Fréttasafn



12. maí 2016 Iðnaður og hugverk

Vaxandi umsvif sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar

Íslenskur afþreyingariðnaður í erlendri samkeppni var yfirskrift morgunverðarfundar sem Félag rétthafa sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar (FRÍSK), Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) stóðu að í Húsi atvinnulífsins miðvikudaginn 11. maí. Hallgrímur Kristinsson, formaður FRÍSK, sagði kröfu þeirra sem starfa í afþeyingariðnaðinum vera þá að allir sitji við sama borð þar sem erlendir aðilar hafi ekki forskot á innlenda aðila.

Ágúst Þór Ágústsson, lektor við Viðskiptadeild HÍ, kynnti helstu niðurstöður úr skýrslu sem unnin var í samstarfi FRÍSK og SÍK um kvikmynda- og sjónvarpsmarkaðinn. Heildarvelta framleiðslu og dreifingu kvikmynda- og sjónvarpsefnis ásamt kvikmyndasýningum, dagskrárgerð og útsendingum sjónvarps og útvarps var 34,5 milljarðar króna á árinu 2014 og hefur vaxið um rúm 37% frá árinu 2009. Virðisauki greinarinnar eða framlag til landsframleiðslunnar er rúmir 11 milljarðar króna. Fyrirtækjum í kvikmynda- og sjónvarpsgerð hefur fjölgað mikið en á árinu 2008 voru þau 304 talsins og 2014 voru þau orðin 564. Í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði eru 1.300 ársverk sem er álíka og tilheyrði þremur stóriðjuverkefnum. Þá sagði Ágúst að andvirði seldra miða kvikmyndahúsa hefði lækkað og fjöldi gesta í kvikmyndahúsum væri svipaður og árið 2004. Einnig vakti hann athygli á að söluandvirði DVD hefði hrunið frá árinu 2009. Hann sagði skatttekjur hins opinbera af kvikmyndaiðnaðinum mun meiri en þau opinberu framlög sem fara til kvikmyndaiðnaðar ásamt framlögum til RÚV en í samanburði væru skatttekjurnar 11 milljarðar króna og framlögin 5,9 milljarðar króna. Samkvæmt könnun Gallup þá eru 27 þúsund heimili með áskrift að Netflix og sagði Ágúst að hið opinbera yrði af 1,1 milljarði króna vegna þess og ólöglegs niðurhals og streymis efnis.  

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri Miðla og markaðar hjá Símanum, sagði frá þróun Skjás 1 í samkeppni við erlendar efnisveitur. Hann sagði 80% af þeim sem eru á Netflix búna að færa sig yfir á  Netflix Ísland. Pantanir á efni hafa aukist mikið hjá Skjá 1 og sagði hann yfir 460 þúsund pantanir vera á mánuði. Hann benti á að enginn virðisaukaskattur væri á erlendri þjónustu en innlendar sjónvarpsstöðvar þyrftu að standa skil á margvíslegum kvöðum, þar af væri 24% virðisaukaskattur á VOD þjónustu. Til samanburðar eru engar kvaðir settar á erlenda aðila sem sýna efni á Íslandi. Viðbrögð Símans við erlendri samkeppni er stofnun félags í Lúxemborg svo hægt verði að starfa líkt og erlendir aðilar gera erlendis frá og komast þá jafnvel undan þeim kvöðum sem gerðar eru til innlendra aðila.  

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, fagnaði því að umræða um skapandi greinar væri orðin veruleg en 2007 hafi lítil sem engin umræða verið um greinarnar. Nú væri búið að sýna fram á hagræn áhrif en hún vildi einnig leggja áherslu á mikilvæg samfélagsleg áhrif til varðveislu tungumálsins og menningararfs. Hún sagði 29 erlenda aðila veita rafræna þjónustu og hafi þeir greitt 420 milljónir króna til hins opinbera frá árinu 2011. Hún tók undir margar af þeim tillögum sem FRÍSK hefur sett fram um breytingar á lögum um sölu bíómiða, rafræna útgáfu tónlistar og myndefnis. Hún ræddu um aukin fjárlög í gegnum kvikmyndasjóð og sjónvarpssjóð sem styður við íslenskt efni. Þá benti hún á mikilvægi þess að hafa jákvæða nálgun á málefnin.  

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði íslenskuna ekki vera samkeppnishæfa sem tungumál og internetið væri án landamæra, sem betur fer. Taka þyrfti tillit til þessa þegar málefni afþreyingariðnaðarins væru rædd, það væri erfitt að koma í veg fyrir að fólk næði í efni þegar það er í boði og einhverjir vilja veita þjónustuna. Hann minntist langafa síns sem var þingmaður og hafði komið því í gegnum Alþingi að öll bókasöfn landsins fengju frítt eintak af hverri bók sem gefin væri út og þau lög væru enn við lýði. Hann fór í gegnum tillögur FRÍSK og sagðist vera sammála 7 af þeim 9 tillögum sem settar hafa verið fram. Meðal annars telur hann að lögreglan eigi að hafa önnur mál í forgangi en að eltast við höfundaréttarbrot.