Fréttasafn14. mar. 2024 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Vegvísir um rannsóknir í mannvirkjagerð

Nýr vegvísir um mótun rannsóknarumhverfis mannvirkjagerðar var gefinn út með formlegum hætti 12. mars í húsakynnum HMS en stofnunin fer með forræði hans. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og Sunna Ólafsdóttir Wallevik, stofnandi og framkvæmdastjóri Gerosion, tóku til máls í tilefni útgáfunnar.

Vegvísir sem varðar leiðina að bættu rannsóknarumhverfi

Sigurður Hannesson sagði í ræðu sinni að vert væri að fagna þeirri mikilvægu vinnu fjölda fólks sem snýr að rannsóknum í mannvirkjagerð. „Útgáfan markar jafnframt nýjan kafla í þessari sögu en vegvísirinn varðar leiðina að bættu rannsóknarumhverfi næstu 12 til 24 mánuðina. Að þessu mikilvæga uppbyggingarstarfi loknu má búast við því að umgjörð rannsókna verði í takti við þarfir markaðarins og samfélagsins. Iðnaðurinn hefur lengi kallað eftir þessari vinnu og þess vegna fagna ég því að við séum hér í dag.“

Leggja þarf stóraukna áherslu á markvissar rannsóknir

Þá kom Sigurður einnig inn á mikilvægi vinnunnar og setta hana í samhengi við þá staðreynd að fasteignamat allra fasteigna á Íslandi nemur ríflega þrefaldri landsframleiðslu eða 14.400 milljörðum, og byggingariðnaðurinn velti ríflega 600 milljörðum á síðasta ári. „Í nýrri stefnu Mannvirkjaráðs Samtaka iðnaðarins, sem kynnt var í nóvember í fyrra, setti iðnaðurinn það efst á blað að stuðla að stöðugum og markvissum umbótum í gæðum mannvirkja. Leggja þarf stóraukna áherslu á markvissar rannsóknir í mannvirkjaiðnaði sem skapa markaðnum virði og tryggja þarf öflugt rannsóknarumhverfi mannvirkjaiðnaðar til að styðja hér við framþróun og bætt gæði.“

Vilji iðnaðarins að vinna að umbótum við gerð og viðhalds mannvirkja

Einnig sagði Sigurður að bætt rannsóknarumhverfi mannvirkjagerðar sé forsenda þess að iðnaðurinn geti brugðist við fjölmörgum nýjum kröfum á borð við vistvænni uppbyggingu og bætta gæðaferla. „Samtök iðnaðarins munu því ásamt sínum félagsmönnum leggja sitt af mörkum þegar kemur að því að vinna þeim aðgerðum sem fjallað er um í vegvísinum brautargengi. Það er sannarlega vilji iðnaðarins að vinna að umbótum við gerð mannvirkja og viðhaldi, byggt á rannsóknum, skilvirku eftirliti, aukinni fræðslu og gæðastýringu.“  Sigurður sagði að samhliða því að þörf fyrir rannsóknir sé kortlögð og sett sé upp umgjörð til að mæta þeirri þörf sé brýnt að finna farveg fyrir prófanir þannig að byggingarefni standist kröfur og íslenskar aðstæður. Þá þurfi að tryggja fjármuni í þetta framfaramál fyrir samfélagið. Hann sagði samtökin hafa unnið með HMS að vinnslu vegvísisins frá upphafi ásamt öðrum hagaðilum. „Vil ég fyrir hönd iðanðarins þakka innviðaráðuneytinu, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu, menningar- og viðskiptaráðuneytinu og ekki síst HMS fyrir þessa góðu vinnu. Hún sýnir að okkar mati að það er metnaður hjá stjórnvöldum til að taka betur á þessu mikilvæga máli til að auka gæði og til að mæta breyttum kröfum.“

16 aðgerðir á næstu 12-24 mánuðum

Vegvísirinn inniheldur 16 aðgerðir sem vinna skal að á næstu 12-24 mánuðum og felur m.a. í sér stofnun Vísindaráðs til að greina rannsóknarþörf. Fulltrúar atvinnulífsins í ráðinu eru 4:

  • Byggingarvörur - Dr. Sigríður Ósk Bjarnadóttir, Hornsteinn
  • Verkfræðistofa – Sandra Rán Ásgrímsdóttir, Cowi
  • Arkitektar - Halldór Eiríksson, T.ark arkitektar
  • Verktakar -  Kristín Þrastardóttir, Eykt

Samtöl við hátt í 70 hagaðila

Niðurstöðurnar úr vegvísinum byggja meðal annars á samtölum við hátt í 70 hagaðila, aðgerð 9 í hönnunarstefnu og aðgerð 2.9. í hvítbók húsnæðisstefnu. Vegvísirinn byggir einnig á samráði við m.a. Skipulagsstofnun, Tæknisetur, Samtök iðnaðarins, Verkfræðingafélag Íslands, Arkitektafélag Íslands, Hönnunarmiðstöð, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands

Í vegvísinum er umgjörð rannsóknarumhverfis mannvirkjagerðar skoðað út frá þremur þáttum: Framkvæmd rannsókna, miðlun og hagnýtingu rannsóknarniðurstaðna, og prófanir á byggingarvörum og eftirlit með framleiðslustýringu.

Hér er hægt að nálgast vegvísinn.

ZfAUoEmNsf2sHg8V_HMS.Vegvisir.120324_forsida