Fréttasafn



30. mar. 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Vaxtartækifæri í hugverkaiðnaði

„Innan raða SI eru fjölbreytt fyrirtæki; lítil, meðalstór og stór í öllum greinum iðnaðar,“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar og hugverkasviðs SI, í blaðinu Sóknarfæri. Hún segir að innan raða SI sem séu stærstu hagsmunasamtök atvinnurekenda á Íslandi með um 1.400 félagsmenn séu félagsmenn í matvælaiðnaði, fjölbreyttri framleiðslu, bygginga- og mannvirkjagerð og handverksiðnaði. „Einnig tilheyrir orkusækinn iðnaður SI, meðal annars álver og gagnaver. Svo er það hugverkaiðnaðurinn sem samanstendur af greinum sem eru margar hverjarnýjar í samhengi við rótgrónari atvinnugreinar. Það sem fyrirtæki í hugverkaiðnaði eiga sameiginlegt er að þau byggja á rannsóknum, þróun og nýsköpun. Það má segja að auðlindin í hugverkaiðnaði sé fjárfesting í rannsóknum og þróun.“

Þegar Sigríður er spurðt hvert mikilvægi og stærð hugverkaiðnaðarins sé í dag segir hún að það eigi eftir að koma ítarlegar útflutningstölur frá Hagstofunni fyrir árið 2021. „En nýjustu staðfestu tölur sem við erum með eru frá árinu 2020 og samkvæmt greiningu okkarskapaði hugverkaiðnaður 16% af útflutningstekjum Íslands það ár og hefur tvöfaldast að stærð frá árinu 2013. Hugverkaiðnaður hefur því fest sig rækilega í sessi sem fjórða stoð útflutnings.. Allar tölur sem við höfum séð síðan benda til þess að hugverkaiðnaður hafi vaxið enn frekar á síðustu misserum og eru sífellt fleiri fyrirtæki að taka stór stökk um þessar mundir“. 

Stærsta útflutningsgrein Íslands áður en langt um líður

Þá kemur fram í viðtalinu að vaxtartækifærin séu nær ótakmörkuð vegna þess að ólíkt öðrum greinum þá byggi hugverkaiðnaður að mjög takmörkuðu leyti á auðlindanýtingu, þá helst grænni raforku eins og í líftækniiðnaði, en í samhengi við stærð alþjóðamarkaðar sé Ísland lítið og skalanleikinn því mikill. „Við hjá SI teljum að hugverkaiðnaður hafi alla burði til þess að verða stærsta útflutningsgrein Íslands áður en langt um líður. Það góða er að þetta er undir okkur komið, atvinnulífi og stjórnvöldum, hvernig þróunin verður. Ef rétt er haldið á málum og hindrunum rutt úr vegi verður þessi sýn að veruleika. Hugverkaiðnaður verður þá stærsta og verðmætasta útflutningsgrein Íslands innan örfárra ára.“

Skattahvatar fyrir rannsóknir og þróun leiða til nýrra verðmætra starfa

Sigríður segir í Sóknarfærum að hugverkaiðnaðurinn hafi fest sig í sessi. „Hann var vaxtasproti fyrir nokkrum árum. Auðvitað eru fjölmörg sprotafyrirtæki innan hugverkaiðnaðar en það eru líka fjölmörg stór og stöndug fyrirtæki sem eru nú þegar að skapa miklar útflutningstekjur þannig að ég myndi segja að við getum hætt að kalla þetta vaxtasprota af því að þetta er útflutningsstoð sem er komin til að vera. En jú, vissulega má kalla þetta vaxtasprota í því samhengi að þarna eru ómæld vaxtatækifæri. Stjörnvöld hafa blessunarlega sýnt þessum málum miklu meiri athygli á undanförnum þremur til fjórum árum sérstaklega. Hvatar til nýsköpunar eru háðir aðgerðum á vettvangi stjórnmálanna og gott dæmi um það eru skattahvatar fyrir rannsóknir og þróun. Þeir leiða til þess að það verða til ný verðmæt störf í rannsóknar- og þróunarverkefnum sem leiðir til verðmætasköpunar. Stjörnvöld hafa stutt meira við hugverkaiðnaðinn á undanförnum árum með því að auka þessa skattahvata. Endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunar hafa hækkað; bæði hlutfall og þak á endurgreiðslum. Sú aðgerð skipti sköpum og hefur ýtt rækilega undir vöxtinn. Það er auðvitað er ávísun á aukinn útflutning til framtíðar. Umhverfi og hvatar til nýsköpunar á Íslandi hafa tekið stakkaskiptum á síðustu árum og það er mjög jákvætt. Við sjáum þetta einnig í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þar er settur mikill fókus á hugverkaiðnaðinn. Þannig að við erum bjartsýn á að vöxtur hugverkaiðnaðar verði í forgangi á vettvangi stjórnvalda á þessu kjörtímabili. Nýtt háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti skiptir einnig máli í þessu sambandi og er í takti við breyttar áherslur. Ríkisstjórnin á mikið hrós skilið fyrir þessar áherslur og þær hafa sannarlega skilað sér í vexti hugverkaiðnaðar og aukinni verðmætasköpun fyrir íslenskt þjóðarbú.“

Skortur á sérfræðingum stærsta vaxtarhindrunin

Í viðtalinu kemur fram að það vanti fólk með menntun á þessu sviði. Sigríður segir að stærsta vaxtarhindrun hugverkaðnaðar í dag og það sé skortur á sérfræðingum. „Sérfræðiþekkingu á ýmsum sviðum. Fyrirtæki í hugverkaiðnaði eru háð því að hafa greiðan aðgang að menntuðu fólki bæði í tækni- raun og vísindagreinum, svokölluðum STEM- greinum. Því miður erum við ekkert sérstaklega vel stödd á því sviði. Þetta er þegar orðin vaxtahindrun hjá fjölmörgum fyrirtækjum. Lausnin við þessu er tvíþætt: Leggja þarf aukna áherslu í menntakerfinu á STEM-greinarnar en svo þurfum við líka að átta okkur á því að við stöndum í alþjóðlegri samkeppni um hæfileikaríkt og vel menntað fólk og til þess að byggja upp þessa nýju útflutningsstoð til framtíðar þurfum við að treysta líka á erlenda sérfæðinga. Við hjá SI höfum lagt mikla áherlsu á það undanfarin ár að það verði liðkað fyrir komu erlendra sérfræðinga til Íslands. Við stóðum nýlega í upplýsingaöflun hjá félagsmönnum okkar og sjáum að umfangið er mjög mikið. Ég myndi áætla að hingað til lands þurfi að koma hundruðir ef ekki þúsundir erlendra sérfræðinga á næstu árum til þess að byggja undir áframhaldandi vöxt í hugverkaiðnaði. Tölvuleikjaiðnaðurinn er gott dæmi um þetta, en starfsfólki í tölvuleikjaframleiðslu fjölgaði um 35% í miðjum heimsfaraldri og hafa fjölmörg tölvuleikjafyrirtæki þurft að leita út fyrir landsteinana.“

Sóknarfæri, 30. mars 2022.