Fréttasafn28. jún. 2017 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Vegir og vegleysur

Hagvöxtur síðustu ára hefur að stórum hluta verið byggður á samgöngum landsins. Framfarir á sviði samgöngumála gera það að verkum að Ísland er ekki lengur úr leið heldur aðgengilegur áfangastaður fyrir ferðamenn. Framfarir þessar hafa fyrst og fremst verið í flugi en flugferðir milli Íslands og umheimsins eru nú tíðari, ódýrari og á allan máta aðgengilegri fyrir hinn almenna ferðamann en nokkru sinni áður.   

Miklar framfarir í flugi

Ein sérstaða Íslands sem ferðamannastaðar er að ríflega 90% af þeim erlendu ferðamönnum sem hingað koma gera það með flugi enda lega landsins þannig. Innan ríkja OECD er þetta að meðaltali um 54%. Framfarir á því sviði nýtast því landinu sérstaklega vel. Önnur sérstaða er sú að ferðamenn sem hingað koma ferðast fyrst og fremst um landið í bifreiðum en ekki með innanlandsflugi og með lestum í sama mæli og víðast hvar annars staðar. Framfarir á sviði vegamála eru því afar mikilvægar fyrir vöxt greinarinnar og hagkerfisins.

Aukin umferð bifreiða

Þar sem náttúrufegurð er helsta aðdráttarafl ferðamanna þá hefur vexti ferðaþjónustunnar fylgt mikil aukning í umferð um vegi landsins og yfir brýr. Mikið hefur verið fjárfest í bílaflotanum en tæpur helmingur nýrra seldra bíla hér á landi hefur farið til bílaleiga. Er reiknað með að bílaleigubílar í landinu verði 26 þúsund í lok þessa árs eða ríflega fimm sinnum fleiri en þegar þessi uppsveifla ferðaþjónustunnar hófst fyrir um sex árum síðan. Einnig hefur verið fjárfest mikið í hópferðabifreiðum á þessum tíma. Mun minna hefur hins vegar farið fyrir fjárfestingum í vegum og brúm.  

Slitnir vegir og einbreiðar brýr

Sá þáttur samgöngumála sem hefur setið eftir í þessari framþróun eru vegamálin. Vexti ferðaþjónustunnar hefur á þeim vettvangi ekki verið fylgt nægjanlega eftir með viðhaldi og nýjum fjárfestingum. Afleiðingin er m.a. meiri tafir og minna umferðaröryggi með viðeigandi kostnaði fyrir bæði ferðaþjónustuna og þjóðarbúið í heild. 

Fjárfestingar hins opinbera á sviði vegasamgangna námu um 1,0% af landsframleiðslu í fyrra. Hefur þetta hlutfall verið lágt síðustu sex árin eða að jafnaði um 0,9% af landsframleiðslu en meðaltal fjárfestinga hins opinbera á þessu sviði tvo áratugina þar á undan er 1,6% og er þar verið að miða við tímabil þar sem enginn viðlíka vöxtur var í ferðaþjónustunni og nú hefur verið síðustu ár. Undanfarin ár hafa fjárfestingar á þessu sviði rétt náð að halda í við afskriftir samkvæmt þjóðhagsreikningum og vegasamgöngurnar því alls ekki náð að vaxa með því aukna vægi sem vegasamgöngur hafa nú í verðmætasköpun þjóðarbúsins. Er þetta lága stig fjárfestinga í samgöngum farið að sýna sig í verri gæðum samgangna enda hefur umferð aukist stórlega á sama tíma. Segja má að álagið á vegum landsins hafi aldrei verið meira en umferð um hringveginn var t.d. 44% meiri á fyrstu fimm mánuðum þessa árs en á sama tíma fyrir fimm árum síðan.

Setja þarf fjárfestingar á þessu sviði í forgang

Ljóst er að það þarf að gera talsvert betur á þessu sviði ef við ætlum að tryggja sem best öryggi í umferðinni fyrir allan almenning í landinu og byggja undir ferðaþjónustu hér á landi þar sem ferðamenn fara héðan heilir á húfi og sáttir við dvöl sína. Rekstur vegakerfis og uppbygging þess á að greiðast af mörkuðum tekjustofnun eða sköttum af bensíni og díselolíu. Auknar tekjur af umferð eru hins vegar ekki að skila sér til málaflokksins. Það hefur skapast mikil uppsöfnuð þörf fyrir fjárfestingar á þessu sviði undanfarin ár.  Til að stemma stigu við þessari þróun og skapa í leiðinni svigrúm fyrir frekari hagvöxt hér á landi þarf að setja innviðafjárfestingar á þessu sviði í forgang.

Ingólfur Bender, hagfræðingur SI

ingolfur@si.is, s. 8246105