Fréttasafn27. mar. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Vaxandi gagnaversiðnaður

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Bryndísi Jónatansdóttur, sérfræðing hjá SI, og Jóhann Þór Jónsson, formann Samtaka gagnavera, um aukna samkeppni í gagnaversiðnaðinum hér á landi.

Ómar Friðriksson, blaðamaður Morgunblaðsins, skrifar: Gagnaversiðnaðurinn hér á landi er vaxandi, gagnaverum fjölgar og viðskiptin færast í aukana en forsvarsmenn fyrirtækja í þessari grein kalla eftir skýrri stefnu stjórnvalda og aðgerðum svo landið geti orðið að fullu samkeppnishæft. Bryndís Jónatansdóttir, sérfræðingur hjá Samtökum iðnaðarins, bendir á að samkeppnin er alþjóðleg og hafa beri í huga að lönd eins og Svíþjóð, Danmörk, Finnland og Írlands hafa lagt mikið kapp á að laða til sín gagnaver með bættu starfsumhverfi og ívilnunum. Ísland hefur þó samkeppnisforskot á mörgum svið- um, m.a. þegar kemur að aðgengi að vatni, hagstæðri veðráttu og þeirri staðreynd að við erum með hæsta hlutfall endurnýtanlegrar orku í heimi. Raforkuþörf íslenska gagnaveraiðnaðarins er komin í 40 MW og fram kom í úttekt sem gerð var á stöðu þessara mála hér í fyrra að áætla megi að fyrir hvert 1 MW skapi iðnaðurinn 6 bein störf samanborið við 1 starf per MW í öðrum orkufrekum iðnaði. 

Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, segir að almennt sé staðan góð en samkeppnin við önnur lönd er mikil og fer vaxandi. Ísland hafi lengi búið að því að vera með hagstæðara raforkuverð en samkeppnisaðilar í öðrum löndum og þannig getað tryggt lengri tíma samninga á hagstæðum verðum. Þetta hefur hins vegar breyst hratt á undanförnum misserum og í dag er veruleg umframeftirspurn eftir raforku og nýlegar skýrslur sem m.a. Orkustofnun lét MIT vinna fyrir sig drógu upp frekar dökka mynd af orkuskorti í framtíðinni nema brugðist yrði ákveðið við. 

Átta meðlimir samtakanna 

Meðlimum í Samtökum gagnavera hefur fjölgað nokkuð á undanförnum misserum og eru í dag átta félög meðlimir í þeim. Þetta er sambland þeirra sem reka eigin gagnaver og þeirra sem hýsa hjá öðrum og eins eru nýlega komnir með rekstur erlendir aðilar sem starfrækja gagnaver en eru enn ekki orðnir meðlimir í samtökunum. Það er vöxtur í greininni. Eins og fram hefur komið hér í Morgunblaðinu hefur Síminn lýst eindregnum áhuga á að byggja eigið gagnaver á Hólmsheiði og fyrr í þessum mánuði samþykkti Borgarráð Reykjavíkur að veita fyrirtækinu Green Atlantic Data Centers vilyrði fyrir lóð á Hólmsheiði til að byggja hús undir rekstur gagnavers. 

Geti keppt á samkeppnishæfara verði við erlenda aðila 

En þrátt fyrir vaxandi umsvif blasa við mörg brýn úrlausnarefni. „Við höfum lagt áherslu á það við stjórnvöld að horft verði til raforkumarkaðarins og þess umhverfis sem íslensk gagnaver keppa í og þá bæði hvað varðar fyrirsjáanleika í orkuafhendingu til næstu ára og eins að horft verði til umhverfis gagnavera þegar kemur að því að komast á þann stað að verða talinn stórnotandi og geta þá keppt á samkeppnishæfari verðum við erlenda aðila,“ segir Jóhann. Í dag er ferlið bæði tímafrekt og flókið, að sögn hans, og of margar girðingar fyrir smærri aðila til að komast á gjaldskrá stórnotenda. „Gagnatengingar eru annað mikilvægt áhersluatriði en þar skiptir verðlagningin annars vegar miklu máli og hinsvegar rekstraröryggi sæstrengjanna gríðarmiklu máli en það atriði er ekki aðeins áhyggjuefni fyrir gagnaver heldur er þetta gríðarlega mikið öryggisatriði fyrir Ísland í heild sinni. Rekstraraðili gagnatenginga er í dag á einni hendi og hefur það sannarlega verið þyrnir í augum viðskiptavina okkar, þ.e. að hér séu þessi mál á einni hendi, en við höfum kallað eftir því við stjórnvöld, sem í raun ábyrgjast Farice þó það sé í eigu Arion, Landsvirkjunar og íslendka ríkisins, að þau taki þetta mál föstum tökum og horfi til gagnatenginga eins og annarra mikilvægra innviða í íslensku samfélagi og tryggi að þessi mál séu á þannig stað að öryggi og ekki síður verðlagning á gagnatengingum skapi grundvöll fyrir árangursríka uppbyggingu á gagnaversiðnaði á Íslandi,“ segir Jóhann. 

Binda vonir við jákvæð viðbrögð ráðherra 

„Við höfum dæmi um þetta frá bæði Svíþjóð og Írlandi þar sem skýr stefnumótum frá hendi stjórnvalda hefur skapað gríðarmikinn vöxt og árangur í þessum iðnaði. Samtök gagnavera leggja mikla áherslu á að vinna þessi mál í miklu og nánu samstarfi við stjórnvöld og náðist ýmislegt jákvætt fram með síðustu ríkisstjórn og við bindum miklar vonir við þá sem nú sitja við stjórnvölinn og benda fyrstu við- brögð til þess að þessi mál fái ágætar viðtökur hjá bæði Þórdísi Reykfjörð og Jóni Gunnarssyni,“ segir hann. 

Morgunblaðið, 27. mars 2017.