Fréttasafn



23. maí 2019 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Vaxtarsproti ársins er Carbon Recycling International

Fyrirtækið Carbon Recycling International hefur verið valið Vaxtarsproti ársins sem er viðurkenning fyrir öfluga uppbyggingu sprotafyrirtækis. Ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, afhenti Vaxtarsprotann í morgun í Flórunni í Grasagarðinum í Laugardal.

Carbon Recycling International var stofnað árið 2006 en það rekur verksmiðju í Svartsengi sem framleiðir metanól úr koltvísýringi og vetni, sem er nýtt innanlands og á Evrópumarkaði. Fyrirtækið þróar jafnframt og selur heildstæða tæknilausn til að framleiða vistvænt eldsneyti og efnavöru fyrir almennan markað. Tæknin er afrakstur mikilla rannsókna og þróunar og er vernduð með einkaleyfi. Segja má að fyrirtækið hafi rutt brautina á þessu sviði en verksmiðjan í Svartsengi var sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum. Rekstrartekjur fyrirtækisins jukust um 193% á milli áranna 2017 og 2018, en þær fóru úr rúmum 76 milljónum króna í 225 milljónir.

Tvö önnur sprotafyrirtæki, Taktikal og Kerecis, hlutu einnig viðurkenningar fyrir vöxt í veltu en Carbon Recycling International sem sýndi mestan hlutfallslegan vöxt auk þess að uppfylla önnur viðmið dómnefndar fær nafnbótina Vaxtarsproti ársins. Taktikal sérhæfir sig í ráðgjöf og þjónustuhönnun fyrir rafrænar undirritanir og aðra traustþjónustu en sérfræðingar þess hafa þróað lausn sem auðveldar þjónustuveitendum innleiðingu og rekstur á rafrænum undirskriftum á sveigjanlegri hátt. Kerecis er lækningavörufyrirtæki sem notar roð til að græða sár og styrkja líkamsvefi, til dæmis við meðhöndlun á sykursýkissárum, endurgerð á brjóstum og til viðgerðar á kviðslitum.

Vaxtarsprotinn er samstarfsverkefni Samtaka iðnaðarins, Samtaka sprotafyrirtækja, Háskólans í Reykjavík og Rannsóknarmiðstöðvar Íslands. Þetta er í 13. skiptið sem viðurkenningarnar eru veittar en tilgangur verkefnisins er að vekja athygli á góðum árangri sprotafyrirtækja í örum vexti og skapa þannig aukinn áhuga og skilning á uppbyggingarstarfi þessara fyrirtækja. Í dómnefnd voru Gísli Hjálmtýsson fyrir Háskólann í Reykjavík, Lýður Skúli Erlendsson fyrir Rannsóknarmiðstöð Íslands, Salóme Guðmundsdóttir fyrir Samtök sprotafyrirtækja og Sigríður Mogensen fyrir Samtök iðnaðarins.

Á Facebook er hægt að skoða fleiri myndir frá afhendingunni.

Eftirfarandi fyrirtæki hafa hlotið Vaxtarsprotann:

- 2007 Marorka

- 2008 Mentor

- 2009 Mentor

- 2010 Nox Medical

- 2011 Handpoint

- 2012 Valka

- 2013 Meniga

- 2014 DataMarket

- 2015 Kvikna

- 2016 Eimverk

- 2017 Kerecis

- 2018 Kaptio

- 2019 Carbon Recycling International

Eftirfarandi fyrirtæki hafa fengið viðurkenningu fyrir góðan vöxt:

- 2007 Gagarín, Stiki, Stjörnu-Oddi

- 2008 Betware, Valka, Kine

- 2009 Naust Marine, Gogogic, Saga Medica

- 2010 Valka, Hafmynd, Menn og Mýs

- 2011 Marorka, Trackwell, Gogogic

- 2012 Kvikna, ORF Líftækni, Thorice

- 2013 Controlant, Nox Medical, Lceconsult

- 2014 Valka, Nox Medical, Skema

- 2015 Kvikna, Valka

- 2016 Lauf Forks, Orf Líftækni, Valka

- 2017 TeqHire, Valka, Kvikna

- 2018 Kerecis, Gangverk, Orf-Líftækni

- 2019 Taktikal, Kerecis

Vaxtarsprotinn-2019-2-Frá afhendingu viðurkenninganna, talið frá vinstri, Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, Bjarki Heiðar Ingason, meðeigandi Taktikal, Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hugverkasviðs SI, Sindri Sindrason, forstjóri CRI, Árni Sigurjónsson, varaformaður SI, Ingólfur Örn Guðmundsson, stjórnandi hjá Kerecis, Íris Ólafsdóttir, formaður Samtaka sprotafyrirtækja, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunar- og dómsmálaráðherra.

Viðskiptablaðið, 24. maí 2019