Fréttasafn



30. sep. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Veggjöld ráðist af hvort samgöngur verði greiðari

Vilji almennings og fyrirtækja til að greiða veggjöld hlýtur að ráðast af því hvort þær framkvæmdir sem nú verður ráðist í geri samgöngur hér á höfuðborgarsvæðinu greiðari. Öllum er ljóst að grípa þarf til aðgerða. Við fögnum því að ríki og sveitarfélög ætli í tímabærar samgöngubætur á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu í dag um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins

Vegfarendur greiði um helming 

Í fréttinni kemur fram að sáttmálinn geri ráð fyrir miklum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu á næstu tíu árum, götur verða lagðar í stokk, mislæg gatnamót byggð, vegir breikkaðir og borgarlínan útbúin og alls eigi þetta að kosta 150 milljarða króna og þar af verði hlutur vegafarenda, sem greiða notendagjöld, um helmingur. Einnig kemur fram að fyrirhugaðar eru ýmsar vegaframkvæmdir úti á landi þar sem gert sé ráð fyrir að gjöld sem vegfarendur greiða fjármagni verkefnin að mestu. „Nú þegar útlit er fyrir minni umsvif í byggingariðnaði, til dæmis við framkvæmdir tengdar ferðaþjónustu og byggingu íbúðarhúsnæðis, er kærkomið að hið opinbera stuðli að framkvæmdum,“ segir Sigurður í viðtali við blaðamann. „Hafa verður í huga að fjárfesting í innviðum er fjárfesting í hagvexti framtíðar enda leggja traustir innviðir grunn að verðmætasköpun samfélagsins hvort sem litið er til iðnaðar, sjávarútvegs eða ferðaþjónustu.“ 

Nú er rétti tíminn til opinberra framkvæmda

Í Morgunblaðinu bendir Sigurður á að á síðustu árum hafi verið mikið umleikis í verktaka- og byggingastarfsemi, ný hótel hafi verið reist víða um land á undanförnum áratug og hafi kröftum byggingariðnaðar verið beint í þá átt en  nú hafi dregið úr fjárfestingu þar samhliða því sem dragi úr hröðum vexti ferðaþjónustunnar. „Ef við lítum aftur á móti til byggingar íbúðarhúsnæðis þá var lítið byggt á árunum eftir 2008 en meira undanfarin ár. Nú eru vísbendingar um að minna sé í pípunum. Dregið hefur úr sementssölu og sölu á steypustyrktarjárni auk þess sem nýleg talning Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu bendir til minni umsvifa en áður var talið.“ Hann segir byggingariðnaðinn vera mjög sveigjanlegan og sem dæmi nefnir hann að þegar mest var voru ríflega 16 þúsund launþegar starfandi í byggingariðnaði árið 2007 en voru um 14.500 í júlí síðastliðnum, hafði fjöldinn þá staðið í stað frá fyrra ári og að iðnaðurinn geti því sannarlega tekist á við aukin verkefni. „Nú er rétti tíminn til opinberra framkvæmda og brýn verkefni bíða. Það er slaki í hagkerfinu um þessar mundir sem stjórnvöld eiga einmitt að nýta og ráðast í framkvæmdir sem eru arðbærar á allan mælikvarða.“

Morgunblaðið / mbl.is, 30. september 2019.