram undan er. Varðandi m.a. nýsköpun, menntamál og orkumál. Vel hefur tekist til á undanförnum árum og losun hafta gerbreytti stöðunni til hins betra. Losun hafta var skil við fortíðina en það á eftir að skapa skilyrði til framtíðar og þess vegna köllum við eftir skýrri atvinnustefnu.“ 

Laun, vextir, skattar og tryggingagjald lægra erlendis

Sigurður segir í frétt blaðsins að það sé að koma á daginn að íslenskt hagkerfi standi ekki undir svo háum launum nema framleiðni aukist. „Það er hætt við að iðnaður sem fer úr landi komi ekki aftur. Framleiðslufyrirtæki hafa verið að hagræða og segja upp fólki í vetur. Það segir sína sögu þegar fyrirtæki vilja annaðhvort færa hluta starfseminnar utan eða telja sig ekki geta keppt við erlenda keppinauta vegna þess hversu hár innlendur kostnaður er orðinn. Laun og vaxtakostnaður eru lægri erlendis, sem og skattar og tryggingagjald. Þessi skilyrði eru erfið fyrir ný fyrirtæki sem og þau eldri. Hættan er sú að ný fyrirtæki verði síður til.“ 

Hægir á vexti framleiðsluiðnaðar

Í fréttinni kemur fram að hægt hafi á vexti framleiðsluiðnaðar í fyrra þar sem launþegum í greininni hafi þá aðeins fjölgað um 1% en um rúm 3% 2016 og að þessi þróun hafi haldið áfram í ár. Þá segir að störfum í framleiðslugreinum fjölgi mun hægar en í öðrum iðnaði og að gengi krónunnar hafi hækkað mikið í þessari efnahagsuppsveiflu og laun hækkað mun meira en í löndum helstu keppinauta. 

Launakostnaður á Íslandi einn sá allra hæsti í OECD ríkjunum

Með fréttinni er birt graf sem sýnir meðallaun á mánuði meðal OECD landanna árið 2017 og þar sést að Ísland er annað hæst á eftir Sviss. Á Íslandi eru meðallaun á mánuði 741.976 krónur í samanburði við meðaltalið sem er 361.217 krónur. Í Sviss eru meðallaun á mánuði 777.460 krónur.

Í fréttinni segir Sigurður að launakostnaður á Íslandi, mældur í erlendri mynt, sé orðinn einn sá allra hæsti í OECD ríkjunum og segir hann að laun í iðnaði hafi hækkað um 47% á Íslandi frá 2010 en um 36% heilt yfir sem sé mun meiri hækkun en í öðrum iðnríkjum á þessu tímabili. Þá segir að hækkunin komi í kjölfar mikillar hækkunar á gengi krónunnar og að sveiflurnar í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja hafi því verið allt of miklar. Það komi niður á samkeppnishæfni og vexti framleiðni og grafi þannig undan forsendum lífskjarabata. 

Morgunbladid-03-07-2018

Morgunblaðið / mbl.is, 3. júlí 2018.