Fréttasafn15. des. 2016 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Veik aðgerð að hækka eldsneytisgjöld til að draga úr þenslu

Samtök iðnaðarins mótmæla harðlega þeirri viðbótarhækkun á krónutölusköttum sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi sem nú er til umræðu á Alþingi. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir 2,2% hækkun á krónutölusköttum og gjaldskrám. Samtökin gera ekki athugasemdir við þá hækkun sem gerð er til að halda raunsköttum óbreyttum á viðkomandi vöru. Hins vegar er bætt við 2,5% sérstakri hækkun á þessum gjöldum til þess að „slá á þau þensluáhrif sem hafa látið á sér kræla undanfarna mánuði í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins eða 4,7% hækkun alls“.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri SI, telur það ákaflega veika aðgerð að hækka þröngan gjaldstofn eins og eldsneytisgjöld til að draga úr þenslu. „Það hefur nánast engin áhrif og er bara aukabyrði á fyrirtæki og heimili. Ef ætlunin er að beita ríkisfjármálum með það að markmiði að draga úr þenslu væri árangursríkara að gera það á útgjaldahlið ríkisfjármála eða með almennum hætti í skattkerfinu. Skatttekjur ríkissjóðs eru þegar að vaxa umtalsvert vegna aukinna umsvifa í hagkerfinu og það eru engin rök til þess að hækka þessar vörur sem bera krónutöluskatta sérstaklega umfram aðrar vörur.“

Almar telur hækkunina að auki byggja á veikum forsendum en áætlað er að hækkunin skili ríkissjóði 3,2 milljörðum króna. „Í fyrsta lagi fer hækkun á þessum gjöldum beint út í verðlag. Reikna má með að vísitala neysluverðs hækki um 0,2% bara vegna þessarar hækkunar og eykur þannig verðbólgu sem því nemur og dregur úr kaupmætti. Verðbólga er einn þenslumælikvarði og þessi skattahækkun eykur á hana. Í öðru lagi er um að ræða viðbótarskattahækkun á vörur sem þegar bera mjög háa skatta svo sem áfengi, bensín og olíu. Áfengisskattar á Íslandi eru nú þegar með því hæsta sem þekkist í heiminum og hafa hækkað mun meira en almennt verðlag síðustu ár.“ 

Samtök iðnaðarins mótmæla því einnig að tryggingagjald skuli ekki lækkað líkt og samkomulag stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í janúar 2016 kvað á um. Í þeim samningum var samþykkt að framlag atvinnurekenda í lífeyrissjóði myndi hækka um 0,5% stig 2016, 1,5% stig 2017 og 1,5% stig 2018. Var tryggingagjald lækkað  á þessu ári um 0,5% stig og fyrirheit um frekari lækkun upp á 0,5% stig 2017 og 2018 til að mæta auknu framlagi í lífeyrissjóði. Sameiginlegur skilningur aðila var að  gjaldið færi niður í 4,5% árið 2015. Samtökin leggja því mikla áherslu á að staðið verði við samkomulagið og tryggingagjald verði lækkað um 0,5% stig 1. júlí 2017 og aftur 1. júlí 2018.